Gagnaver Verne í Reykjanesbæ
Gagnaver Verne í Reykjanesbæ — Þóroddur Bjarnason
Breska dagblaðið The Times greindi frá því nýlega að hlutabréf breska innviðafyrirtækisins Digital 9 hefðu hríðfallið í London-kauphöllinni þegar fyrirtækið upplýsti markaðinn um ákvörðun Samkeppniseftirlitsins (SKE) um að hefja þriðja fasann í…

Breska dagblaðið The Times greindi frá því nýlega að hlutabréf breska innviðafyrirtækisins Digital 9 hefðu hríðfallið í London-kauphöllinni þegar fyrirtækið upplýsti markaðinn um ákvörðun Samkeppniseftirlitsins (SKE) um að hefja þriðja fasann í rannsókn á fyrirhugaðri sölu á gagnaversfyrirtækinu Verne Global til alþjóðlega innviðasjóðsins Ardian, eiganda Mílu.

Morgunblaðið greindi í desember frá kaupum Ardian á Verne Global, sem starfrækir fimm gagnaver í Lundúnum, Íslandi og Finnlandi, af Digital 9 á rúma áttatíu milljarða króna. Í tilkynningu Digital 9 kom fram að viðskiptin væru háð samþykki samkeppnisyfirvalda á Íslandi, Finnlandi og Bretlandi og búist var við að samþykki allra eftirlitsaðila lægi fyrir í lok fyrsta ársfjórðungs 2024. Fjárfestar hafa einna helst áhyggjur af því að rannsókn SKE gæti tekið 90 virka daga og farið upp í 125 virka daga, sem eftirlitinu er þó ekki skylt að gera skv. lögum. Samþykkið gæti farið yfir tímamörkin sem Digital 9 boðaði í fyrrnefndri tilkynningu. Á sama tíma var einnig boðað að fjármunirnir yrðu notaðir í að efla reksturinn og greiða niður skuldir. Blaðið hefur eftir sérfræðingi að ákvörðun SKE gæti leitt til þess að áhætta skapaðist við að framkvæma söluna. arir@mbl.is