Mennirnir höfðu flutt inn eitt kíló af kannabisefnum og 50 LSD-skammta.
Mennirnir höfðu flutt inn eitt kíló af kannabisefnum og 50 LSD-skammta. — Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
Greint var frá því á baksíðu Morgunblaðsins 19. febrúar 1974 að rannsókn væri komin vel á veg í máli sem snerist um innflutning og dreifingu á fíkniefnum

Greint var frá því á baksíðu Morgunblaðsins 19. febrúar 1974 að rannsókn væri komin vel á veg í máli sem snerist um innflutning og dreifingu á fíkniefnum.

Að sögn Ásgeirs Friðjónssonar, dómara í ávana- og fíkniefnamálum, var vitað að tveir útlendingar höfðu skömmu áður flutt til landsins um eitt kíló af kannabisefnum og um 50 LSD-skammta.

Þeir höfðu ekki selt nema hluta magnsins, er yfirheyrslur hófust vegna málsins, en þeir höfðu þá fengið íslenskan mann til að fela efnið fyrir sig. Hann kveðst hafa grafið það niður á víðavangi, en þrátt fyrir leit hafði felustaðurinn ekki fundist aftur.

Í öðru máli hafði Íslendingur viðurkennt afhendingu á nokkuð á annað hundrað LSD-skömmtum til annars manns, sem dreifði þeim í fleiri staði. Mun efnið hafa komist í umferð rétt um áramót, en enn var óljóst með hverjum hætti það hafði borist til landsins.

Í þriðja málinu var rannsókn komin enn skemmra á veg, en einn maður var í varðhaldi.