Landsmót Ekkert er gefið eftir í keppninni á Landsmóti UMFÍ 50+ þótt keppendur séu komnir af léttasta skeiði. Mótið hefur verið haldið frá 2011.
Landsmót Ekkert er gefið eftir í keppninni á Landsmóti UMFÍ 50+ þótt keppendur séu komnir af léttasta skeiði. Mótið hefur verið haldið frá 2011. — Ljósmynd/UMFÍ
Fulltrúar UMFÍ, ungmennafélagsins Þróttar Vogum og sveitarfélagsins Voga á Vatnsleysuströnd hafa skrifað undir samning um að Landsmót UMFÍ 50+ verði haldið í Vogum dagana 7.-9. júní. Í tilkynningu segir Petra Ruth Rúnarsdóttir, formaður Þróttar í…

Fulltrúar UMFÍ, ungmennafélagsins Þróttar Vogum og sveitarfélagsins Voga á Vatnsleysuströnd hafa skrifað undir samning um að Landsmót UMFÍ 50+ verði haldið í Vogum dagana 7.-9. júní.

Í tilkynningu segir Petra Ruth Rúnarsdóttir, formaður Þróttar í Vogum, að búið sé að ákveða keppnisgreinar og að keppni í pönnukökubakstri sé aftur komin á dagskrá. Einnig verði m.a. keppt í strandarhlaupi, félagsvist, brennó, golfi, boccia, pútti, frjálsum íþróttum og að sjálfsögðu stígvélakasti.

Fram kemur að skipulag mótsins sé langt komið. „Við erum að vinna með svo margar hugmyndir og skoðum enn fleiri greinar og viðburði eins og tónleika og uppákomur í heimahúsum í Vogum meðan á mótinu stendur,“ er haft eftir Petru í tilkynningunni. Að auki verði skemmtikvöld haldið á laugardegi mótsins.

Opnað fyrir skráningu í maí

Landsmót UMFÍ 50+ hefur verið haldið frá árinu 2011 og er blanda af íþróttakeppni og viðburðum fyrir fimmtugt fólk og eldra sem allir snúast um að þátttakendur njóti samveru. Mótið er opið öllum sem verða 50 ára á árinu og þeim sem eldri eru. Ekki er krafa um að þátttakendur séu skráðir í íþróttafélag. Opnað verður fyrir skráningu á mótið í byrjun maí á vefnum umfi.is.

Í tilkynningunni er haft eftir Gunnari Axel Axelsson, bæjarstjóra sveitarfélagsins Voga, að búist sé við mjög góðri aðsókn fólks frá Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu og þetta gæti orðið fjölmennasta Landsmót UMFÍ 50+ frá upphafi.