Drjúgur Fyrirliðinn Kristófer Acox reyndist Val mikilvægur er hann skoraði 18 stig og tók 11 fráköst í sigri liðsins á Hetti á Egilsstöðum í gærkvöldi.
Drjúgur Fyrirliðinn Kristófer Acox reyndist Val mikilvægur er hann skoraði 18 stig og tók 11 fráköst í sigri liðsins á Hetti á Egilsstöðum í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Njarðvík, Valur, Þór frá Þorlákshöfn og Grindavík unnu öll góða útisigra í 18. umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik í gærkvöld

Körfuboltinn

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Njarðvík, Valur, Þór frá Þorlákshöfn og Grindavík unnu öll góða útisigra í 18. umferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik í gærkvöld.

Njarðvík heimsótti Íslandsmeistara Tindastóls á Sauðárkrók og vann með minnsta mun, 69:68, eftir gífurlega spennu.

Tindastóll fékk tækifæri til þess að tryggja sér sigurinn í einni lokasókn þegar örfáar sekúndur lifðu leiks. Þriggja stiga tilraun Keyshawns Woods geigaði hins vegar, Davis Geks náði frákastinu en tveggja stiga tilraun hans klikkaði sömuleiðis.

Dwayne Lautier-Ogunleye var stigahæstur Njarðvíkinga með 15 stig. Chaz Williams bætti við 14 stigum, sex fráköstum og átta stoðsendingum.

Adomas Drungilas var stigahæstur í leiknum með 21 stig og tíu fráköst fyrir Tindastól.

Njarðvík fór með sigrinum upp í þriðja sæti deildarinnar, þar sem liðið er með 24 stig.

Tindastóll er áfram í sjöunda sæti með 18 stig.

Valur sýndi styrk sinn

Topplið Vals gerði góða ferð til Egilsstaða og lagði Hött að velli, 92:83.

Mikið jafnræði var með liðunum framan af en í síðari hálfleik náði Valur að slíta sig ögn frá heimamönnum og halda forystu allt til enda.

Taiwo Badmus fór fyrir Val og skoraði 25 stig. Kristinn Pálsson bætti við 20 stigum og sjö fráköstum og fyrirliðinn Kristófer Acox skoraði 18 stig og tók 11 fráköst.

Obadiah Trotter var stigahæstur hjá Hetti með 23 stig og sjö fráköst. Adam Ásgeirsson bætti við 18 stigum.

Valur er áfram á toppi deildarinnar, nú með 30 stig. Höttur er enn í áttunda sæti með 18 stig.

Auðvelt hjá Þór í Kópavogi

Þór gerði góða ferð í Kópavoginn og lagði þar Breiðablik örugglega að velli, 105:82.

Stigahæstir hjá Þór voru Tómas Valur Þrastarson og Nigel Pruitt með 23 stig hvor. Pruitt tók auk þess 11 fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Hjá Breiðabliki var Keith Jordan stigahæstur, og jafnframt í leiknum, með 26 stig og tíu fráköst.

Þór fór með sigrinum upp í fjórða sæti, þar sem liðið er með 24 stig.

Breiðablik er áfram í 11. og næstneðsta sæti, fallsæti, með aðeins fjögur stig. Eru Blikar sex stigum frá öruggu sæti.

Hamar enn án sigurs

Grindavík heimsótti nýliða Hamars til Hveragerðis og bar sigur úr býtum, 97:87.

Stigahæstur í liði Grindavíkur var DeAndre Kane með 20 stig.

Stigahæstur í leiknum var Franck Kamgain með 28 stig, tíu fráköst og fimm stoðsendingar í liði Hamars.

Grindavík fór með sigrinum upp í annað sæti, þar sem liðið er með 24 stig.

Hamar vermir enn botninn án stiga.

Línur að skýrast

Útlitið er orðið ansi dökkt fyrir Breiðablik og Hamar og fátt sem virðist ætla að koma í veg fyrir fall þeirra niður í 1. deild.

Valur á deildarmeistaratitilinn vísan og ljóst er að barátta fimm til sex liða um að komast í úrslitakeppnina með því að ná 5.-8. sæti og forðast 9.-10. sæti verður hörð allt til enda.