Pamela Morrison fæddist í Reykjavík 3. október 1942. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans 26. janúar 2024.

Foreldrar hennar voru Ásta Jónsdóttir, f. 3. desember 1911, d. 27. febrúar 1992, og Hughie Morrison frá Englandi. Móðurforeldrar voru Jón Tómasson, f. 13. júlí 1867, d. 15. nóvember 1915, og Ingibjörg Jóhanna Jóhannsdóttir, f. 22. maí 1882, d. 4. febrúar 1969. Sammæðra systkin Pamelu voru Lárus Thorarensen, f. 7. júní 1934, d. 1. desember 1978, og Sverrir Már Sverrisson, f. 1. janúar 1940, d. 9. október 2016.

Pamela giftist 10. ágúst 1962 Olaf Forberg, f. 31. október 1940. Þau eignuðust tvö börn: 1) Olaf Forberg, f. 26.9. 1963. Unnusta Ragnheiður Drífa Dagbjartsdóttir, f. 24.6. 1972. Olaf og Ragnheiður eru barnlaus en Olaf á dóttur úr fyrra sambandi, með Ingibjörgu Gunnarsdóttur, f. 1964, Pamelu Tinnu Forberg, f. 19.7. 1988. Hún á börnin: Mána Þór Gylfason, f. 14.6. 2010, og Töru Mist Sigurðardóttur, f. 4.12. 2014. Ragnheiður á börnin Sif, f. 1989, Aðalheiði Rut, f. 1997, og Evu Marín, f. 1999. 2) Bryndís Forberg Chapman, f. 25.7. 1966. Unnusti Gunnar Hjartarson, f. 21.1. 1966. Bryndís og Gunnar eru barnlaus en Bryndís á þrjú börn úr fyrra sambandi með Stuart Chapman, f. 1965. Börnin eru: Alexander Magnús Chapman, f. 8.11. 1989, Kristján Thor Chapman, f. 15.12. 1998, og Ísabella Rose Chapman, f. 9.10. 2000, sem á barnið Lillý Rose Antonsdóttur, f. 22.8. 2022, með unnusta sínum Antoni JiHao Magnússyni, f. 18.8. 2000. Gunnar á börnin Hjört, f. 1998, og Sóldísi, f. 2003.

Pamela hóf sambúð um þrítugt með Magnúsi Ísfjeld Magnússyni, f. 12. september 1945. Pamela og Magnús eiga saman eina dóttur, Ástu Rós Magnúsdóttur, f. 22.4. 1974. Ásta Rós var í sambúð með Ólafi Hrafni Ásgeirssyni, f. 3.9. 1962, d. 2.1. 2023, og eiga þau saman soninn Viktor Hrafn Ólafsson, f. 8.3. 2012. Ásta Rós á dóttur úr fyrra sambandi með Björgvini Þór Rúnarssyni, f. 1971, Bryndísi Rós Morrison, f. 7.3. 1997. Önnur börn Ólafs Hrafns eru: Ásgeir Hrafn, f. 1987, Nanna Rakel, f. 1989, Ómar Hrafn, f. 1994, Jónína Líf, f. 1995, og Elísabet Líf, f. 1999.

Pamela bjó á ýmsum stöðum á uppeldisárum sínum, bæði á höfuðborgarsvæðinu, norðan heiða og á Ísafirði. Móðir hennar var ráðskona og því fylgdu oft flutningar á milli staða eins og títt var í þá daga. Pamela fluttist frá Reykjavík til Hafnarfjarðar 1965 og starfaði þar m.a. hjá fræðslustjóra Hafnarfjarðar. Á fertugsaldri flutti hún til Hveragerðis þar sem hún bjó lengst af en fluttist í Mörkina í Reykjavík í október 2023. Pamela starfaði lengst af sem skólaritari við Grunnskólann í Hveragerði. Samhliða því sat hún í stjórn FOSS. Hún var virk í ýmsum félagasamtökum og nefndum í gegnum árin og var í stjórn kvenfélagsins síðastliðin ár.

Útför Pamelu verður gerð frá Hveragerðiskirkju í dag, 16. febrúar 2024, klukkan 13.

