[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Reynsla mín er engu að síður sú að þetta rólega umhverfi hefur góð áhrif á líðan þeirra og hegðun. Það er lítið um svokallaðan úlfatíma á heimilinu því börnin eru sjaldan örþreytt eftir langa daga.“

Sólveig er gift Jóni Heiðari Hannessyni og eru börnin fjögur á aldrinum sjö til 19 ára. Hún segist hafa verið ung þegar fyrsta barnið kom í heiminn en þrátt fyrir að hafa verið blaut á bak við eyrun í fyrstu fann hún strax að hlutverkið átt vel við hana.

„Ég hef alltaf haft gaman af börnum og unnið nær allan minn starfsferil með börnum. Ég held að ég hafi alltaf viljað stóra fjölskyldu og maðurinn minn var sammála því. Hjartað stækkaði með hverju barninu og það er góð tilhugsun að eiga líklega eftir að eiga marga afkomendur. Það er ekkert sem mér finnst mikilvægara en börnin mín og tíminn með þeim er gríðarlega verðmætur. Foreldrahlutverkið getur verið krefjandi og það er mikil ábyrgð sem fylgir því að vera foreldri. Fátt er samt jafn gefandi og það gildir það sama um uppeldið og flest annað í lífinu. Það þarf að vanda vel til verka því það mun skila sér að lokum.“

Lifa hæglætislífi

Eldri börnin tvö voru í hefðbundnum skóla en yngri börnin sem eru sjö og níu ára eru í heimakennslu.

„Það eru nokkrar ástæður fyrir því að við erum með börnin okkar í heimakennslu. Ég er þeirrar skoðunar að í fjölbreyttu samfélagi eigi að vera í boði fjölbreyttar leiðir að sama markmiði. Markmiðinu að mennta börn. Við fjölskyldan reynum að lifa rólegu lífi, svokölluðu hæglætislífi. Í því felst meðal annars að stjórna sjálf hraðanum og lífi okkar frekar en að láta utanaðkomandi þætti stjórna. Það má því segja að heimakennslan hafi komið sem rökrétt framhald af þessum lífsstíl. Með kennslu af þessu tagi er auðvelt að skapa börnunum rólegt og streitulítið umhverfi.

Jafnframt hef ég sterkar skoðanir á skólastarfi og því hvað skiptir mestu máli þegar kemur að námi. Það er mikilvægt að mæta börnum þar sem þau eru stödd hverju sinni. Vinna með styrkleika þeirra fremur en veikleika og byggja þannig upp sterka sjálfsmynd. Vellíðan barna í skólastarfi skiptir að mínu mati meginmáli. Því ef börnum líður illa kemur það niður á öllu öðru í lífi þeirra og þar með talið námi. Í heimakennslu er auðvelt að vinna með styrkleika barnsins og mæta þörfum þess.

Helsta ástæða þess að ég valdi þessa leið er þó sú að ég fylgdi hjartanu. Það var eitthvað innra með mér sem sagði að þessi leið væri rétt og að ég ætti að velja hana. Mér finnst það mjög eðlilegt að vera mikið með börnunum mínum og eiga sterk tengsl við þau. Það er í raun mjög náttúrulegt að vera mikið með börnunum sínum og þannig var þetta hér áður fyrr. Ég tel hluta af vandamálum barna í dag vera vegna fjarveru og lítils tíma með foreldrum sínum.“

Sólveig segir að það geti ekki hver sem er sinnt heimakennslu. Það þarf að sækja um leyfi hjá viðkomandi sveitarfélagi auk þess að vera með kennsluréttindi. Hún er í samstarfi við þjónustuskóla og fær kennsluefni þaðan. Hún sækir þó innblástur í þekktar kennslustefnur eins og Montessori og Waldorf-hugmyndafræði.

„Námið er bæði nokkuð hefðbundið þar sem unnið er í kennslubókum í bland við meira lifandi og óhefðbundnara nám. Það er mjög margt í daglegu lífi sem tengja má við nám og fer besta námið oft fram utan skólastofunnar. Við dvöldum til að mynda í framandi landi í mánuð í desember og þar lærðu börnin margt. Það sem við upplifum og gerum situr oft betur eftir en það sem við lesum um í kennslubókum,“ segir Sólveig.

Hvernig er skóladagurinn?

