— Morgunblaðið/Eggert
Á tölvuöld og tækninnar myndi maður ætla að samskipti fólks yrðu önnur og meiri en áður var. Enda er það svo, en með öðrum blæ. En hitt er annað að margvíslegur fróðleikur sem fannst áður í einka- og trúnaðarbréfum og var ekki öðrum ætlaður en sendandanum og viðtakanda er fágætari nú en áður var.

Það er fremur ónotalegt hversu sofandi íslensk stjórnvöld hafa verið í flóttamannamálum og nánast haft fleyið sitt á sjálfstýringu og jafnvel látið yfirstjórn og eftirlit, sem er þó af skornum skammti, í hendurnar á stjórnsömu en í raun umboðslausu ákafafólki, sem ætti hvergi að koma nærri svo viðkvæmum málum og vandmeðförnum. Margur hefur orðið meira en hugsandi yfir framgöngu áður virtra samtaka, eins og Rauða krossins, sem á sér mikla sögu og lengi naut verðskuldaðrar virðingar, frá atbeina sínum á stríðssvæðum við hjálp og björgun á löskuðu fólki og særðu, sem hvergi átti höfði að halla. En hér heima virðast þessi samtök illa hafa breyst og hafa nú á sínum snærum fjölda lögfræðinga, á háum launum, við að þvælast fyrir og að gera stjórnvöldum landsins erfitt fyrir að stemma stigu við flóttamannaóreiðunni, sem komin er í fullkomnar ógöngur. Þessi „stefna“ stjórnvalda eða stefnuleysi er um leið að þrengja rækilega að heilbrigðisstofnunum, sjúkrahúsum, skólum og íbúðamörkuðum þeirra sem fyrir eru í landinu. Er það mikil breyting, og það þótt allt flæði þar út af og í óefni er löngu komið og lýtur vandræðalegum lögmálum þeirra sem hæst bjóða, svo ekki sé meira sagt. Það skrítna er að þessi hávaðasama „hjálparstarfsemi“ á Íslandi núna er öðrum þræði tískubóla og er mest gengið undir Gasa sem stjórnað er af hryðjuverkahreyfingu og ofurþungi á þeirri áherslu, að gleyma því að þaðan kom upphaf þessa óhjákvæmilega stríðs og það með einkar ógeðslegum hætti.

Við sögðum sorrí

Nú er jafnan þannig látið, að hinar óhugnanlegu árásir 7. október á síðastliðnu ári sé umheiminum rétt að afgreiða með því að yppta öxlum og segja: „Við höfum þegar fordæmt það atriði í heilan dag.“ Eða eins og ólátabelgirnir sögðu stundum af fullkomnu kæruleysi: „Hvaða læti eru þetta? Ég var búinn að segja sorrí.“

Nýlega var sagt frá því að tugir milljóna manna þjáist nú af hungri í Afríku og þar eru hernaðarátök og stjórnarbyltingar daglegt brauð. Þau mál eru hvergi nefnd hér á landi, enda virðist stjórnlítið hatur á Ísrael, eina lýðræðislandinu á sínu svæði, reka æsingamennina áfram. Þegar upplýst er, sem öllum var hulið, að 30 þúsund manns í undirstofnun SÞ hafa lengi átt í þéttu sambandi við hryðjuverkasamtökin Hamas og að hópur úr röðum þessara SÞ-liða hafði sérstaklega óskað eftir því að fá að taka beinan hátt í hinum ömurlegu árásum á saklausan og vopnlausan almenning fyrrnefndan 7. október.

Fjöldi sjóða hefur um langa hríð haldið uppi þessari „hjálparstofnun“ á vegum SÞ og sérstaklega verið óskað eftir því að háum fjárstyrkjum, þar á meðal frá Íslendingum, sé veitt þangað og þessi stofnun muni sjá um að þær nýtist sem best. Þar með taldir fjármunir sem Íslendingar höfðu sent og enduðu þar sem síst skyldi til að styrkja jarðgangagerð Hamas-liða. Enginn virtist hafa hina minnstu hugmynd um hvað var þarna á ferðinni. Þó höfðu Bandaríkin, í forsetatíð Trumps, afnumið þennan fjáraustur í eitthvað sem enginn vissi þó hvernig nýttist eða í hvað! Einhvern tíma hefði hin hávaðasama krafa um stuðning við hermdarverkliðið annars vegar og hin djúpa þögn hins vegar um hungursneyðina og eymdina í Afríku um þessar mundir, verið flokkað undir „rasisma“.