Ég byrjaði fyrstu árin mín á að alast upp í litlu húsi í Hveragerði með ömmu og mömmu. Þar bjó amma mín ennþá þar til í október í fyrra. Mikil var sorgin þegar við mamma fluttum í bæinn frá ömmu og voru oft planaðir flutningar til hennar.

Allar helgar kaus ég að fara til ömmu Pamelu og verja tíma með þessari frábæru og fyndnu vinkonu minni, mér fannst það oft meira spennandi en að vera með vinkonum mínum og mömmu og alltaf kom ég heim á sunnudegi í rútunni með eitthvað í poka sem við amma vorum búnar að „vesenast“ með á Selfossi.

Í vetrarfríum fór ég til ömmu og var með henni í vinnunni. Ég sat og fylgdist með ömmu minni vinna og stjórna liðinu eins og forstjóri á skrifstofu Grunnskóla Hveragerðis og lærði gildi þess að vera dugleg og sjálfstæð.

Ég sá hana hugsa um þá sem áttu um sárt að binda og lærði að náungakærleikur skiptir miklu máli í samskiptum. Amma mín var minn stærsti kennari í lífinu og er ég svo þakklát fyrir hana.

Ég lærði líka af henni ömmu minni að það skiptir máli að gefa sér tíma fyrir fjölskyldu og vini, en amma mætti alls staðar þar sem ég var – hvort sem það voru skólaslit, bekkjarkvöld, leikrit eða liggjandi uppi á spítala. Amma mætti alltaf. Sama hvað klukkan sló. Hún mætti og lét sig varða um mig í einu og öllu.

Amma kenndi mér að þátttaka í uppbyggingu samfélagsins skipti máli og sat ég með henni marga xD-fundina í Hveragerði og dáðist að dugnaði hennar.

Amma mín var mikil sögukona og átti þær margar. Hún sagði mér sögur um Írak og apana í Nígeríu, ferðalögin um Kína og í fyrsta skipti sem hún sá karlmenn kyssast, það var á Bárugötu 5 og amma var 15 ára. En skemmtilegastar voru sögurnar af því á hversu mörgum stöðum hún hafði búið, en þeir skiptu tugum og við gátum aldrei talið hversu margir þeir voru.

Ég hlustaði „oftast“ (nema þegar ég var með þennan „helvítis síma“) með stjörnur í augunum og hugsaði hvað ég var ótrúlega heppin að eiga svona skemmtilega og fyndna ömmu.

Ömmu sem ég gat hringt í á hvaða tíma sólarhrings sem var og sagt henni allt og hún dæmdi mig aldrei, við fundum alltaf lausn saman.

Það var mín mesta gæfa í lífinu að eiga Pamelu sem ömmu og vinkonu og sérlegan afskiptamálaráðherra. Án hennar væri ég týnd og tröllum gefin og ekki sú manneskja sem ég er í dag.

Ég á henni allt að þakka.

En guð hvað ég er þakklát fyrir „helvítis símann“ sem amma hataði, sem var alltaf á lofti að taka vídeó og myndir af ömmu. Ég er rík að gulli og gersemum af gríni sem hún hefur sagt við mig á upptökum og á endalaust af minningum af okkur saman. Þessi helvítis sími var bara ekkert svo mikill „helvítis sími“ eftir allt saman.

Ég skrifa þennan texta í flugvél og er að lenda, ég gat ekki hringt í þig áður en ég fór og get ekki hringt í þig þegar ég lendi. Þessu þarf ég að venjast en ég er bara ekki nógu sátt við það og ég held þú vitir það því ég finn að þú ert að leiða mig í gegnum þetta.

Ég elska þig svo mikið amma mín og ég sakna þín. Lífið verður aldrei eins án frasadrollunnar minnar.

Þín

Bryndís Rós
Morrison.

Kæra vinkona.

Við kveðjum þig með gleði í hjarta yfir að hafa átt þig að vinkonu í áratugi.

Það er alveg ótrúlegt að við erum allar fæddar um haust, sú elsta fædd '42, næsta '52 og síðan '62 en samt var alltaf eins og enginn aldursmunur væri á okkur.