„Hefðbundinn skóladagur er þannig hjá okkur að börnin læra frá um það bil 9 til 12 fyrir hádegi. Eftir hádegismat æfa þau sig á hljóðfærin sín og svo tekur tómstundastarf við um tvöleytið. Að auki fer nám líka fram þegar okkur og börnunum hentar. Þau til að mynda smíða og skapa í bílskúrnum þegar þau eru í stuði eða elda og baka þegar tími gefst. Á þann hátt skapast frábært tækifæri til að blanda saman námi og hinu hefðbundna lífi.

Ég legg áherslu á að vinna með innri hvöt barnanna frekar en utanaðkomandi styrkingu. Þau fá ekki að sjá einkunnir sínar heldur ræðum við um framfarir og hvað þau geta meira en áður. Þau eru til að mynda ekki að læra að lesa til að geta lesið hratt eða fengið einkunnir heldur eru þau að læra að lesa fyrir sig. Svo þau geti lesið og gert það sem þau vilja í framtíðinni. Tilgangurinn er að þau hafi trú á eigin getu, séu ánægð með sig og viti að þau geti elt drauma sína – fyrir sig en ekki aðra.“

Börnin hitta aðra krakka eftir skóla

Aðspurð segist hún ekki fá mikla gagnrýni þó að hún hafi fundið fyrir fordómum.

„Ég hef aðeins fundið fyrir fordómum en þá má líklega rekja til þess að fólk hvorki þekkir þessa leið né okkur. Fólk er oft hrætt við það sem er framandi. En heilt yfir hef ég mest fundið fyrir jákvæðum áhuga. Ég sýni frá heimakennslunni á miðlinum mínum á Instragram og almennt finnst mér fólk jákvætt og áhugasamt. Mér þykir sérstaklega skemmtilegt þegar ég veit að skólafólk er að fylgjast með okkur og jafnvel fá hugmyndir og innblástur.“

Stór hluti af skólagöngu er að efla félagsþroska, hvernig fer það fram í heimaskóla?

„Það eru alls konar önnur tækifæri til þess að efla félagsþroska en bara í skólum. Börnin eru í fjölbreyttum tómstundum þar sem þau hitta önnur börn og efla um leið félagsþroska. Eins eiga þau vini í hverfinu sem þau fara reglulega til. Svo má ekki gleyma því að börn eiga ekki bara jákvæð félagsleg samskipti í grunnskólum. Þau lenda líka í alls konar árekstrum og vandamálum sem þau fá ekki alltaf rými til að vinna úr. Almennt eru börnin mín mjög spennt að fara í tómstundir sínar og hitta aðra krakka og vini sína eftir skóla. Þau eru líka vel upplögð í félagsleg samskipti þar sem þau hafa átt rólega morgna.“

Bekkir of stórir en kennarar vinna magnað starf

Sólveig hefur reynslu af því að vera með börn í hinu hefðbundna skólakerfi annars vegar og í heimakennslu hins vegar. Hún segist ekki hafa ákveðið að kenna yngri börnunum heima vegna þess að hún hafi verið óánægð með almenna skólakerfið.

„Flestir skólar og þar á meðal skóli eldri barna minna eru að vinna gott og faglegt starf. Hefðbundin skólaganga og heimakennsla hafa hvor um sig sína kosti og galla. Kennarar í hefðbundnum skólum eru flestir töframenn og vinna magnað starf. Vandinn í hinu hefðbundna skólastarfi er hins vegar sá að það eru of mörg börn á hvern fullorðinn. Bekkir of stórir og starfsmenn ná ekki að sinna börnum eins vel og þeir vilja. Afleiðingin er því sú að það líður ekki öllum börnum vel í þessu hefðbundna kerfi okkar.“

Hjónin eru byrjuð að sækja um leyfi fyrir heimakennslu á næsta ári. Þau reyna hins vegar að lifa í núinu og eru ekki að hugsa um hvort og hvenær þessu tímabili lýkur.

„Við hugsum ekki lengra fram í tímann en eitt ár og metum líðan barnanna ár frá ári. Eins og staðan er núna líður þeim vel og þau vilja vera í heimakennslu. Ef þau vilja og við teljum hagsmunum þeirra betur gætt í hefðbundnu skólakerfi, þá fara þau þangað. Við munum vinna með það þegar að því kemur og höfum ekki miklar áhyggjur af þeirri aðlögun. Ef það koma upp vandamál þá tökumst við á við þau.“

Börnin sjaldan örþreytt

Verðið þið aldrei þreytt á því að vera saman allan sólarhringinn?

