[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Matthías Tryggvi Haraldsson fæddist 17. febrúar 1994 í Reykjavík og æskuslóðir voru í Vesturbænum, Oxford og í Berlín. „Þetta var ævintýraleg og rótlaus æska á köflum en örvandi og skemmtileg. Ég átti unga foreldra sem fluttu út til náms, pabbi var í Oxford og mamma í Berlín

Matthías Tryggvi Haraldsson fæddist 17. febrúar 1994 í Reykjavík og æskuslóðir voru í Vesturbænum, Oxford og í Berlín. „Þetta var ævintýraleg og rótlaus æska á köflum en örvandi og skemmtileg. Ég átti unga foreldra sem fluttu út til náms, pabbi var í Oxford og mamma í Berlín. Ég var skilnaðarbarn og flakkaði á milli þeirra. Svo kom ég aftur heim til Íslands þegar ég var 13 ára.“

Matthías gekk í Vesturbæjarskóla, St. Mary’s and John’s, St. Barnabas, Nelson Mandela International School of Berlin, aftur í Vesturbæjarskóla, Hagaskóla, varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 2014 og útskrifaðist með BA-gráðu við sviðshöfundabraut frá Listaháskóla Íslands vorið 2018.

Meðal starfa sem Matthías stundaði áður en hann fetaði alfarið út á listabrautina eru sjókokkur á Vestra BK, blaðamaður á Morgunblaðinu og fréttamaður, pistlahöfundur og dagskrárgerðarmaður á RÚV

Þegar Matthías var í MR þýddi hann og staðfærði óperuna Doctor Faustus Lights the Lights eftir Gertrude Stein með Herranótt, leikfélagi skólans, og hefur hann verið virkur við handritaskrif og þýðingar síðan. „Þarna var maður ungur, hrifnæmur og leitandi og ég hitti á þessa rás, leikhússkrifin. Það er svo uppljómandi þegar maður finnur miðil sem virkar fyrir mann. Það er eins og maður finni nýja rödd og þarna varð ekki aftur snúið.“

Leikskáldaferill Matthíasar hófst með stuttverkinu Þvotti sem var sýnt í Tjarnarbíói árið 2016. Meðal fleiri leikrita Matthíasar eru Vloggið sem hann skrifaði fyrir Þjóðleikhúsið, Griðastaður sem sýnt var í Tjarnarbíói og Síðustu dagar Sæunnar í Borgarleikhúsinu, en það leikrit var valið leikrit ársins á Grímuverðlaununum 2023. Griðastaður var tilnefnt til Grímunnar 2019 en þá var Matthías valinn Sproti ársins.

Matthías stofnaði hljómsveitina Hatara árið 2015 ásamt Klemens Hannigan og Einari Hrafni Stefánssyni. Hljómsveitinni hefur verið lýst sem BDSM-pönksveit. Hún naut strax mikilla vinsælda
og var valin flytjandi ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum 2019 og hlaut þrisvar sinnum verðlaun tímaritsins Reykjavik Grapevine sem besta hljómleikasveitin.

Hatari var fulltrúi Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, árið 2019 með lagið Hatrið mun sigra. Keppnin var haldin í Ísrael, Hatari komst í lokakeppnina og á henni drógu meðlimir sveitarinnar upp palestínska fánann. Heimildarmyndin A Song Called Hate, sem var um þátttöku Hatara í Eurovision, kom út 2020 og sama ár kom út hljómplata sveitarinnar, Neyslutrans.

„Ég hætti í hljómsveitinni í fyrra. Allur þessi ferill var ævintýri og stór kafli í ævisöguna. Ég lít stoltur til baka, t.d. með það sem við gerðum í Ísrael.“

Matthías var ráðinn listrænn ráðunautur Þjóðleikhússins 1.11. 2023 og er þá að leggja línurnar fyrir næsta leikár og einnig þar næsta. „Þetta er erilsamt og ögrandi starf. Ég er að lesa bæði innlend og óuppsett verk og erlend og vinsæl verk. Svo var ég líka til skrafs og ráðabruggs í Eddu-sýningunni,“ en lokasýningin á því verki verður á morgun.

„Núna er ég í fæðingarorlofi og verð ekkert við vinnu næstu tvo til þrjá mánuði. En ég er með kvikmyndahandrit í skúffunni og aldrei að vita hvenær maður kemst í að klára það. Við Baldvin Z erum að þróa þessa hugmynd saman.“ Þetta er í fyrsta sinn sem Matthías skrifar fyrir kvikmynd eða sjónvarp.

Áhugamál Matthíasar eru leiklist, tónlist, prakkaraskapur, samfélagsmál og föðurhlutverkið. „Hugarheimur prakkarans er mjög skapandi hugarheimur og frekar en að hrekkja folk snýst þetta um að komast í hugarfar þar sem allt er mögulegt.“

Fjölskylda

Eiginkona Matthíasar er Brynhildur Karlsdóttir, f. 14.6. 1994, tónlistarkona. „Við búum í Gerðunum, í háborginni eins og við köllum hverfið.“ Foreldrar Brynhildar eru Ásdís Olsen, f. 21.12. 1962, dáleiðslumeistari, búsett í Gerðunum, og Karl Ágúst Úlfsson, f. 4.11. 1957, rithöfundur og leikari, búsettur í Kópavogi.

Dóttir Matthíasar og Brynhildar er Sóley, f. 16.6. 2022.

Hálfsystir Matthíasar samfeðra er Jórunn Elenóra Haraldsdóttir, f. 31.10. 2005, nemi, búsett í Reykjavík. Stjúpbróðir Matthíasar er Ívar Elí Sveinsson, f. 1.12. 1992, læknir, búsettur í Reykjavík.

Foreldrar Matthíasar eru Haraldur Flosi Tryggvason Klein, f. 29.11. 1966, lögmaður hjá LMG, búsettur í Reykjavík, og Gunnhildur Walsh Hauksdóttir, f. 3.10. 1972, listamaður, búsett í Reykjavík og Berlín. Eiginkona Haraldar og móðir Ívars er Ágústa Kristín Andersen, f. 27.1. 1971, hjúkrunarfræðingur, forstöðumaður Takts fyrir Parkinsonsamtökin. Eiginmaður Gunnhildar er Cormac Walsh, f. 7.9. 1971, fréttamaður, búsettur í Berlín.