Leiðir okkar lágu saman hjá FOSS (Félagi opinberra starfsmanna á Suðurlandi). Þar varst þú alltaf liðtæk, jákvæð og skemmtileg. Það var alveg sama hvað þurfti að gera, engin verkefni voru þér ofviða enda var uppgjöf ekki til í þinni orðabók. Einkenni þín voru svo áberandi, einstaklega glæsileg, hláturmild og hrókur alls fagnaðar hvar sem þú komst. Margir nefna þetta við okkur einmitt þessa daga; hún var svo skemmtileg, hláturinn maður minn, það var alltaf svo gaman í kringum hana o.s.frv. Þú eignaðist marga vini í kringum stafið þitt hjá FOSS, bæði á félagssvæðinu og líka í starfi Samflots bæjarstarfsmannafélaga þar sem margir vinir minnast þín með þakklæti.

Þegar þú hringdir var ekki sagt: „halló“ heldur: „er ég gleymd?“ Þá fór hugurinn á fullt hvenær við höfðum heyrst síðast. Í kjölfarið tók svo við hlátur og spjall. En þegar maður hringdi í þig og var eitthvað ómögulegur og vorkenndi sér svo kom svarið: „þegi þú, það er ekkert að þér.“ Sem var að sjálfsögðu rétt. En ef eitthvað bjátaði á í alvöru varst þú ómetanlegur vinur og alltaf til staðar hvernig sem á stóð.

Síðari árin höfum við passað að eiga stundir saman, sem við þökkum nú endalaust fyrir. Við eigum svo margar skemmtilegar sögur sem við getum rifjað upp þó að þær séu ekki settar á blað, en við pössum upp á að þær gleymist ekki.

Síðasta samverustund okkar var á Matkránni í Hveragerði nokkrum dögum áður en þú fluttir í Mörkina. Þar vorum við að plana kaffihúsaspjall í nóvember, sem við síðan frestuðum vegna þess að þú varst hálf slöpp. Við ætluðum líka að fara saman á Deleríum búbónis eftir áramótin!

Elsku Pamela, bestu þakkir fyrir þig og vináttuna.

Þín verður sárt saknað.

Elín Björg og Stefanía.

Góð vinkona okkar hjóna, frú Pamela Morrison, kvaddi okkur í lok síðasta mánaðar. Þessi heimskona, sem kallaði ekki allt ömmu sína, var bæði hrein og bein í samskiptum. Það vita þeir sem hana þekktu að hún sagði sína skoðun umbúðalaust, stundum alveg óumbeðið og lét þá gjarnan fylgja svipinn um að nú væri viðkomandi greinilega kominn af sporinu. Það var einmitt þessi eiginleiki hennar sem okkur hjónum þótti hvað vænst um hjá vinkonu okkar enda kunnum við vel að meta heiðarlega framkomu. Frú Morrison hafði þann eiginleika að geta lesið fólk eins og sagt er. Kannski var það einmitt sá hæfileiki sem gagnaðist henni einna best í lífinu. Pamela bjó líklega á fleiri stöðum en flest okkar hafa gert og kynntist alls konar fólki og aðstæðum sem mótuðu hana og lífsskoðanir hennar. Hún var víðsýnni en margir og hug hennar og hjarta áttu börnin sem á vegi hennar urðu á lífsleiðinni. Pamela var farsælasti skólaritari sem Grunnskólinn í Hveragerði hefur nokkurn tíma haft. Hjá henni voru reglur og þeir sem til hennar leituðu á þeim vettvangi sögðu gjarnan bara tvö orð, sem voru já og amen. Yfirbragð Pamelu var fágað og hún bjó yfir þeim eiginleika að vera alltaf glæsileg. Bein í baki, klæddist fallegum fötum með mjög framandi skartgripi. Þannig fór einmitt ekki fram hjá neinum að þarna var kona sem vissi hvaðan hún var að koma og hvert hún var að fara.

Rétt fyrir síðustu jól rukkaði Pamela okkur um villibráðarboð á nýju ári. Því miður verður ekki af því boði. Við hjónin eigum eftir að sakna þess mikið að geta ekki tekið spjall með góðri vinkonu yfir hvítvínsglasi, eða tveimur, þar sem heimsmálin og hversdagslegir hlutir eru krufin til mergjar.

Við þökkum okkar elskulegu Pamelu kærlega fyrir alla þá tryggð, hlýju og vináttu sem hún gaf okkur. Við munum geyma minningar um dásamlega vinkonu í hjarta okkar.

Vottum Olaf, Bryndísi, Ástu Rós og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúð.

Alda og Gísli Páll.