Árás Eldur kom upp í íbúðarhúsnæði í Selídove eftir árás Rússa.
Árás Eldur kom upp í íbúðarhúsnæði í Selídove eftir árás Rússa. — AFP/Almannavarnir
Úkraínuher tilkynnti í gærmorgun að hann hefði sent liðsauka til bæjarins Avdívka í Donetsk-héraði, en harðir bardagar hafa geisað um bæinn síðustu mánuði. Rússar hafa á síðustu vikum náð að umkringja bæinn frá þremur hliðum og reyndu ákaft í gær að …

Úkraínuher tilkynnti í gærmorgun að hann hefði sent liðsauka til bæjarins Avdívka í Donetsk-héraði, en harðir bardagar hafa geisað um bæinn síðustu mánuði. Rússar hafa á síðustu vikum náð að umkringja bæinn frá þremur hliðum og reyndu ákaft í gær að loka varnarlið bæjarins inni, en Avdívka er einungis um 10 kílómetrum frá Donetsk-borg.

Náðu Rússar m.a. Zenit-herflugvellinum á sitt vald í gær, en hann hafði verið á valdi Úkraínumanna frá því í innrás Rússlands í Donbass-héruð Úkraínu árið 2014. Þá hermdu óstaðfestar fregnir í gærkvöldi að yfirstjórn Úkraínuhers hefði fyrirskipað herliði sínu að yfirgefa Avdívka og taka sér betri varnarstöðu vestan við bæinn.

Úkraínumenn og Rússar skiptust í gær á eldflaugaárásum, og féllu að minnsta kosti sex manns í árás Úkraínumanna á borgina Belgorod í gær, sem er skammt frá landamærum Rússlands og Úkraínu. Um 20 til viðbótar særðust í árásinni, en eldflaugin var sögð hafa lent á verslunarmiðstöð í borginni. Vjatsjeslav Gladkov, héraðsstjóri Belgorod-héraðs, sagði að eins árs gömul stúlka hefði látist, en ekki var hægt að staðfesta þá fullyrðingu í gær.

Þá féll a.m.k. einn þegar Rússar skutu 26 eldflaugum á þorp í Donetsk-héraði, en loftvarnir Úkraínumanna náðu að skjóta niður helming þeirra.