„Auðvitað verð ég þreytt á mínum börnum eins og aðrir foreldrar. Það getur alveg reynt á að vera svona mikið með börnunum sínum og svo vinnur pabbi þeirra á sjó þannig að ég er hluta ársins ein með heimilið. En það er líka ósköp eðlilegt að verða stundum þreyttur á börnunum sínum og þau mega alveg vera þreytt á mér. Reynsla mín er engu að síður sú að þetta rólega umhverfi hefur góð áhrif á líðan þeirra og hegðun. Það er lítið um svokallaðan úlfatíma á heimilinu því börnin eru sjaldan örþreytt eftir langa daga. Þau eru í sinni rútínu hér heima þó að þau fari ekki að heiman á morgnana eins og önnur börn. Við fáum svo pásur hvert frá öðru þegar þau fara í tómstundir eða að leika við vini. Ég reyni að nýta þær pásur markvisst til þess að hugsa um sjálfa mig og fylla á minn bolla. Ég hef lært það hve mikilvægt það er að passa upp á sig sem foreldri til þess að vera tilbúin að takast á við öll þau fjölbreyttu verkefni sem geta komið upp. Svo þegar pabbi þeirra er heima skiptumst við á að kenna.“

Sólveig er fjögurra barna móðir og segist alltaf vera að læra og þroskast sem móðir og sem einstaklingur.

„Sjálfsvinna og að geta litið í eigin barm er að mínu mati mjög mikilvægt í uppeldi. Það er enginn fullkominn og það er alltaf hægt að bæta sig í einhverju. Eitthvað sem ég taldi kannski rétt í uppeldi fyrir mörgum árum tel ég ekki endilega vera rétt í dag. Ég hef til að mynda lært að skammir og refsingar virka ekki vel í uppeldi. Ef börn haga sér illa þá er það vegna þess að þeim líður ekki nógu vel. Þá er mikilvægt að finna ástæðu og vinna með hana. Mæta börnunum svo frekar með hlýju og skilningi en hörku.

Maður verður öruggari í uppeldinu með hverju árinu og mér finnst mun auðveldara að setja mörk í dag en þegar ég var ung móðir. Þannig verður uppeldið vissulega að einhverju leyti auðveldara með hverju barni. En börn eru ólík og verkefnin tengd þeim því misjöfn. Svo hefur uppeldi líka alls konar stig. Það koma til að mynda upp ný verkefni á unglingsárunum sem maður hefur ekki tekist á við áður. En hvað varðar heimakennsluna hefði ég ekki treyst mér í að kenna eldri börnunum mínum heima. Ég þurfti ákveðinn þroska og ró til þess að leggja af stað í þessa vegferð. Í dag er mér til að mynda nokkuð sama um álit annarra en þannig hefði mér ekki liðið fyrir 10-15 árum.“

Útivera er góð fyrir alla

Finnst þér of mikill hraði í samfélaginu?

„Já, mér finnst almennt of mikill hraði í samfélaginu og það er ætlast til of mikils af börnum og foreldrum. Boltarnir sem þarf að halda á lofti eru ansi margir. En vissulega eru ekki allir í þeirri aðstöðu að geta hægt mikið á lífi sínu en það eru samt alltaf ákveðin atriði sem hægt er að vinna með. Við þurfum til að mynda að huga að því hvernig við notum tímann með börnunum okkar þegar við erum með þeim. Eigum við stundum rólegar helgar eða er hver helgi þaulskipulögð?

Svo er gott að hafa í huga að skjánotkun er ekki góð fyrir taugakerfi barna okkar á meðan útivera róar og nærir kerfin. Ég hef mikið notað útiveru í uppeldinu, bæði fyrir mig og börnin. Útivera er nefnilega ekkert síðri fyrir þreytta foreldra en tætt börn. Það koma allir ferskari inn. Ég opnaði nýlega heimasíðu þar sem er meðal annars hægt að fá góð ráð um það hvernig megi hægja taktinn í uppeldinu. Svo megum við alls ekki gleyma því að við foreldrar erum fyrirmyndir barna okkar. Erum við alltaf á fullu að klára öll verkefni eða setjumst við stundum niður og bara erum á staðnum?“