[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég er svo heppin að kærasti dóttur minnar er Spánverji og pabbi hans, Firo Vazquez, er einn helsti ólífuolíusérfræðingur Spánar. Hann heldur fyrirlestra og kynningar um ólífuolíur út um allan Spán og er mjög þekktur í þessum geira

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ég er svo heppin að kærasti dóttur minnar er Spánverji og pabbi hans, Firo Vazquez, er einn helsti ólífuolíusérfræðingur Spánar. Hann heldur fyrirlestra og kynningar um ólífuolíur út um allan Spán og er mjög þekktur í þessum geira. Vegna þessarar óvæntu tengingar við ólífuolíur þá fór ég til Spánar fyrir rúmu ári og nældi mér í diplómu í ólífuolíusmökkun frá háskólanum í Murcia. Þetta er svipað og í vínsmökkun, misjafnir árgangar, uppskerur, tegundir og svo framvegis,“ segir Lára Magnea Jónsdóttir textíllistakona sem flytur inn ólífuolíur frá Spáni og nokkrar aðrar sérvaldar sælkeravörur.

„Hann Firo velur fyrir mig allar vörur sem ég er að selja. Ég býð upp á þrjár tegundir af ólífuolíum sem allar eru úr uppskeru síðastliðins hausts, en svo kemur ný uppskera seint næsta haust. Þetta eru allt kaldpressaðar olíur sem mega ekki hitna yfir sextíu gráður, svo þær eru ekki hugsaðar til steikingar. Fyrsta ber að nefna þá sem ber höfuð og herðar yfir þær allar, hún er háklassa verðlaunaolían Castillo de canena. Hún var valin besta olían af ólífuuppskeru Spánar 2023, með hæstu einkunn, fékk hundrað gæðastig af hundrað mögulegum frá Hall of fame, á Spáni í haust. Hún ilmar eins og gras, enda eiga góðar olíur ekki að lykta eins og olíur heldur eins og jurtir. Góð ólífuolía á líka að rífa svolítið í hálsinn við smökkun, það er gæðamerki. Þeir sem hafa komist upp á bragðið hjá mér eru komnir í áskrift með olíurnar.“

Lára segir framleiðendur ólífuolíanna sem hún flytur inn vera ólíka en olíurnar komi allar beint frá býli og þær flokkist sem mildar olíur.

„Af því Íslendingar eru frekar óvanir ólífuolíum, þá ákvað ég að bjóða ekki strax upp á sterkar olíur. Ein af mínum þremur olíum er frá henni Inez, sem á og rekur litla verksmiðju í hjarta Murcia. Þangað fékk ég að fara í heimsókn og allt er í smáum heimilislegum stíl, hún tínir sínar eigin ólífur og pressar olíu sem hún selur undir eigin merkjum, Almanzara Leva. Faðir hennar stofnaði þessa litlu verksmiðju fyrir margt löngu og þarna koma nágrannabændur með kör á pallbílum troðfull af ólífum sem þeir leggja inn hjá henni Inez og hún vinnur fyrir þá og setur á stóra brúsa. Þeir sækja síðan olíuna sem unnin hefur verið af natni úr þeirra eigin ólífum,“ segir Lára Magnea sem selur líka fylltar ólífur í dósum, niðursoðinn krækling í kryddolíu, pistasíuhnetur og möndlur. Allt gæðavörur frá Spáni.

Sækir í menningararfinn

Á borðinu hjá Láru Magneu liggur mikil útsaumshrúga, alls konar ólík gömul munstur.

„Ég er mikil útsaumsáhugamanneskja en ég er ekki að þykjast finna upp einhver munstur, heldur vinn ég með menningararfinn okkar, það sem til er, og set það í nýjan búning. Ég endurhanna bæði efni og liti, þetta er alltaf mín litapalletta og ég raða munstrunum saman. Hægt er að kaupa pakkningu á vefsíðunni minni saumakassinn.is sem inniheldur allt sem til þarf til að sauma út þessi endurhönnuðu munstur, stramma, garn og uppskrift. Fólk ræður svo hvernig það setur verkið upp eftir að það hefur lokið við að sauma það út, sem púða, veggmynd í ramma, tösku eða hvað annað sem fólki dettur í hug.“

Athygli vekur útsaumur með fjallinu Herðubreið. „Þetta er fjall sem dóttir mín teiknaði þegar hún var lítil, en það vill svo til að það lítur nánast eins út og Herðubreiðarmyndir Stefáns Stórvals, enda var hann naivisti. Hann var ekki með klömbrur í sínum myndum, eins og ég er með undir útsaumsfjallamyndum mínum, en klömbruhleðslur voru í gömlu torfbæjunum okkar.“

Í saumakassa Láru Magnesu fást m.a. 16 mismunandi pakkningar með öllu sem til þarf til að sauma út gömul munstur eftir Karólínu Guðmundsdóttur vefara.

„Ég endurhannaði þau og setti í nýjan búning en þessar pakkningar, sem ég kalla Karólínur, eru mjög vinsælar, enda ráða allir við að sauma þessi mynstur út. Það var einmitt markmiðið með þessari hönnun, að krakkar og fullorðnir réðu við útsauminn, þetta er fljótgerður venjulegur krosssaumur. Fram undan er annað spennandi verkefni, áþekkt Karólínunum, en það kemur í ljós með vorinu,“ segir Lára Magnea leyndardómsfull en hún hannaði Karólínurnar á sínum tíma fyrir Borgarsögusafn þegar hún fór í stórt verkefni með safninu og Heimilisiðnaðarfélaginu.

„Þá var ég fengin til að hanna söluvöru fyrir safnið í tilefni af sýningu sem sett var upp á verkum Karólínu í Kornhúsinu á Árbæjarsafni.“

Tilfinningaleg myndlist

Lára Megnea dregur fram stórt útsaumsverk í ramma með textanum: Staður fyrir hvern hlut, hver hlutur á sínum stað.

„Ég var beðin að sauma þetta sérstaklega út fyrir nýju Húsó-þættina, því þessi setning var einhvern tíma máluð á vegg í Húsmæðraskóla Reykjavíkur. Ég fékk ákveðna litapallettu frá leikmyndahönnuði, en að öðru leyti hannaði ég þetta alfarið og þessu verki var blastað í fyrsta þætti. Ég fór hjá mér,“ segir Lára Magnea og hlær og bætir við að annar útsaumur eftir hana muni birtast í kvikmynd sem verður frumsýnd á árinu.

Íslensk myndlist skreytir veggi heimilis Láru Magneu en hún segist safna tilfinningalegri myndlist. „Öll þessi verk hafa persónulegt tilfinningagildi, til dæmis verk eftir Hafstein Austmann sem kenndi mér á sínum tíma í Myndlista- og handíðaskólanum. Líka verk sem Bílda, Brynhildur Kristins, gerði sérstaklega fyrir mig, en hún var samtíða mér í myndlistarnámi. Stundum langar mig að opna safn hér heima af því ég hef svo gaman af að segja sögur sem tengjast verkunum.“

Þeir sem vilja kaupa ólífuolíu, sælkeravörur eða útsaum af Láru Magneu geta verslað á vefsíðu hennar Saumakassinn.is, eða sent henni tölvupóst á saumakassinn@saumakassinn.is

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir