Jónas Bragi Hallgrímsson fæddist á Akranesi 5. júlí 1949. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi 1. febrúar 2024.

Foreldrar Jónasar voru Hallgrímur Guðmundsson, f. 19. janúar 1905, d. 12. mars 1988, og Sólveig Sigurðardóttir, f. 15. september 1909, d. 17. nóvember 1987.

Systkini Jónasar eru: Gunnar Líndal Jónsson, f. 6. ágúst 1930, d. 2. febrúar 1989. Guðrún Kristín Hallgrímsdóttir, f. 8. október 1934, d. 4. janúar 1935. Inga Lóa Hallgrímsdóttir, f. 14. maí 1936, d. 14. október 2020. Sigurður Hafsteinn Hallgrímsson, f. 13. júlí 1937, d. 13. september 2021. Guðmundur Jens Hallgrímsson, f. 25. júní 1941. Hallgrímur Þór Hallgrímsson, f. 8. apríl 1944, d. 26. mars 2021. Pétur Sævar Hallgrímsson, f. 6. nóvember 1950, d. 13. mars 2006.

Eftirlifandi eiginkona Jónasar er Guðný Aðalgeirsdóttir, f. 30. október 1949. Þau gengu í hjónaband 21. nóvember 1970. Foreldrar Guðnýjar voru Aðalgeir Halldórsson, f. 21. mars 1912, d. 12. mars 2001, og Anna Guðjónsdóttir, f. 31. mars 1924, d. 16. nóvember 2005.

Börn Jónasar og Guðnýjar eru: Aðalheiður Anna, f. 7. júní 1969, maki: Thomas Bent Hansen. Jónas gekk Önnu í föðurstað og ættleiddi. Díana, f. 20. júlí 1972, maki: Magnús Ýmir Magnússon. Heimir, f. 6. febrúar 1974, maki: Helga Dís Daníelsdóttir. Aðalgeir, f. 16. apríl 1975, maki: Lilja Lind Sturlaugsdóttir. Víðir, f. 22. september 1977.

Barnabörnin eru 10, í aldursröð: Daníel Þór Heimisson, Sindri Snær Magnússon, Matthildur Helga Víðisdóttir, Helgi Laxdal Aðalgeirsson, Anna Berta Heimisdóttir, Sigurður Már Magnússon, Finnbogi Laxdal Aðalgeirsson, Díana Ósk Víðisdóttir, Skúli Hrafn Víðisson og Jónas Laxdal Aðalgeirsson.

Jónas ólst upp á Akranesi, gekk í Barnaskóla Akraness og síðar Gagnfræðaskóla Akraness. Jónas var 16 ára gamall þegar hann byrjaði að stunda sjómennsku og 19 ára hóf hann nám í matreiðslu.

Jónas vann sem kokkur alla sína starfsævi, fyrst til sjós á skipum eins og Höfrungi II, Sigurborginni, Sigurfara, Skírni, Rauðsey og Guðmundi RE. Jónas vann í eldhúsinu í versluninni Skagaveri á Akranesi í 18 ár. Eftir það fór hann aftur á sjóinn á olíuskipin Kyndil og Stapafell. Síðustu starfsár Jónasar voru í Fjölsmiðjunni í Kópavogi.

Jónas var meðlimur í Lionsklúbbi Akraness í 42 ár.

Jónas bjó alla sína ævi á Akranesi og lengst af á heimili þeirra hjóna að Esjuvöllum 1.

Útför Jónasar fer fram frá Akraneskirkju í dag, 16. febrúar 2024, klukkan 13.
Streymi:

https://fb.me/e/51S1qPCBq

Elsku pabbi.

Það er erfitt að hugsa til þess að þú sért horfinn á braut, farinn á vit nýrra ævintýra. En efst í huga mér er þakklæti. Ég er svo þakklát fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig. Elsku pabbi, takk fyrir góðmennsku þína. Takk fyrir allt traustið sem þú sýndir mér. Takk fyrir að standa alltaf með mér. Takk fyrir allar uppskriftirnar og góða matinn þinn. Takk fyrir allt þitt óeigingjarna starf við sundiðkun mína. Takk fyrir að taka vel á móti vinum mínum og öðru samferðafólki mínu og bjóða það velkomið inn á heimili þitt. Takk fyrir að styðja mig í því sem ég hef tekið mér fyrir hendur, þó svo við höfum ekki alltaf verið sammála. Takk fyrir allar veislurnar sem þú töfraðir fram á merkum tímamótum í lífi mínu. Takk fyrir að leyfa mér að gera það sem mér datt í hug. Takk fyrir að taka þátt í að gera mig að þeirri manneskju sem ég er í dag.

Elsku pabbi, síðustu mánuðir lífs þíns voru þér erfiðir en nú ertu búinn að fá hvíldina góðu. Hafðu það gott og ég bið að heilsa ömmu og afa og systkinum þínum. Takk fyrir allt og allt.

Kær kveðja.

Þín dóttir,

Díana.

Í dag kveð ég pabba með miklum söknuði.

Pabbi, eins og ég hef alltaf kallað hann þótt ekki hafi hann verið blóðfaðir minn, gekk mér í föðurstað stuttu eftir fæðingu mína og ættleiddi mig fyrir nokkrum árum. Hann tók mér opnum örmum og sýndi aldrei annað en að ég væri hans eigin dóttir. Fyrir það er ég honum ævinlega þakklát.

Pabbi var sérstaklega skemmtilegur karakter, mikill húmoristi, vinur vina sinna, duglegur og hafði áhrif á marga í kringum sig. Ég byrjaði snemma að vinna í kringum hann í Skagaveri, byrjaði að raða í poka eins gert var fyrir kúnnana í þá daga. Að vinna í kringum pabba var góður skóli. Pabbi var svo ótrúlega skipulagður í starfi og metnaðarfullur, mætti alltaf til vinnu, stóð sína plikt og var sérlega góður stjórnandi.

Pabbi var oftast kallaður „Jónas kokkur“ enda var hann kokkur af lífi og sál og eldamennskan átti hug hans allan. Hann elskaði að bjóða í mat og setningar á borð við „viltu ekki borða“ „fáðu þér meira“ heyrði ég ansi oft.

Hann var sérstaklega ánægður þegar fólk borðaði mikið.

Það var alveg sama hvað margir bættust við í mat, það var alltaf til nægur matur.

Tíminn á Esjuvöllunum er mér sérstaklega kær og það sem mér fannst svo dásamlegt við pabba var hvað allir voru alltaf velkomnir á heimilið. Pabbi var líka vinur vina minna og mér er minnisstætt þegar ég hélt upp á 40 ára afmælið, þá var hann aðalnúmerið og hélt uppi fjörinu. Þegar hann var í stuði þá ultu upp úr honum sögurnar, hann sagði alltaf svo skemmtilega frá. Hann var svo ófeiminn og gat talað við alla, náði einhvern veginn alltaf að fanga athygli fólks. Ef maður var búinn að hitta pabba einu sinni mundi maður eftir honum.

Pabbi var mikill fjölskyldumaður og vildi helst alltaf hafa allan flokkinn sinn í kringum sig og í mat. Oft hringdi hann í mig og sagði: „Hvað ertu að gera, ætlarðu ekki að koma?“

Í mörg ár meðan ég bjó á Íslandi kom ég alltaf við á Esjuvöllunum seinnipartinn á föstudögum, því þá bakaði hann í vinnunni og kom heim með súkkulaðiköku sem alltaf var kölluð „sígild“.

Kaffi og sígild á Esjuvöllum var byrjun á góðri helgi.

Pabbi minn, í dag er föstudagur þegar ég kveð þig og að sjálfsögðu fæ ég mér „sígilda“ og kaffi og hugsa um okkar góðu stundir og allt sem þú hefur verið fyrir mig.

Þakka þér fyrir samfylgdina elsku pabbi minn. Hvíl í friði.

Þín dóttir,

Anna.

Nú ert þú búinn að kveðja okkur, elsku besti Jónas, sem ég gat svo stolt kallað tengdapabba. Ég var aðeins 14 ára gömul þegar ég kom inn í fjölskylduna og tókst þú mér strax opnum örmum. Þú varst hress og léttur og sagðir mikið af skemmtilegum sögum á fyndinn hátt með smá „salti“ stundum.

Börnunum okkar varst þú frábær afi, hringdir í þau daglega og vildir alltaf fá að fylgjast með.

Hafðu það gott á himnum.

Þín tengdadóttir,

Helga Dís.

Febrúarmánuður var ekki margra mínútna gamall þegar Jónas Hallgrímsson kvaddi okkur. Ég var þess heiðurs aðnjótandi að kalla þann mann afa. Afi var einstaklega góð manneskja, mikill Skagamaður, lúmskur húmoristi og sannarlega góður afi, enda elskaði hann okkur barnabörnin meira en allt og vildi allt fyrir okkur gera.

