Sigrún Sveinsdóttir var fædd í Norðurfirði í Árneshreppi á Ströndum þann 3. desember 1956. Hún lést á Líknardeild Landspítalans aðfaranótt 4. febrúar sl. Hún var dóttir hjónanna Sveins Sigmundssonar f. 27. 02. 1932 og Jóhönnu Ingólfsdóttur, f. 13.02. 1933, d. 11.06. 2014. Systur Sigrúnar eru Lára, f. 1955 og Katrín, f. 1962. Á æskuárum Sigrúnar bjó fjölskyldan í Norðurfirði, á Skagaströnd og Sauðárkróki þar til þau fluttust til Reykjavíkur árið 1966. Sigrún stundaði nám í Kvennaskólanum í Reykjavík og lauk síðan stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1976. Þá hóf hún nám í lyfjafræði við Háskóla Íslands og lauk Exam. pharm. í lyfjafræði vorið 1979. Haustið 1982 hóf Sigrún framhaldsnám í lyfjafræði við Uppsala Universitet. Þaðan útskrifaðist hún sem Cand. Pharm. í lyfjafræði vorið 1985.
Eftirlifandi eiginmaður Sigrúnar er Gunnlaugur Auðunn Júlíusson, hagfræðingur og leiðsögumaður, f. 08.09.1952. Foreldrar hans eru Júlíus Reynir Ívarsson, f. 23.04.1927, d. 23. 04.2011 og Jóhanna Gunnlaugsdóttir. f. 22.02.1924. Sigrún og Gunnlaugur eignuðust þrjú börn. Þau eru: 1) Sveinn Friðrik, f. 06. 09. 1985, maki Elísa Eðvarðsdóttir f. 31. 05. 1986. Börn þeirra eru Sigrún Edda, f. 2015, Arnar Elí, f. 2018 og Óskar Vilberg, f. 2021. 2) Jóhann Reynir, f. 07.02. 1989, maki Ásthildur Erlingsdóttir, f. 02.11. 1989. Börn þeirra eru Elsa María, f. 2017 og Elías Auðunn f. 2021. 3) María Rún, f. 19.02. 1993, sambýlismaður er Óðinn Björn Þorsteinsson, f. 03.12. 1981. Þau eiga dótturina Heklu Rún, f. 2023.
Sigrún og Gunnlaugur kynntust á námsárum þeirra í Uppsölum og fluttu til Íslands í mars 1987. Haustið 1994 flutti fjölskyldan til Raufarhafnar og bjó þar fram til ársloka 1999. Þaðan fluttu þau að Rauðagerði 36 í Reykjavík og bjuggu þar æ síðan.
Sigrún starfaði sem lyfjafræðingur í Reykjavíkurapóteki, í apóteksútibúi á Raufarhöfn og síðan í Árbæjarapóteki þar sem hún starfaði allt þar til hún þurfti að hætta störfum af heilsufarsástæðum vorið 2023. Sigrún stundaði frjálsar íþróttir á yngri árum undir merkjum frjálsíþróttadeildar Ármanns. Hún var ein af þekktri kvennasveit Ármanns sem gerði garðinn frægan á frjálsíþróttamótum hérlendis á áttunda áratugnum. Hún var oft valin í landslið Íslands í frjálsum íþróttum á þeim tíma. Hún vann fjölda íslandsmeistaratitla í frjálsum íþróttum og vann einnig sigra í landskeppnum á erlendum vettvangi. Eftir að keppnisferlinum lauk, var hún mjög virk í félagsstarfi fyrir frjálsar íþróttir, og starfaði á frjálsíþróttamótum allt fram á síðustu ár. Hún hlaut viðurkenningar frá frjálsíþróttadeild Ármanns og frá Frjálsíþróttasambandi Íslands fyrir störf sín. Sigrún var vinsæl og vinamörg. Hún var hluti af mörgum vinkvennahópum sem hefur haldið þétt saman gegnum árin, flestir áratugum saman. Það má nefna Ármeyjahópinn, lyfjafræðingahópinn, Raufarhafnarhópinn, Kvennaskólahópinn, Huldulandshópinn og frænkuhópinn.
Útför Sigrúnar fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 16. Febrúar 2024, og hefst athöfnin kl. 13:00.

Elsku Sigrún systir, hvað geri ég núna þegar þú ert horfin á braut og ég get ekki heyrt í þér eða hitt þig, en það gerðum við nær daglega. Við Sigrún höfum alltaf verið í lífi hvor annarrar en einungis er ár á milli okkar. Ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa haft þig mér við hlið og átt þig sem systur og vinkonu í þetta mörg ár en hefði gjarnan viljað að árin okkar saman hefðu orðið mun fleiri.
Sigrún fæddist í kaupfélagshúsinu í Norðurfirði á Ströndum þar sem pabbi var kaupfélagsstjóri og þaðan eru mínar fyrstu minningar um okkur systur. Fyrstu jól Sigrúnar var farið gangandi að Melum í Trékyllisvík þar sem föðuramma og -afi áttu heima. Þá var Sigrúnu komið fyrir í þvottabala sem haldið var á og ég sat á háhesti á pabba eða afa.

