Árið 2011 fengu vinkonurnar Gunnhildur Edda Kristjánsdóttir og Christina M. Bengtsson þá flugu í höfuðið að sauma refilklæði sem segja myndi Njáls sögu. Þær fengu Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur listamann og rithöfund til liðs við sig og verkefninu var ýtt úr vör.
„Þetta átti bara að verða. Okkur var alls staðar vel tekið og það gekk allt upp. Sveitarfélagið Rangárþing eystra studdi okkur mjög mikið. Þeir létu okkur hafa til afnota húsnæði sem var rúmgott og fínt og mjög yndislegt að vera þessi ár sem við vorum þarna og það voru mjög margir sem styrktu okkur á ýmsan hátt,“ útskýrir Gunnhildur þegar blaðamenn setjast niður með henni í félagsheimili í Fljótshlíðinni, steinsnar frá helstu sögustöðum Njálu.
Refill er merkilegt menningarlegt fyrirbæri og við fáum Kristínu, sem einnig er sest niður með okkur, til þess að útskýra hvað þar er í raun á ferðinni.
„Á miðöldum voru saumaðir svona reflar til að klæða híbýli að innan og síðar kirkjur. Þetta var notað í frásagnarverk þannig að eitt merkasta verk frá miðöldum er Bayeux-refillinn og það er frásagnarverk úr raunheimum þar sem bardaga er lýst sem gerist 1066 og aðdraganda hans við Hastings í Bretlandi. Hann var síðar hengdur upp einu sinni á ári í kirkju í Bayeux til að minnast atburðarins. Á sama tíma er verið að búa til altarisklæði hér á landi. Og þá er verið að segja t.d. frá heilögum dýrlingum eða ákveðnum persónum sem eru líka frásagnarlegs eðlis en við áttum hér mýmörg altarisklæði sem saumuð voru með sama hætti og Bayeux-refillinn,“ útskýrir hún. Ef skýra ætti út fyrir yngstu kynslóðinni hvað refill er þá mætti segja að þar sé um útsaumaða myndasögu að ræða. Sennilega hefði Walt Disney notast við þessa frásagnaraðferð, hefði hann fæðst árið 1201 en ekki 700 árum síðar.
Lengstur allra refla
Gunnhildur rifjar upp að hópurinn sem kom að verkefninu hafi tekið þetta einn dag í einu en að frá upphafi hafi verið ljóst að verkefnið yrði mikið að vöxtum. Fyrrnefndur Bayeux-refill er fyrir löngu kominn á heimsminjaskrá UNESCO og er ríflega 70 metrar að lengd. Niðurstaðan með Njálurefilinn hafi orðið sú að hann telur níu tugi metra og gott betur. Hann ku vera lengsti heili refill í heimi og spyr blaðamaður hvort hann eigi af þeim sökum ekki heima á lista Heimsmetabókar Guinness. Gunnhildur segir það vel mega vera, þótt markmiðið með saumaskapnum hafi verið annað.
Og við gerð hans var notuð einstök handverksaðferð sem Íslendingar varðveittu lengur en aðrar þjóðir.
„Það er svo merkilegt að þessi saumaaðferð varðveittist hér á landi þegar þekkingin tapaðist erlendis. Þá var farið að mála með litum í frásagnarverkum í kirkjum, með olíulitum og svoleiðis, en hér var haldið áfram að sauma. Sennilega höfum við ekki fengið liti hingað og fyrir vikið varðveittist þetta saumspor sem tengir Njálurefilinn beint við Bayeux-refilinn,“ útskýrir Kristín Ragna.
Gunnhildur útskýrir að fyrstu árin hafi aðstaðan, þar sem saumaskapurinn fór fram, verið opin þrjá daga í viku en að öflugustu saumakonurnar hafi fengið lykil að húsinu og getað gripið í vinnu þegar þeim hentaði. Stefnt hefði verið að því að vinnan tæki áratug en niðurstaðan varð sjö ár, sjö mánuðir og sjö dagar. Margar hendur lögðust á eitt þótt þunginn í starfinu hafi hvílt á herðum kvenna sem búsettar eru á Njáluslóðum. Talið er að fólk frá um 150 þjóðríkjum hafi komið að saumaskapnum og segir Gunnhildur að fólk sem kom og kynnti sér vinnuna hafi einfaldlega fengið leiðsögn um hvernig sauma mætti og að það hafi gengið vel. „Það þurfti mjög litið að rekja upp,“ segir hún og hlær.
En það er að ýmsu að hyggja þegar sauma á sögurefil upp á tugi metra. Ekki þurfti aðeins að útvega hinn ógurlega langa hördúk. Einnig þurfti að finna garn í réttum litum. Það reyndist þrautin þyngri.
„Svo þurfti að finna út úr garninu. Við erum með lambsull sem við fengum ólitaða hjá Ístex. Við töluðum við nokkrar konur sem hafa verið að lita garn. Það var engin sem lagði í að taka þetta að sér. Þannig að við ákváðum að lesa okkur til og gerðum þetta sjálfar. Það eru átta litir í reflinum,“ segir Gunnhildur og heldur áfram: „Við notuðum íslenskar jurtir eins mikið og við gátum. Við notuðum birkið og öspina sem er orðin íslensk og einnig dálítið reynivið. Þessar jurtir gefa mest gulan lit. Svo keyptum við indígólit til að búa bæði til græna og svo bláa garnið. Það er í tvennu lagi og einfaldlega baðað misoft eftir því hvort við gerðum ljósbláan eða dökkan. Svo er það krapprót frá Svíþjóð sem er notuð til þess að búa til rauðan. Við vorum svo heppnar að gera mistök og við ofhituðum rótina og fengum þá brúnt garn og þá var það leyst.“ Þegar hún er spurð hvort liturinn muni halda sér jafn vel og í Bayeux-reflinum, sem staðist hefur tímans tönn í nærri 1.000 ár, segir hún einfaldlega að það viti þær ekki en að allt sé gert til þess að vernda refilinn, m.a. fyrir upplitun.
Húsnæði yfir refilinn
„Við erum búin að gera leigusamning við eiganda Lava Center-hússins. Við fengum arkitekta með okkur til að hanna sýninguna. Hún átti að vera þar sem veitingastaðirnir voru en þeir höfðu hætt rekstri. Við vorum komin langt með að hanna sýningu þarna inni þegar við vorum beðin um að sjá aðeins til því eigandann langaði að leigja þetta undir veitingastað. Þetta var 2022 þegar covid var. En staðan er sú að eigandi hússins vill byggja yfir refilinn í tengslum við sýninguna sem er þarna í Lava og vonandi verður byrjað á því árið 2025 og á því ári getum við vonandi klárað að setja upp sýninguna.“
Ferðaverk í vinnslu
Og þótt nokkuð sé um liðið frá því að lokið var við refilinn langa sitja saumakonur ekki auðum höndum. Nú er unnið að fimm metra löngum ferðarefli, sem þær kalla svo. Hann mun hefja heimshornaflakk í byrjun næsta árs, fyrst í Bandaríkjunum. Er honum ætlað að þjóna sem sendiherra fyrir stóra bróður og vekja athygli á því menningarafreki sem nú er orðið að veruleika og hljóta mun heiðurssess á Hvolsvelli, áður en langt um líður.