Og alltaf er það sama fólk látið gagnrýnislaust blása út í Ríkisútvarpinu, eins og þar séu fréttamenn þess á ferð, á þessari stjórnlausu stofnun, sem virðist rúin metnaði og þar með gagnslaus sem því nemur. En lítilsigldir stjórnmálamenn virðast þó enn óttast hana, sem er raunar óskiljanlegt.

Þegar lögreglustjóri á Reykjanesi upplýsti að starfsmaður umræddrar stofnunar hefði brotist í óleyfi inn í hús í Grindavík, líkastur þjófi að nóttu, var búist við viðbrögðum, og lögreglustjórinn bætti því raunar við að engir aðrir fjölmiðlamenn ættu jafn ríkan þátt í að gera lögreglu erfitt fyrir og þvælast fyrir í óleyfi og þeir á „RÚV“. Hefur verið beðið eftir því að upplýst yrði um hvaða agareglum slíkir pésar hefðu lotið í framhaldinu. Þegar lögregla á þessu svæði landsins, sem leggur nótt við dag um þessar mundir, lýsir ástandinu með þessum hætti, er að minnsta kosti sérkennilegt eða siðlaust að fv. lögreglustjórinn, sem stýrir nú þessari óprúttnu stofnun, skuli ekki, af öllum mönnum, bregðast við. Þetta dæmi og önnur hafa yfirvöld útvarpsins ekki rætt opinberlega, þótt umræðan fari ekki fram hjá neinum nema þeim.

Önnur öld og varasamari

Á tölvuöld og tækninnar myndi maður ætla að samskipti fólks yrðu önnur og meiri en áður var. Enda er það svo, en með öðrum blæ. En hitt er annað að margvíslegur fróðleikur sem fannst áður í einka- og trúnaðarbréfum og var ekki öðrum ætlaður en sendandanum og viðtakanda er fágætari nú en áður var. Og þó var allt flóknara og þunglamalegra hér áður fyrr. Vikur eða mánuði tók að koma bréfum á milli landshluta, svo ekki sé sagt á milli landa, enda ekki mikil umsvif þar. Þau sem eru orðin bærilega gömul núna geta ornað sér við minningar um fyrstu persónulegu kveðjurnar, sem margir hafa haldið saman enn í dag, en það voru fermingarskeytin. Þau eru ekki lengur send. Þar voru svo sem ekki nein trúnaðarmál á ferðinni, en staðfesting ættingja og vina, í kjölfar fermingar, á að viðtakandinn væri bersýnilega kominn í fullorðinna manna tölu. En persónulegu bréfin voru stundum og oftar en ekki tilfinningalegt efni og þrungið trúnaði og iðulega var mikið fyrir því haft að koma slíkum dýrmætum á áfangastað. Hannes ömmubróðir bréfritara á Núpstað var einn af þessum harðsnúnu póstum, sem sundreið árnar og hljóp yfir jökulinn á gosi, annaðhvort til að koma bréfum og pappírum áleiðis til viðtakenda, hvað sem á gekk, eða til þess að koma sjálfum sér heim á ný, svo að hans fólk eða annarra pósta yrði ekki of hrætt um sína. Nú treysta menn ekki tölvupóstunum meira en svo. Ef viðtakandinn er ekki traustur má fjölfalda slíkan póst á augabragði og koma honum til ókunnugra. Bréfin, sem send voru forðum hér innanlands, sögðu ekki endilega öll mikla sögu og þau voru tiltölulega fá svo bréfritari vandaði sig við að færa þau í letur. En sum þeirra geymdu sögu sem ekki varð sögð þá stundina og sum kannski aldrei. Sumir bréfritarar áttu trúnaðarvin og hugsuðu upphátt með honum eða henni, kannski bréfritara sjálfum til meira gagns en viðtakandanum. Ekki eru öll slík bréf orðin mjög gömul, en engu að síður eru þau um margt fróðleg og persónulegir dýrgripir.

