Brúðhjón Alexandrine og Kristján X. á brúðkaupsdaginn árið 1898.
Brúðhjón Alexandrine og Kristján X. á brúðkaupsdaginn árið 1898.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Kolbrún Bergþórsdóttir kolbrun@mbl.is Í júnímánuði 1936 var mikið um dýrðir því Kristján X. Danakonungur og kona hans Alexandrine, ásamt Knúti yngri syni þeirra og eiginkonu hans, Caroline Mathilde, heimsóttu Ísland. Þetta var fjórða heimsókn konungshjónanna til landsins.

Baksvið

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Í júnímánuði 1936 var mikið um dýrðir því Kristján X. Danakonungur og kona hans Alexandrine, ásamt Knúti yngri syni þeirra og eiginkonu hans, Caroline Mathilde, heimsóttu Ísland. Þetta var fjórða heimsókn konungshjónanna til landsins.

Í Morgunblaðinu 19. júní var sagt frá komu konungshjónanna til Reykjavíkur en þau sigldu með Dannebrog. Á hafnarbakkanum fögnuðu þeim 10-15 þúsund manns. Ráðamenn tóku höfðinglega á móti hinu konunglega liði.

Ferðir konungshjónanna og fylgdarliðs í Reykjavík og um landið voru síðan raktar í Morgunblaðinu næstu daga af töluverðri nákvæmni. Myndefni var hins vegar mjög af skornum skammti og þær myndir sem birtust engan veginn góðar á nútímamælikvarða.

Geysir brást gjörsamlega

Hið konungborna fólk skoðaði sig um í Reykjavík en ferðaðist einnig um landið. Í hádegisverði í Þrastarlundi hafði konungur greinilega ánægju af að hitta Ólaf Magnússon prófast í Arnarbæli, en faðir hans, Friðrik VIII., hafði gist hjá honum í Íslandsferð árið 1907. Ferð á Geysi olli hins vegar vonbrigðum. Þar var dvalið í um tvo tíma og beðið eftir að Geysir gysi. Einhverjar smáskvettur sáust en stóra gosið kom ekki.

Morgunblaðið leitaði vitanlega skýringa á því af hverju Geysir hefði ekki látið á sér kræla. Brýnt hafði verið fyrir umsjónarmanni Geysis að láta hverinn ekki gjósa í tvo til þrjá daga fyrir komu hinna konunglegu gesta. Hann hafði ekki hlýtt því og tveimur dögum fyrir heimsókn konungshjónanna hafði Geysir gosið stóru og fallegu gosi. Morgunblaðið sagði einnig að ekki hefði verið notuð besta tegund af sápu á heimsóknardaginn.

Hlý og vingjarnleg orð

Í blaðinu 23. júní var grein um Alexandrine drottningu og stutt umfjöllun um tengdadóttur hennar, Caroline Mathilde. Einnig var birt ljóð, sérstaklega ort til drottningar, eftir Evu Hjálmarsdóttur frá Siglufirði sem dvaldi á Elliheimilinu Grund.

Í umfjöllun kom fram drottningin hefði lagt sig eftir því að læra íslensku, gæti lesið hana og skildi íslensku ef viðkomandi talaði skýrt. Drottningunni þætti mikið koma til náttúrufegurðar landsins.

Sagt var frá heimsókn drottningar á Landspítalann og Elliheimilið Grund. „Hún kynti sjer gaumgæfilega húsakynni spítalanna og aðbúnað. Hún gekk um allar sjúkrastofurnar, og heilsaði með handabandi öllum þeim sjúklingum, sem voru á vegi hennar og talaði við þá nokkur hlýleg og vingjarnleg orð. Undruðust allir viðstaddir hve mikla alúð hún lagði við þessa kynnisför sína. Og þá ekki síst, er hún kom í Elliheimilið. Er drottning hafði heilsað öllum á Elliheimilinu og skoðað húsakynni hátt og lágt, gekk hún um matjurtagarð heimilisins og fekk þar að vita hvaða matjurtir hjer væru ræktaðar og ræktanlegar.“

Til Borgarfjarðar var haldið 25. júní, eins og Morgunblaðið sagði skilmerkilega frá. Við Laxá voru nokkrir Englendingar að veiðum. Þeir buðu konungi að veiða með
sér en hann kvaðst heldur vilja horfa á.

Hinir tignu gestur fóru einnig norður í land með fríðu föruneyti, þar á meðal til Mývatns. Í frétt Morgunblaðsins sagði: „Verður ekki reynt hjer að lýsa þeirri stórfeldu og fjölskrúðugu náttúrufegurð sem þar bar fyrir augu. En margir sem þar voru þessa góðviðrisstund munu hafa hugsað svipað og Albert Engström er hann skrifaði ferðalýsingu sína og kvaðst lofa drottin fyrir að honum skyldi hafa auðnast að fá að vita að svona fagur staður skyldi vera til á yfirborði jarðar.“

Hinni konunglegu heimsókn lauk 27. júní. Konungshjónin höfðu farið víða, hitt fjölda fólks og setið ótal veislur.

Kom, sá og sigraði

Þegar Alexandrine drottning lést í desembermánuði 1952 var andlát hennar forsíðufrétt Morgunblaðsins. Lífshlaup hennar var rakið og mikið gert út tengslum hennar við Ísland.

Þar er þess getið að í tilefni af fyrstu för Alexandrine og konungs til Íslands í júnímánuði 1921 hafi Sigurður Sigurðsson, skáld frá Arnarholti, ort konungskveðju og komist þannig að orði „að Alexandrine drottning væri augasteinn Íslands“. Morgunblaðið bætir við: „Ekki var laust við að almenningi þætti skáldið þar hafa tekið nokkuð djúpt í árinni að óreyndu meðan þjóðin hafði alls engin bein kynni af drottningum. En svo mátti segja, að hin fyrsta drottning, sem hafði fengið heitið Drottning Íslands, kom, sá og sigraði. Með alúðlegri og alþýðlegri framkomu sinni var það dómur Íslendinga, að Alexandrine drottning væri alveg eins og Íslendingar hefðu hugsað sér að drottningar ættu að vera.“

Til hennar hátignar

Einn af íbúum Elliheimilisins Grundar, Eva Hjálmarsdóttir, hafði fregnir af því, nokkru áður en drottning kom þangað, að hún væri væntanleg. Eva orti kvæði og færði drottningu. Hér eru þrjú erindi úr kvæðinu.

Aldrei átta hefir

Ísland betri drottning,

sem með sinni göfgi

sækti land vort heima.

Hjartans óskir eiga

yður heim að fylgja,

óskir allra vætta,

óskir landsins barna.

Góður guð á hœðum

gefi drottning vorri

og einnig milding mætum

miklar, dýrar gjafir,

gjafir elsku og ástar,

öllu dýrri og fegri,

auð, sem aldrei glatast,

auð frá himinsölum.

Óska jeg dýrri drottning

og döggling vorum milda

allra hjartans óska

frá ættlands góðu vættum.

Yfir bylgjur bláar

berist fley að landi.

Heill og heiður krýnist

við heimlands afturkomu.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir