Bjarni setti umræður um útlendingamál í nýjan farveg. Tónninn sem hann gaf hlaut mikinn hljómgrunn. Skoðanir annarra stjórnmálamanna og almennings breyttust.

Vettvangur

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Nú eru fjórar vikur frá því að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, birti færslu á Facebook (19. janúar) þar sem sagði „óboðlegt með öllu að Reykjavíkurborg“ hefði gefið leyfi fyrir dapurlegum tjaldbúðum á Austurvelli „þessum helga stað milli styttunnar af Jóni Sigurðssyni og Alþingis“.

Bjarni sagðist skilja áhyggjur og óvissu þeirra sem dveldu hér fjarri fjölskyldum sínum sem margar byggju við skelfilegar aðstæður. Hann minnti jafnframt á að yfirvöld hér fengju margfalt fleiri umsóknir frá hælisleitendum en nágrannaríkin. Hærra hlutfall umsókna væri auk þess tekið til efnislegrar meðferðar hér með jákvæðri niðurstöðu. Hvergi á Norðurlöndunum hefði verið tekið við fleiri Palestínumönnum en hér og hvergi hefðu heldur fleiri beiðnir Palestínumanna um fjölskyldusameiningar verið teknar til flýtimeðferðar eftir 7. október.

Bjarni hvatti til þess að íslenskar reglur um hælisleitendamál yrðu hertar og samræmdar því sem gerðist hjá nágrannaþjóðum. Auka þyrfti eftirlit á landamærum. Núverandi fyrirkomulag væri „algerlega komið úr böndunum, bæði varðandi kostnað og fjölda umsókna“. Innviðir okkar væru komnir að þolmörkum og nú á vorþingi skipti öllu að á þessum málum yrði tekið af festu og öryggi. Alþingi hefði ítrekað brugðist og hafnað tillögum dómsmálaráðherra sem meðal annars hefðu átt að taka á þessari stöðu, þótt nokkur jákvæð skref hefðu verið tekin. Samhliða þessu þyrfti að styrkja lögregluna m.a. með auknum heimildum í baráttunni gegn innlendri og alþjóðlegri brotastarfsemi.

Bjarni sagði síðan í annarri færslu á Facebook (22. janúar) að fólki væri sannarlega frjálst að vera sér ósammála um vandann í hælisleitendakerfinu. Á hinn bóginn taldi hann það algjört þrot lýðræðislegrar umræðu þegar sagt væri að sjónarmið sín sýndu „skort á samúð og skilningi á aðstæðum fólks í viðkvæmri stöðu“. Hann hefði þvert á móti „ítrekað lýst samúð okkar og skilningi á stöðu fólks sem lifir í ótta um afdrif ættingja sinna á fjarlægum slóðum“. Ísland hefði beitt sér af krafti alls staðar sem því væri við komið og við hefðum ekki látið okkar eftir liggja í móttöku og stuðningi við fólk frá Gasa – þvert á móti.

Bjarni hafnaði fullyrðingu Semu Erlu Serdaroglu, aðjúnkts við Háskóla Íslands og stofnanda Solaris, sem sagði í fréttum ríkisútvarpsins að hann hefði haft uppi óhróður um hóp fólks og hann væri „í reynd að hvetja til andúðar og ofbeldis“, hann hefði brotið almenn hegningarlög með orðum sínum.

Fyrir þessum ásökunum eru engin rök. Bjarni setti hins vegar umræður um útlendingamál í nýjan farveg. Tónninn sem hann gaf hlaut mikinn hljómgrunn. Skoðanir annarra stjórnmálamanna og almennings breyttust. Var því ekki að undra að öfgakonan Sema Erla hefði helst viljað að lögregla þaggaði niður í honum. Það mistókst með öskurkór mótmælenda og trumbuslætti eða aðför að fólki og mannvirkjum.

Hún fór síðan til Egyptalands til að ná í fólk á Gasa og slá um sig í ríkisútvarpinu á kostnað starfsmanna utanríkisþjónustunnar. Í Danmörku sæta þeir ákæru sem bera lof á hryðjuverk Hamas í sjónvarpi. Hér vilja öfgamenn að þessu sé öfugt farið.

Nú í vikunni hafa tveir flokksformenn, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir Viðreisn og Kristrún Frostadóttir Samfylkingu, boðað stefnubreytingu í útlendingamálum.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra, Sjálfstæðisflokki, nýtur óskoraðs stuðnings formanns og þingflokks síns þegar hún flytur frumvarp um svokallað „lokað búsetuúrræði“, það er samastað fyrir hælisleitendur sem bíða brottvísunar úr landi eftir afgreiðslu mála þeirra. Frumvarpið var í samráðsgátt stjórnvalda frá 19. janúar til 3. febrúar og er nú á lokastigi hjá ráðherranum.

Á fyrri stigum mátti stjórnarandstaðan ekki heyra á slíkt úrræði minnst. Þorgerður Katrín sagði hins vegar í grein á Vísi 14. febrúar að hún væri til viðræðu um frumvarpið enda yrði farið að barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna við vistun barna.

Áður hafði Kristrún Frostadóttir sagt í hlaðvarpsþættinum Ein pæling 10. febrúar að hún teldi að Ísland ætti ekkert að skera sig úr meðal Norðurlanda í útlendingamálum. Við yrðum „auðvitað bara að ganga í takt við aðrar þjóðir hvað það varðar“. Raunsæi yrði að ráða og varðstaða um innri kerfi ríkisins með gæslu landamæra. Hún hefði skilning á áformum Guðrúnar Hafsteinsdóttur um lokað búsetuúrræði.

Skömmu áður en flokksformaðurinn lét þessi orð falla sagði Inger Erla Thomsen, varaþingmaður Samfylkingarinnar, í ræðu á þingi að Sjálfstæðisflokkurinn notaði fólk sem fast væri á Gasa sem skiptimynt gegn því að knýja í gegn harðari útlendingalöggjöf, til dæmis lokað búsetuúrræði.

Ósmekklegar dylgjur af þessu tagi hafa einkennt málflutning Samfylkingarinnar í útlendingamálum. Vilji flokksformaðurinn breyta um stefnu ætti hún að hefjast handa innan sex manna þingflokksins.

Hér skal fullyrt að þessi veðrabrigði í útlendingamálum á innlendum stjórnmálavettvangi hefðu ekki orðið nema vegna þess að formaður Sjálfstæðisflokksins blés til varnar vegna niðurlægingar Austurvallar. Umgengni þar er sýnileg mynd af sjálfsvirðingu þjóðarinnar.

Borgarstjórn Reykjavíkur ákveður umgjörð og athafnir á Austurvelli með leyfisveitingum sínum. Virðing hennar fyrir höfuðborginni, Jóni Sigurðssyni, Dómkirkjunni og Alþingishúsinu blasir við á þessum litla velli. Vitnisburðurinn er skammarlegur, í einu orði sagt.