Hlíðaskóli Kynningarverkefnið í 10. bekk hefur þótt mjög vinsælt.
Hlíðaskóli Kynningarverkefnið í 10. bekk hefur þótt mjög vinsælt. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Það gætu einhverjir foreldrar orðið hissa þegar þeir sjá að börn þeirra á lokaári í Hlíðaskóla séu að vinna kynningarefni fyrir framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu og hugsað hvort þau ættu að sjá um þá vinnu

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Það gætu einhverjir foreldrar orðið hissa þegar þeir sjá að börn þeirra á lokaári í Hlíðaskóla séu að vinna kynningarefni fyrir framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu og hugsað hvort þau ættu að sjá um þá vinnu.

En verkefnið er alls ekki nýtt af nálinni, segir Berglind Stefánsdóttir skólastjóri, og segir það vera hugarfóstur Elvu Daggar Númadóttur lífsleiknikennara og hafa verið mjög vinsælt um margra ára skeið.

„Þetta er hluti af námsefninu í lífsleikni,“ segir Elva Dögg. Nemendum er skipt í hópa og hver hópur fær einn framhaldsskóla til að vinna upplýsingar um og kynna síðan fyrir samnemendum sínum í hátíðarsal skólans.

„Við höfum alla framhaldsskólana á höfuðborgarsvæðinu í þessu verkefni og krakkarnir þurfa að skipta með sér verkum og þau byrja á að senda póst á námsráðgjafa skólanna og falast eftir viðtali. Síðan fara þau í skólana, taka viðtöl við útskrifaða nemendur úr Hlíðaskóla og jafnvel nemendur í framhaldsskólum og safna saman öllum upplýsingum og kynna svo með glærum, myndefni og myndböndum,“ segir Elva Dögg.

Hún segir verkefnið hafa verið vinsælt frá upphafi. Krökkunum finnist skemmtilegt að fá svona alvöruverkefni, eins og fólk á vinnustöðum gæti verið að sinna.

„Verkefnið reynir á marga færniþætti og krakkarnir læra að afla sér upplýsinga, skipuleggja þær og kynna fyrir öðrum.“