Afi elskaði mat og helgaði líf sitt því að matreiða alls konar mat. Síðasti vinnustaður hans var í Fjölsmiðjunni í Kópavogi. Í sumar- og páskafríum fékk ég stundum að fara með afa í vinnuna að hjálpa honum og veit ég að það þótti honum skemmtilegt. Þar tók ég sérstaklega vel eftir hversu mikillar virðingar hann naut frá krökkunum og öðru starfsfólki.

Alla tíð sem ég man eftir afa fór hann frekar snemma í rúmið. En afi fór ekkert alltaf að sofa strax, heldur las hann minningargreinarnar í Morgunblaðinu. Ég skildi ekkert í því hvers vegna hann væri alltaf að lesa minningarorð um manneskjur sem hann aldrei hafði heyrt af. En þetta þótti honum það besta í blaðinu. Svo sagði hann mér að þegar kæmi að því að ég færi að skrifa minningargrein um hann, þá yrði að koma þar fram að þegar afi eldaði þá væri alltaf búið að skræla allar kartöflurnar á borðinu. Hann var vissulega einkar laginn við að skræla þær og man ég ekki eftir mat á Esjuvöllunum án þess allar kartöflur á borðinu væru skrældar. Honum þótti kartöflur ekki vondar og hvatti hann okkur strákana til þess að borða vel af þeim, þar sem þær væru sérlega góðar í punginn.

Í þau ófáu skipti sem ég fór í mat til ömmu og afa var alltaf passað vel upp á að allir fengju nóg. Maður var aldrei búinn með allt á diskinum án þess að heyra afa segja manni að fá sér meira og helst yrði maður að klára allan matinn á borðinu. Afi sá um matinn í fermingarveislunni minni og varð fyllt lambalæri fyrir valinu. Afi hafði gert ráð fyrir mat og voru þrettán læri sem áttu að fara í gesti. Þegar kom að eftirréttinum var afi ekki búinn að skera læri sjö en samt voru allir löngu búnir að fá meira en nóg. En þannig var afi, allir áttu að fá nóg og helst aðeins meira en nóg. Aldrei man ég eftir að hafa farið svangur heim af Esjuvöllunum, það var í raun ekki hægt.

Síðustu árin þín afi voru þér og þínum nánustu erfið. Heilsunni hrakaði og erfitt var að koma í veg fyrir það sem í stefndi. En aldrei kom sá dagur að þú viðurkenndir það fyrir mér að þér liði neitt sérstaklega illa. Þú kvartaðir aldrei. Ef ég spurði hvort heilsan væri eitthvað að skána gláptir þú á mig og sagðir að ekkert væri að þér og við ættum að tala um eitthvað annað en það. Þú sýndir mikið æðruleysi í þínum veikindum þó svo að það hafi ekki alltaf verið auðvelt.

Elsku afi, það verður skrítið að hafa þig ekki hjá okkur. Mér fannst alltaf ákaflega gott að tala við þig og hafa þig nálægt mér. Trúin sem þú hafðir á mér var einstök. Ég mun reyna að standa mig vel í því sem ég tek mér fyrir hendur og ég veit að þú munt horfa stoltur á mig. Ég skal hugsa vel um ömmu og hjálpa henni á þessum erfiðu tímum. Megi minning afa Jónasar lifa.

Þinn

Daníel Þór Heimisson.

Vinir eru vandfundnir. Ekkert jafnast á við smá erfiðleika, viljirðu komast að hverjir eru vinir þínir. Þannig vinur var Jónas, það reyndi ég svo sannarlega á eigin skinni.

Vinskapur okkar byrjaði þegar ég og Guðný kona Jónasar fórum að vinna saman og gerðum það í 22 ár. Það hefur aldrei borið skugga á þann vinskap. Guðný er algjör perla og þar vann Jónas stóra vinninginn í happdrætti lífsins. Stóð með honum í gegnum lífsins ólgusjó.

Hann var sérlega bóngóður og hafði gott lag á börnum og unglingum. Þess nutu börn hans og barnabörn í ríkum mæli og hann naut þess að hvetja þau í einu og öllu.

Mestallt sitt líf vann hann við matreiðslu, ég held að það hafi bæði verið vinnan hans og áhugamál. Ég man ótalmargar veislur hjá þeim hjónum, og þar voru veitingarnar ekki skornar við nögl. Hann hafði mikið gaman af að veita vel. Hann var lengi kokkur hjá Fjölsmiðjunni í Kópavogi, þar naut sín lagni hans við ungmenni og var hann afar stoltur þegar tveir af hans skjólstæðingum lærðu til kokks.

