[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Um þessar mundir er ég með þrjár mjög ólíkar bækur í takinu, tvær á náttborðinu og eina í spilaranum. Fyrst er að nefna dámsamlega bók Daníels Daníelssonar, Ég get ekki hætt að hugsa um Rithöfundasamband Íslands sem er bæði ljóðabók og skrifblokk,…

Um þessar mundir er ég með þrjár mjög ólíkar bækur í takinu, tvær á náttborðinu og eina í spilaranum.

Fyrst er að nefna dámsamlega bók Daníels Daníelssonar, Ég get ekki hætt að hugsa um Rithöfundasamband Íslands sem er bæði ljóðabók og skrifblokk, og fjallar um þráhyggjufulla leit höfundar að viðurkenningu Rithöfundasambandsins og póstmódernískar hugmyndir hins vestræna heims. Inn í vangavelturnar fléttast hugsanir um lífdauða plánetunnar, Storytel og margt annað. Stórskemmtilegt verk sem gefur tóninn hvort sem hún er lesin upphátt í heild sinni fyrir áramótaveislugesti eða hún samtímaþýdd á spænsku fyrir mexíkanska ljóðaunnendur. En líka er gott að grípa til hennar á kvöldin rétt fyrir svefninn.

Hin bókin á náttborðinu er Dauði Francos eftir Guðberg Bergsson. Þetta eru dagbókarfærslur og hugleiðingar Guðbergs frá árinu 1975, þegar hann fylgist með nokkurra vikna dauðastríði Francos og endalokum einræðis á Spáni. Launfyndin frásögn og grótesk í senn, og framvindan farsakennd. Löngu liðinn tími einræðisherra, sem þó er svo nálægur og alltumlykjandi á Spáni og glittir ennþá í þá síst varir.

Ekkert linar heimilisstörfin eins og að hlusta á góða bók. Uppvasksraunir sem og amstur tiltektar og speglapússerís hverfa eins og dögg fyrir sólu við að stíga inn í heim grípandi frásagnar. Í spilaranum er ég um þessar mundir að rifja enn og aftur upp kynni mín af bók James Nestors Breaths: the new science of a lost art, sem útleggst upp á íslensku sem Andardráttur – Forn list endurvakin. Fáar bækur, ef nokkur, hafa aukið lífsgæði mín jafn mikið með beinum hætti og þessi bók. Bæði er hún skemmtilega skrifuð og segir frá ferðalagi höfundar inn og út um öndun, en einnig er að finna í henni misskrýtnar æfingar sem ég nota nánast daglega. Ég er sannfærður um að þær hafi breytt lífi mínu til hins betra, bæði í svefni og vöku. Heimilisfólk er nánast hætt að kippa sér upp við að sjá mig með uppþvottahanskana upp reidda, styðjandi mig við kústskaft, starandi út í tómið og varpandi öndinni í sífellu. Það sér heyrnartappana og veit að ég er að endurvekja hina fornu list, að anda með nefinu.