Heimdellingar segja að Reykjavík sé dauð borg og einhverjir segja að það megi alls ekki segja því ástandið í heiminum sé svo grafalvarlegt.
Heimdellingar segja að Reykjavík sé dauð borg og einhverjir segja að það megi alls ekki segja því ástandið í heiminum sé svo grafalvarlegt. — Morgunblaðið/Eggert
Það getur svo engan veginn talist góð þróun þegar fólk sem ekki má vamm sitt vita er orðið smeykt við að tjá sig af ótta við að orða hlutina á rangan hátt.

Sjónarhorn

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Til er fólk sem telur það skyldu sína að hafa vakandi auga með samborgurum sínum og leiðbeina þeim fari þeir út af sporinu. Þetta fólk tekur hlutverk sitt mjög alvarlega, er í eðli sínu tortryggið og hefur góðar gætur á næsta manni því aldrei er að vita hvað hann getur látið út úr sér. Að mati þessa fólks, sem telur sig afskaplega vel upplýst, er ósóminn nefnilega mjög víða. Til dæmis hjá Heimdalli, sambandi ungra sjálfstæðismanna.

Á dögunum sendi Heimdallur frá sér myndband þar sem formaður sambandsins sást í nálægð við Tjörnina og lýsti því yfir að Reykjavík væri dáin. Hann boðaði útför Reykjavíkur, á vegum Heimdallar, í Tjarnarbíói, hinn 17. febrúar.

Varðhundar rétttrúnaðarins eru margir á þessu landi. Einn þeirra steig nú fram, formaður þeirra skrýtnu samtaka Siðmenntar, og var í miklu uppnámi. Formaðurinn sagði Reykjavík vera einu mestu velmegunar- og forréttindaborg veraldar og Reykvíkinga forréttindafólk. Formaðurinn benti á stöðuna á Gasa og sagði að þar væri raunverulega verið að drepa borgir. Þetta útspil Heimdallar þegar þjóðarmorð væru í gangi á Gasa væri því smekklaust og taktlaust.

Er furða að viðbrögð manns skuli vera: Ha? Það ætti að blasa við öllum sem búa yfir heilbrigðri dómgreind að myndband Heimdallar kemur stöðunni á Gasa nákvæmlega ekkert við. Ef allt sem við gerðum og segðum ætti að taka mið af stöðunni í heimsmálunum þá myndi okkur sjaldnast stökkva bros. Við myndum líka segja ansi fátt því það væri auðveldlega hægt að snúa út úr því flestu. Það eru vissulega margar leiðir til að lifa lífinu. Ein leið er að taka allt bókstaflega. Ástæða er til að vara við þeirri leið, hún býður einungis upp á líf sem einkennist af þröngsýni, húmorsleysi og pirringi.

Þegar Heimdellingar segja að Reykjavík sé dáin borg þá er átt við að þar sé allt á niðurleið og borgin við það að grotna. Menn geta haft misjafnar skoðanir á þeirri fullyrðingu, hún hittir til dæmis ekki í mark hjá þeirri sem þetta skrifar. Það blasir hins vegar við að Heimdellingar eru þarna að tala um Reykjavík og engan veginn er verið að vísa til Gasa. Það er því algjör óþarfi að baða út höndum í tilfinningaupphlaupi og æpa: „Þú mátt ekki segja þetta!“

Annað dæmi um dellukennda umræðu var eftir að einhverjir þingmenn lýstu yfir óánægju með nýjar skrifstofur sínar, sem virðast, eins og einn þeirra orðaði það, fremur vera hannaðar fyrir arkitektana en þá sem eiga að hafa þær til afnota. Af myndum að dæma virka þær allavega ekki aðlaðandi. Einn þingmaður sagði að útsýnið úr skrifstofu hans væri hvítur veggur og bætti við: „Ég gæti eins verið lokaður inni á Litla-Hrauni.“

Sú sem þetta skrifar hlustaði á umræður í samfélagsþætti þar sem fólk saup hveljur út af þessum ummælum vegna þess að það er svo hræðilegt að vera í fangelsi að það má alls ekki segja svona. Sérstaklega ekki ef viðkomandi situr á Alþingi þjóðarinnar og er auk þess hvítur miðaldra karlmaður, sem sagt aumt eintak af forréttindapésa.

Já, víst er það hræðilegt að vera í fangelsi. Það breytir hins vegar engu um það að flest höfum við einhvern tíma haft á orði í ákveðnum aðstæðum að okkur líði eins og við séum í fangelsi eða að okkur líði eins og fanga. Það er ekkert að því að nota slíkar líkingar.

Vitanlega er til nokkuð sem heitir hatursorðræða og það væri nær að einbeita sér að því að uppræta hana frekar en að vera stöðugt að skamma fólk fyrir að taka fremur sterkt til orða. Það getur svo engan veginn talist góð þróun þegar fólk sem ekki má vamm sitt vita er orðið smeykt við að tjá sig af ótta við að orða hlutina á rangan hátt og fá yfir sig fúkyrðaflaum og jafnvel rasistastimpil. Þannig ástand skapast því miður þegar viss hópur ákveður hvað teljist gott og gilt og hvað megi segja og hvað megi ekki segja til að geta talist góð manneskja. Þá er orðið of stutt í hinn skelfilega hrollkennda heim sem George Orwell skapaði í 1984 og á að vera okkur stöðug viðvörun.