2023 Vigdís Birta Haraldsdóttir og Guðbjörg Haraldsdóttir á blótinu í fyrra.
2023 Vigdís Birta Haraldsdóttir og Guðbjörg Haraldsdóttir á blótinu í fyrra.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Árlegt þorrablót Skagstrendinga verður haldið í félagsheimilinu Fellsborg á Skagaströnd annað kvöld, laugardagskvöldið 17. febrúar. „Þetta er helsta fjáröflun kvenfélagsins,“ segir Elín Ósk Ómarsdóttir, formaður kvenfélagsins Einingar og þorrablótsnefndar

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Árlegt þorrablót Skagstrendinga verður haldið í félagsheimilinu Fellsborg á Skagaströnd annað kvöld, laugardagskvöldið 17. febrúar. „Þetta er helsta fjáröflun kvenfélagsins,“ segir Elín Ósk Ómarsdóttir, formaður kvenfélagsins Einingar og þorrablótsnefndar.

Um 480 manns búa á Skagaströnd og er gert ráð fyrir um 170 manns í mat á þorrablótinu en rými er fyrir rúmlega 200 manns í sæti. „Skemmtunin verður með hefðbundnu sniði,“ segir Elín. Leikhópur sjái um skemmtiatriði að hætti heimamanna og hljómsveitin Snilld leiki fyrir dansi fram á nótt. „Að loknu borðhaldi sameinast allir um að taka til áður en ballið hefst.“

Framtakssemi í nær öld

Kvenfélagið Eining var stofnað 27. febrúar 1927 og hefur stuðlað að ýmsum framförum á Skagaströnd, tekið þátt í uppbyggingu og styrkt góð málefni. Það stóð til dæmis fyrir stofnun og rekstri sjúkrasjóðs, kom að byggingu Fellsborgar og styrkti byggingu Hólaneskirkju. „Tuttugu konur stofnuðu félagið í þeim tilgangi að efla samfélagið og aðstoða bágstadda,“ segir Elín. Kvenfélagskonur skipuleggi árlega félagsvist fyrir íbúa og bjóði upp á páskabingó auk þess sem þær styrki einstaklinga, fyrirtæki og kirkjuna reglulega.

Fyrir nokkrum árum gaf Lárus Ægir Guðmundsson út bækurnar Kvenfélagið Eining Skagaströnd 1927-2013 og Leiklist á Skagaströnd 1895 til 2015. Þar er samantekt hans um þessa menningarstarfsemi og mikilvægi hennar, en áður hafði hann gefið út fjórar bækur um málefni á Skagaströnd.

Þorrablótið féll niður í kórónuveirufaraldrinum og síðan hefur verið erfitt að manna nauðsynlegar stöður vegna utanumhaldsins, að sögn Elínar. „Við erum svo fáar eftir í kvenfélaginu,“ útskýrir hún. Kostnaður við blótið hafi líka aukist. Áður hafi konurnar útbúið allan mat fyrir utan súrmatinn, en í fyrra hafi þær í fyrsta sinn þurft að panta allar veitingar frá veisluþjónustu. Matur og mörk á Akureyri hafi þá bjargað þeim og geri það aftur núna.

Þrátt fyrir mótbyr segir Elín að kvenfélagskonur hafi ekki viljað leggja árar í bát og hafi hafið undirbúning blótsins í október. „Við viljum halda í hefðina enda er þorrablótið helsti viðburður ársins hérna hverju sinni.“ Sjómannadagurinn og -ballið hafi líka verið fastir punktar í tilverunni en þar hafi líka orðið brestir. „Íbúarnir eru samt áhugasamir um að þessar hefðir haldi áfram.“

Elín er fimm barna móðir og borin og barnfædd á Skagaströnd. Hún hefur einnig búið á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum en finnst best að vera í sinni heimasveit. „Hér er meiri ró og minna stress, styttri vegalengdir hvert sem þarf að fara og meira öryggi fyrir börnin.“

Mikill hugur er í kvenfélagskonum að blása í glæðurnar. „Við erum óvenjufáar en reynum að efla starfið og vera sýnilegri í samfélaginu,“ segir Elín. Nokkrar konur hafi sýnt áhuga á að ganga í félagið og taka þátt í starfseminni. „Næsti aðalfundur verður fimmtudaginn 22. febrúar og þá hvetjum við konur til að mæta og ganga í félagið.“