Við flytjum síðan á Skagaströnd og þar eignuðumst við Sigrún yngri systur okkar Katrínu. Þegar okkur var sagt frá því að við værum að fara að eignast systkini þá vorum við ekki par hrifnar og sögðumst ætla að henda barninu í ruslið. Við vildum ekki fá neinn inn í okkar heim sem myndi taka dótið okkar og breyta öllu. Það breyttist nú fljótt og vorum við afskaplega hrifnar og ánægðar með systur okkar.

Sigrún var mjög glaðvær en frekar stríðin, sem fór stundum í taugarnar á mér þegar við vorum krakkar og á myndum frá þessum tíma skín af henni prakkarasvipurinn. Ég var mikil mömmustelpa og var illa við að mamma færi eitthvað þó svo pabbi væri heima. Sigrúnu fannst það frábært og sagði gjarnan: Jú Lára, það verður gaman, þá getum við látið eins og fífl. Ef við fengum sælgætismola geymdi Sigrún sína þar til ég var búin og stríddi mér með því að sýna mér sína og sagði: Lára, sjáðu hvað ég á. Á Skagaströnd áttum við mestmegnis sömu vinina og vorum nánast alltaf saman en það breyttist aðeins þegar við fluttum á Sauðárkrók, enda orðnar eldri þá. Þar byrjuðum við aðeins að æfa frjálsar íþróttir sem við æfðum síðan í mörg ár eftir að við fluttum til Reykjavíkur.
Við æfðum og kepptum með Ármanni allan okkar íþróttaferil og á þessum árum kynntumst við mörgum af okkar bestu vinum og er sá vinskapur enn til staðar. Margs er að minnast úr öllum landsliðsferðunum sem við fórum erlendis og einnig keppnisferðum innanlands. Þar vorum við Sigrún alltaf báðar og höfum við oft minnst þessa tíma og allra þeirra fjölmörgu sem við kynntumst í þessum ferðum með hlýhug. Í frjálsum vorum við Sigrún yfirleitt þekktar sem systurnar og enn muna einhverjir eftir okkur sem systrunum í frjálsum.
Við Sigrún vorum mjög líkar í fasi og þeir sem þekktu okkur ekki vel rugluðust iðulega á okkur. Okkur heilsaði fólk sem við könnuðumst ekki við en heilsuðum, því við vissum að verið var að rugla okkur saman. Einu sinni kom Sigrún í skólann þar sem ég kenndi og beið mín. Þá vindur nemandi minn sér að henni og biður um frí í tímanum þann daginn. Sigrún leiðrétti misskilninginn en sá síðan eftir því að hafa ekki bara gefið honum frí.
Á námsárum Sigrúnar erlendis vorum við í eins góðu sambandi og hægt var. Á þeim tíma talaði maður ekki í síma á milli landa nema nauðsyn bæri til. Stundum talaði ég inn á segulbandsspólu og sendi með pósti til Sigrúnar, í staðinn fyrir að skrifa.
Börnin okkar Sigrúnar eru á svipuðum aldri og hefur alla tíð verið mikill samgangur á milli fjölskyldna okkar, sem og fjölskyldu Kötu systur okkar. Á hverju sumri fórum við öll og oft ásamt mömmu og pabba í sumarbústaði vítt og breitt um landið og margar góðar minningar eigum við úr þessum ferðum sem gott er að ylja sér við núna.

Við systur Lára, Sigrún og Kata ferðuðumst einnig mikið saman og þá oftast erlendis í borgarferðir og einnig til að horfa á frjálsar íþróttir. Eftir að mamma okkar dó höfum við ferðast nokkuð með pabba líka.
Eins og ég sagði í byrjun þá veit ég ekki alveg hvernig ég á að takast á við það að þú sért ekki hér lengur; að við getum ekki hringt hvor í aðra, spjallað um daginn og veginn eða skroppið saman í búðir, í bíltúr eða á kaffihús.
Við Sigrún höfum alla tíð verið mjög samrýndar og er mjög oft talað um okkur í sama orðinu. Við höfum hjálpast að í gegnum súrt og sætt í lífinu og ef eitthvað stóð til t.d. fermingar, skírnir, útskriftir og annað slíkt þá gerðum við það saman ásamt Kötu systur okkar.

Að lokum vil ég þakka þér, elsku Sigrún, fyrir alla vináttuna, takk fyrir að vera systir mín, takk fyrir að vera þú, takk fyrir gleðina, æðruleysið, hlýjuna og elskuna í minn garð og dætra minna og barnabarna en dætur mínar litu oft á Sigrúnu sem mömmu númer tvö.

Ég veit að lífið heldur áfram en það er óskaplega sárt að kveðja þig Sigrún mín og aldraður faðir okkar er mjög sleginn og vanmáttugur í þessum aðstæðum.

Ég ætla að trúa því að mamma hafi einhvers staðar tekið á móti þér og sé búin að umvefja þig ást og alúð.
Elsku Gulli, Sveinn, Jói, María Rún, pabbi og fjölskyldur, ég votta ykkur mína innilegustu samúð og vona að minningar um yndislegu Sigrúnu, sem vildi allt fyrir alla gera, lifi með okkur öllum um ókomin ár.
Þín elskandi systir,

Lára.