Margt skemmtilegt hefur verið gert í áranna rás. Ferðalög bæði innanlands og utan. Minnisstæðar ferðir á Íslendingaslóðir í Kanada, til Bandaríkjanna á 50 ára afmæli þínu og sigling yfir Atlantshafið. Óteljandi útilegur og samverustundir.

Síðustu ár voru honum erfið vegna veikinda og þá eins og alltaf stóð Guðný eins og klettur við hlið hans.

Söknuður er mestur hjá Guðnýju, börnum og öllum afkomendum. Votta ég þeim innilega samúð. Eftir lifir minning um góðan mann.

Sigríður
Eiríksdóttir.

Það var okkur mikið áfall að frétta að Jónas væri genginn á vit feðranna. Hann var ekki góður til heilsunnar undir það síðasta en við bjuggumst ekki við því að hann yfirgæfi okkur ekki eldri en hann varð.

Jónas var matsveinn á skipum og bátum frá Akranesi og þótti afbragðskokkur, það var aðdáunarvert að fylgjast með honum við matreiðsluna og borðhaldið eins og honum var einum lagið jafnt heima hjá sér eða til sjós. Jónas var yfirleitt glaðsinna, skemmtilegur og hrífandi maður og átti gott með að umgangast aðra í kringum sig en stóð fast á sínu ef þess þurfti og lagði það í vana sinn að vera hreinn og beinn í samskiptum við samferðafólkið. Eftir að Jónas kom í land af sjónum starfaði hann lengi hjá Skagaveri og endaði síðan starfsferilinn hjá Fjölsmiðjunni í Kópavogi. Þar var hann mjög ánægður og ríkti þar eins og kóngur í ríki sínu innan um unga fólkið. Jónas reyndist mörgu af unga fólkinu stoð og stytta á erfiðum tímamótum í lífi þess.

Jónas og Guðný áttu fimm börn og bjuggu við mikið barnalán. Börnin þeirra ólust upp við gott atlæti hjá foreldrum sínum, sem létu sér annt um og studdu þau af fremsta megni í lífi þeirra. Það var oft líflegt og skemmtilegt hjá þeim hjónum á Esjuvöllunum með stóran barnahópinn sinn.

Hjónin bjuggu á Skagabraut, Esjuvöllum og nú síðast á Akralundi 2. Það var alltaf gaman að hitta Jónas og ræða við hann um menn og málefni. Hann var ávallt með fjölskylduna og starfið í huganum. Jónas var annálaður Volvo-áhugamaður og má segja að Volvo-bíllinn hans með númerinu E-1234 hafi verið eitt helsta kennileiti á Akranesi á sínum tíma.

Blessuð sé minning hans. Við sendum Guðnýju eiginkonu Jónasar og börnum þeirra, Önnu, Díönnu, Heimi, Aðalgeiri, og Víði, okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Ragnheiður, Halldór, Guðmundur, Ásdís og Heiðar.

Látinn er félagi okkar Jónas Hallgrímsson. Jónas gekk til liðs við Lionsklúbb Akraness þann 10. desember 1982 og hefur því verið félagi í rúm 40 ár. Hann hlaut Melvin Jones-viðurkenningu árið 2011. Jónas var gjaldkeri klúbbsins starfsárið 1987-1988. Þá var hann meðstjórnandi starfsárið 1991-1992. Hann starfaði í mörgum nefndum innan klúbbsins og oft var hann formaður. Má þar nefna ferðanefnd og skemmtinefnd, stjórn líknarsjóðs skógræktarnefndar og hússtjórn.

Jónas mætti afar vel á klúbbfundi og var oftar en ekki með 100% mætingu. Hann tók þátt í viðburðum á vegum klúbbsins og fjáröflunum eins og hann gat. Seinni árin fór hann í ferðir á vegum klúbbsins en átti erfitt með þátttöku í fjáröflunum vegna líkamlegra þátta. Ég minnist þess að á því tímabili sem hann var á sjó og gat eðlilega ekki mætt á fundi vegna starfa sinna, þá var það segin saga þegar nafnakall var viðhaft á fundum og nafn Jónasar var lesið upp að menn brustu í söng með orðunum: „Á sjó.“ Það er alltaf sárt að sjá á bak góðum félaga en svona er gangur lífsins. Við félagarnir í Lionsklúbbi Akraness sendum fjölskyldu Jónasar okkar innilegustu samúðarkveðjur á þessari erfiðu stund. Hafi hann mikla þökk fyrir sín störf í þágu Lionsklúbbs Akraness. Guð blessi minningu Jónasar Hallgrímssonar.

