Skeggrætt Runólfur Pálsson læknir er nýjasti gestur Spursmála.
Skeggrætt Runólfur Pálsson læknir er nýjasti gestur Spursmála. — Morgunblaðið/María Matthíasdóttir
Runólfur Pálsson forstjóri Landspítalans segir að skipulagsbreytingar hafi lagt grunn að meiri afköstum stofnunarinnar á liðnu ári. Líkt og greint var frá í Morgunblaðinu í gær fjölgaði skurðaðgerðum í fyrra um 1.500 milli ára

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Runólfur Pálsson forstjóri Landspítalans segir að skipulagsbreytingar hafi lagt grunn að meiri afköstum stofnunarinnar á liðnu ári. Líkt og greint var frá í Morgunblaðinu í gær fjölgaði skurðaðgerðum í fyrra um 1.500 milli ára. Þá jókst þjónusta á dag- og göngudeildum um 8% og 4% á legudeildum. Þessu náði starfsfólk spítalans án þess að fjölgaði svo nokkru hefði munað í hópi starfsfólks.

Enn er unnið að breytingum á skipulagi sem Runólfur segir að hafi verið gamaldags. Hvert einasta starf sé rýnt og metið upp á nýtt. Í þeirri vinnu hefur hann ákveðið að auglýsa eftir 23 nýjum stjórnendum sem staðsettir verða í framlínu sjúkrahússins. Segir hann að af ráðningunum hljótist kostnaður sem nema muni 250 milljónum á ári. Þær muni hins vegar leiða til rekstrarbata, meiri gæða og betri þjónustu. Þannig sé valdi dreift betur. Svo verði þessar breytingar árangursmetnar.

Meira þarf til

Runólfur er spurður út í nýjan Landspítala sem nú er unnið að því að reisa við Hringbraut. Þar er ekki gert ráð fyrir fjölgun legurýma frá því sem nú er. Hann segir stefnt að því að taka nýbygginguna í notkun árið 2030. Ljóst sé að hún muni ekki duga til þess að anna þeim verkefnum sem á spítalanum hvíla nú. Hins vegar sé hún reist á grundvelli hins skilgreinda hlutverks síns eins og stjórnvöld hafa markað það. Því þurfi að gera breytingar og byggja upp aðra heilbrigðisþjónustu á allra næstu árum, eigi hið nýja háskólasjúkrahús að virka sem skyldi.

Þetta og margt fleira ræðir Runólfur í nýjasta þætti Spursmála sem aðgengilegur er á mbl.is og helstu hlaðvarpsveitum.

Höf.: Stefán E. Stefánsson