Pétur Halldórsson
Pétur Halldórsson
Sveitarfélögin hafa sl. 152 ár sinnt heilnæmi umhverfis fyrir íbúa sína en nú eru uppi áform um að ríkisvæða starfsemina með ófyrirséðum afleiðingum.

Pétur Halldórsson

Hinn 28. júlí 2022 ályktuðu Sameinuðu þjóðirnar í fyrsta sinn um réttindi allra til heilnæms umhverfis og var Ísland meðal þeirra ríkja sem samþykktu ályktunina með yfirgnæfandi meirihluta. Heilnæmt umhverfi er ein af stoðum hagsældar og til að viðhalda heilnæmi umhverfis þarf samfélagið að fyrirbyggja hvers konar heilsuspillandi aðstæður í nærumhverfi fólks, hvort sem það er á heimilum, vinnustöðum, við tómstundir eða annars staðar þar sem fólk fer eða dvelur.

Heilsuspillandi aðstæður

Orsakir heilsuspillandi aðstæðna eru fjölbreyttar og má sem dæmi nefna smitsjúkdóma, rakaskemmdir í húsnæði, ónæði og skort á góðu hreinlæti. Ógætilega framleidd matvæli og aðrar vörur geta einnig verið heilsuspillandi, s.s. snyrtivörur, lyf, leikföng, fatnaður, húsgögn og byggingarefni. Mengun spillir líka heilsu fólks, t.d. í formi svifryks, ómeðhöndlaðs skólps og losunar spilliefna í vötn og jarðveg. Loftslagsbreytingar vegna losunar gróðurhúsalofttegunda valda svo enn frekari heilsuspillandi aðstæðum, m.a. í formi aukinna flóða, þurrka og gróðurelda.

Ábyrgð nær- samfélagsins í 152 ár

Frá því Ísland öðlaðist réttinn til sveitarstjórnar árið 1872 hefur það verið skylda fulltrúa nærsamfélagsins að hafa gætur á heilbrigðis-ásigkomulaginu á sínu svæði, þ.e. heilnæmi umhverfis. Upphaflega höfðu hreppsnefndir þetta hlutverk en einnig mátti fela það sérstakri heilbrigðisnefnd sem var yfirleitt skipuð sýslumanni, héraðslækni og bæjarfulltrúa.

Heilbrigðissamþykktir sveitarfélaga

Heilbrigðisnefndir höfðu framan af takmörkuð úrræði til að framfylgja réttindum íbúa til heilnæms umhverfis en það gjörbreyttist með setningu laga nr. 26 árið 1901 um heilbrigðissamþykktir í kaupstöðum, kauptúnum og sjóþorpum á Íslandi. Líkt og nafn laganna gefur til kynna fengu heilbrigðisnefndir heimild til að setja heilbrigðissamþykktir og innihéldu þær frá upphafi heildstæðar reglur um heilnæmi umhverfis sem tóku á hvers konar heilsuspillandi aðstæðum í nærumhverfi fólks.

Heilbrigðisfulltrúar

Líkt og upprunaleg samsetning heilbrigðisnefnda gefur til kynna þá krefst hlutverkið valds, fagþekkingar og umboðs nærsamfélagsins. Framan af sáu nefndarmenn alfarið um starfsemina en eftir því sem fólksfjölgun jókst höfðu þeir sífellt minni tíma aflögu frá aðalstörfum sínum. Úr varð hið sérhæfða starf heilbrigðisfulltrúa en sá fyrsti hóf störf í Reykjavík árið 1905 og árið 1940 var öllum sveitarfélögum orðið skylt að ráða heilbrigðisfulltrúa.

Heilbrigðiseftirlit ríkisins

Fram til ársins 1969 var heilbrigðiseftirlit alfarið í höndum heilbrigðisnefnda undir yfirstjórn Landlæknis en þá var Heilbrigðiseftirlit ríkisins stofnað til að styðja enn frekar við og samræma heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga í landinu. Heilbrigðissamþykktir voru t.a.m. samræmdar á landsvísu með heilbrigðisreglugerð, sem í dag heitir reglugerð um hollustuhætti, og þegar nafni stofnunarinnar var breytt í Hollustuvernd ríkisins árið 1981 fluttust sum sérhæfð eftirlitsverkefni til ríkisins, s.s. eftirlit með stærri verksmiðjum og matvælaframleiðslufyrirtækjum. Í dag er Heilbrigðiseftirliti ríkisins skipt upp í Umhverfisstofnun og Matvælastofnun og var það gert eftir að yfirstjórn málaflokksins fluttist frá heilbrigðisráðuneytinu til umhverfisráðuneytisins snemma.

Tímabundin afturför

Á undanförnum áratug hefur yfirstjórn málaflokksins verið í ólestri og framganga umhverfisráðuneytisins einkennst af skilningsleysi á tilgangi heilbrigðiseftirlits. Sem dæmi hefur verið reynt að afnema hæfniskröfur til heilbrigðisfulltrúa, regluverkið gert flóknara með gullhúðun Evróputilskipunar í formi svokallaðrar skráningarreglugerðar og lögbundin gerð leiðbeininga til heilbrigðisnefnda hefur verið vanrækt vísvitandi. Þrátt fyrir þessa tímabundnu afturför eftir aldarlangt uppbyggingarstarf verður þörfin á vönduðu heilbrigðiseftirliti alltaf fyrir hendi líkt og nýleg dæmi sýna, s.s. varðandi skólahúsnæði, matvælalagerð, bensínstöðvar og margt fleira.

Ákall til ríkisstjórnar og Alþingis

Á þingmálalista núverandi ríkisstjórnar 31. mars nk. er frumvarp um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, þ.e. nýjustu útgáfu upprunalegu laganna um heilbrigðissamþykktir frá árinu 1901, með þeim tilgangi að endurskoða eftirlitskerfið með róttækum hætti. Vandinn er þó sá að í skýrslu starfshópsins sem frumvarpið á að byggja á er lagt til að afnema heilbrigðisnefndir, afleggja hæfniskröfur til heilbrigðisfulltrúa og færa öll verkefni heilbrigðiseftirlits frá sveitarfélögum til ríkis, jafnvel þó að í skýrslunni sé skýrt tekið fram að „ekki [liggi] fyrir upplýsingar um hver áhrif verða ef tiltekinn kostur er valinn“.

Til að koma í veg fyrir alvarlega afturför fyrir heilnæmi umhverfis á Íslandi er nauðsynlegt að ríkisstjórnin og Alþingi sendi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra aftur að teikniborðinu, því þótt vissulega sé þörf á að betrumbæta heilbrigðiseftirlit þá er núverandi áformum ekki viðbjargandi.

Höfundur er heilbrigðisfulltrúi.

Höf.: Pétur Halldórsson