F.h. félaga í Lionsklúbbi Akraness,

Benjamín
Jósefsson.

Í dag er vinur minn Jónas Hallgrímsson lagður til hinstu hvílu.

Jónas á mikið í mér. Leiðir okkar hafa legið saman síðan ég man eftir mér. Fyrst í gegnum börnin hans, besta vin minn Heimi og Díönu vinkonu mína og jafnöldru. Einnig vorum við Jónas vinnufélagar í versluninni Skagaveri.

Jónas var kokkur að ævistarfi, bæði í landi og á sjó, og var kokkur í Skagaveri þegar ég fékk vinnu þar sem sendill, að mig grunar fyrir hans góðu orð, ég nýkominn með bílpróf. Þar var gaman að vinna, eitt skemmtilegasta starf sem ég hef unnið á minni starfsævi. Jónas, Óli Tedda, Baldur, Kalli og það frábæra starfsfólk sem þar var bjuggu til einstaklega skemmtilegan vinnustað. Þarna lærði ég hvað þjónusta við viðskiptavini er, sem svo sannarlega hefur nýst mér vel í lífi og starfi.

Jónas mætti snemma og undirbjó daginn, kjötborðið var græjað og hádegismaturinn undirbúinn. Þegar ég mætti var ég sendur út að gera og græja og svo skutla út matarbökkum í hádeginu. Alltaf var Jónas með kveðjur og sögur sem ég átti að skila til þeirra sem voru að kaupa matinn. Á föstudögum var mikið stuð, allur bærinn að kaupa inn fyrir helgina og Jónas með vodkapelann kláran í skúffunni þegar líða fór að lokun. Þetta voru skemmtilegir tímar þegar verslun var list.

Á þorranum var mikið um að vera og lagði Saltarinn, eins og við Heimir kölluðum Jónas, í súr og svo var selt í blót. Eitt skiptið fengum við Heimir að aðstoða þá Jónas og Óla við blót að Lýsuhóli. Fylltum við sendilinn af mat og sátum við aftur í á forláta kollum, með matinn allt í kring. „Strákar, þið verðið bara að passa ykkur að detta ekki á matinn.“ Það var ekkert vesen í denn.

Á heimleiðinni var vitlaust veður og ekki sást á milli stika. Það dæmdist á Óla að keyra heim en við hinir fengum blöndur fyrir vel unnin störf og sagði Jónas sögur alla leiðina. Undir Hafnarfjalli var svo pissustopp, við hlógum mikið þar sem horfðum yfir Borgarnes og Jónas sagði: „Mikið svakalega er fallegt hérna í Hítardalnum.“

Það var gott að leita ráða hjá Jónasi, sérstaklega varðandi matseld. Bestu ráðleggingar sem ég fékk voru varðandi eldunina á hangikjöti fyrir ein jólin. Ég vildi prófa að elda það í ofni og spurði Jónas ráða. „Haddi minn, þú setur þetta bara í ofnskúffu og aðeins af vatni og lætur þetta bara malla.“ Hvað þarf þetta að vera lengi í ofninum, spyr ég? „Sko, þú færð þér bara tvo tvöfalda gin í tónik og þá er þetta bara tilbúið.“ Óborganlegt og lýsir honum vel.

Jónas starfaði síðar hjá Fjölsmiðjunni þar sem hann vann með ungu fólki. Þar naut hann sín svo sannarlega og það naut hans ráða, enda átti hann með eindæmum auðvelt með að ná til ungs fólks. Það sást vel í því hversu mikið barnabörnin nutu þess að vera hjá ömmu og afa. Oft var boðið í hádegismat á Esjuvöllunum þegar þau voru í Fjölbrautaskólanum og vinir þeirra fengu reglulega að fljóta með, það var alltaf gaman á Esjuvöllunum hjá Jónasi og Guðnýju.

Síðustu árin brást heilsan og held ég að á endanum hafi Jónas verið hvíldinni feginn.

Þakka þér fyrir samfylgdina, ráðin og skemmtunina, elsku Jónas.

Hafsteinn Víðir Gunnarsson.