Smitberinn
Halldór Armand
halldor.armand@
gmail.com
Í þoku covid-áranna stendur ein minning upp úr fyrir ofanritaðan. Það var að sitja við stofuborðið heima hjá mér í miðju útgöngubanni og hafa fátt annað fyrir stafni en að borða flatkökur og fylgjast með hlutabréfamörkuðum í fyrsta skipti. Ég ætla ekki að segja að það hafi verið lífsreynsla á pari við það sem Arkímedes upplifði í baðkarinu á sínum tíma, en það var svo sannarlega einhvers konar persónulegt Eureka!-augnablik.
Þegar götur Reykjavíkur voru mannlausar, þegar heyra mátti saumnál detta í stærstu flugstöðvum heims, þegar búðir og vinnustaðir voru læstir, þegar Íslendingar kyrjuðu saman fylgispektarsálm sinn á Zoom um dyggðina að hlýða, þegar alþjóðlega hagkerfið var botnfrosið eins og Tjörnin í janúar, fóru fjármálamarkaðir með himinskautum eins og knúnir nýrri og öflugri bensíntegund. Frá seinni parti mars 2020 og fram í september 2021 hækkaði íslenski hlutabréfamarkaðurinn um 120% eða svo. Sama gildir um S&P500-vísitöluna í Bandaríkjunum, sem einmitt núna er sögulega séð í hæstu hæðum.
Manneskja sem er ekki er hagfræðimenntuð, venjulegur leikmaður, já, löggiltur hálfviti eins og ofanritaður átti erfitt með að flýja eftirfarandi ályktun: Þegar efnahagsástandið er gott hækka hlutabréfamarkaðir. En þegar ástandið er slæmt þá fara þeir … miklu hærra! Raunveruleikatenging markaða er engin – hún er öfug ef eitthvað er: því verra, því betra!
Samfélög rifna ekki frá hægri til vinstri
Ástæðan fyrir þessari allsherjarfirringu er eflaust margþætt. Þegar stjórnvöld lokuðu fólk inni reyndu seðlabankar að halda hagkerfinu á floti með stjarnfræðilegri peningainnspýtingu í fjármála- og atvinnulíf og vaxtalækkunum. Þetta var allt gert með prentuðum peningum sem þynntu út sparnað venjulegs fólks og voru olía á eld eignabólunnar. Síðan er engin núvitund til á mörkuðum; þeir eru alltaf með annan fótinn í framtíðinni og endurspegla þannig ekki líðandi stund.
Það má færa fyrir því rök að útgöngubann og covid-aðgerðir á heimsvísu hafi falið í sér stærstu eignatilfærslu allra tíma; frá hinum fátæku og til hinna ríku. Faraldurinn bitnaði langverst á þeim lægst settu og sneri við áratugalangri þróun í átt aukinnar velsældar; hundruð milljóna manna á heimsvísu steyptust inn í myrkviði fátæktar og glíma núna ennþá við verðbólguna – „grimmasta skattinn af þeim öllum“ – sem þessi tími framkallaði. Á sama tíma tvöfaldaðist vínberjaklasinn yfir höfði hinna ríku að stærð. Tíu ríkustu menn heims högnuðust um 180 milljarða króna á dag fyrstu tvö ár faraldursins.
Það er fyndið að skoða hlutabréfamarkaði, til dæmis þann bandaríska, langt aftur í tímann. Hann kemur löggiltum hálfvita fyrir sjónir eins og spilavíti með öfugum formerkjum; til lengri tíma er vart hægt að tapa – svo lengi sem þú ert ekki að snerta sápuna of mikið. Hlutabréf eru enda leikur fyrir ríkt fólk. Síðla árs 2021 kom fram að 89% bandarískra hlutabréfa væru í eigu ríkustu 10% og eflaust er ekki svo galið að ímynda sér að hlutfallið sé eitthvað svipað hér á landi.
Mér var einu sinni kennt að samfélög rifni ekki milli hægri og vinstri heldur upp og niður. Hér verður því haldið fram að hin eina sanna pólarísering í dag liggi einmitt þarna. Eftir alþjóðlega efnahagshrunið komu fram tvær hreyfingar í Bandaríkjunum; Teboðs-hreyfingin og Occupy-hreyfingin. Önnur barðist gegn óhóflegri skuldsetningu ríkissjóðs og björgunarpökkum fyrir banka og hin gegn pilsfaldakapítalisma og björgunarpökkum fyrir banka. Þetta voru tvær hliðar á sama peningi; baráttunni gegn því hvernig opinberum fjármálum og hóflausri seðlaprentun er beitt til þess að flytja verðmæti frá venjulegu fólki til stórra, pólitískt tengdra aðila. Ég held að friðarbrúin milli hægri og vinstri gæti legið nákvæmlega þarna í dag.