Dagbækurnar eru færri

Ýmsir stjórnmálamenn skrifuðu dagbækur reglulega, en hjá öðrum og í fyrri tíð komu bréfin í stað þeirra. Dagbækurnar hafa sumar merki þess að vera skrifaðar og hugsaðar sem varnarrit um feril þeirra og draga dám af því, sem getur dregið úr gildi þeirra. Allmargar ævisögur, sem komið hafa út af hálfu þeirra sem í forystu voru á sinni tíð, gjalda þess á hinn bóginn að ekki var haldin dagbók. Eins hafa verið gefnar út bækur um látna menn, þar sem félagar þeirra eða samherjar, sem nærri þeim stóðu, eru útgefendur og þeim vinsamlegir og ráða sér einatt skrifara til að setja saman sögu, stundum í nokkrum hetjusagnastíl um viðkomandi. Hætt er við að slíkar bækur, þótt læsilegar geti verið, beri þessa merkis og dragi það úr trúverðugleika.

Algengt er í Bandaríkjunum að ævisögur forsetanna þar séu sagðar skrifaðar af söguhetjunni, en bera þess þó merki að drýgstu kaflar slíkra bóka skrifi aðrir, gegn sanngjarnri greiðslu, þótt þess sé ekki getið. Það getur verið læsilegt efni sem sýnir upplýsandi heildarmynd í endursögn dugnaðarforkanna, sem styðjast við fréttaskrif frá liðnum tíma og bæta þá iðulega litlu við. En slíkar bækur gera einnig gagn, því að margt, jafnvel frá nýliðnum tíma, er flestum, í önnum dagsins og áreiti, að mestu horfið.

Matthías Johannessen ritstjóri hafði aðgang að merkum og upplýsandi bréfum þegar hann skrifaði ævisögu Ólafs Thors, og hefur munað um þau, auk þess að mörg þeirra eru gáskafull og skemmtileg. Þeir, sem eru að hugsa til komandi forsetakosninga, geta einnig í þeirri bók heyrt um margvísleg samskipti ríkisstjóra og forseta, þeirra Sveins Björnssonar og Ásgeirs Ásgeirssonar, sem Ólafur var missáttur við. En augljóst er af þeim fróðleik að afskipti þeirra voru meiri, en síðar varð, ef undanskilin er erfið glíma Kristjáns Eldjárns, sem leiddi af óvenjulegu einspili Gunnars Thoroddsens fyrir og eftir áramótin 1979-1980 sem varð Sjálfstæðisflokknum snúin.

Úr bréfum Ólafs

Hér skal hins vegar horft áratugi aftur og vitnað í bréf Ólafs Thors til dóttur sinnar 21. desember 1949. Ólafur segir, að sér hafi ekki komið til hugar „að ég lenti í stjórnarmyndun“, en þó hefði honum boðið það í grun áður – og hefði jafnvel spáð því. En ekki hafi verið hjá því komist að mynda stjórn sjálfstæðismanna „úr því enginn möguleiki var til meirihlutastjórnar. Ef við hefðum neitað, stóð Framsókn tilbúin. Um okkur hefði þá verið sagt að við þyrðum ekki.“ Síðar í bréfinu segir Ólafur Thors, að hann hafi svarað brigslum Tíma-manna með auðmjúkri framkomu við uppeldisfeður þeirra. „Mér er daglega storkað þannig, að flestum yrði flökurt af. Ég reyni að standa á hærri sjónarhól (þú heldur víst að ég sé orðinn heilagur eða vitskertur), og tala við þessa menn eins og bræður og vini. Marga langar að koma sæmilega fram, úr því að þeir eiga þess kost, með því að vísa mér út fyrir. Ég veit að þeir gætu ekki unnt mér þess sóma að standa í forystu fyrir þarfaverkum, sem þeir sjálfir veittu lið. Ég ætla mér þó þetta hlutverk að því leyti, að ég muni reyna að koma því til leiðar, sem ég helzt til farsældar tel.“