Gunnar Magnússon fæddist 25. mars 1945. Hann lést 10. janúar 2024.

Útför hans fór fram 14. febrúar 2024.

Gunnari kynntist ég fyrst fyrir 35 árum gegnum sameiginlegan vin okkar Vilhjálm Steinþórsson. Gunnar var þá á ferðalagi um Íberiuskaga og kom við í Aveiro í Portúgal þar sem ég bjó. Varð okkur strax vel til vina.

Hann hafði dvalist á tímabilum í Mið-Ameríku og Kúbu við hugsjónastarf og talaði ágæta spænsku og átti eftir að rúnta um með spænska fiskkaupendur fyrir mig í nokkur skipti á Íslandi við góðan orðstír. Það var ekki annað hægt en að líka vel við Gunnar, hann var hógvær og lítillátur en jafnframt húmorískur og jákvæður. Hafði þar af leiðandi afskaplega þægilega nærveru. Virkaði sáttur við sitt.

Gunnar fór sínar eigin leiðir í lífinu. Hann vann sem trésmiður hjá öðrum mestalla sína tíð, var nægjusamur, tók aldrei bílpróf, hjólaði mest. Hann var bókhneigður og naut leikhúss og var skemmtilegur leikhúsfélagi.

Gunnar bjó framan af ævi einn, en um miðjan aldur hóf hann samband við Stefaníu Þorgrímsdóttur og reyndist það honum mikill gleðigjafi. Hún lést fyrir um 10 árum og varð það Gunnari þungbært. Hann átti eftir að halda kærleiksríku sambandi við börn hennar og barnabörn. Gunnar átti svo nokkur góð ár áður en heilsan fór að bila. Það mátti ganga að honum vísum flesta daga á sama tíma í kaffi í bakaríinu í miðbæ Hafnafjarðar ásamt gömlum félögum.

Síðustu tvö árin var Gunnar rúmliggjandi á Sólvangi. Hann tók því af jafnaðargeði. Hann var nokkuð veikur á tímabilum en betri á milli, benti manni þá á bækur og grínaðist. En að lokum held ég að hann hafi verið hvíldinni feginn. Hann mátti vel við una eftir fagurt ævihlaup.

Stefán
Unnsteinsson.