Elín Lilja og Ásta Sól segja sögu tveggja blindra kvenna í heimildarmynd sinni Með opin augun.
Elín Lilja og Ásta Sól segja sögu tveggja blindra kvenna í heimildarmynd sinni Með opin augun. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég hef oft verið spurð hvernig sé að eiga blinda móður. Það er erfitt að lýsa því en auðvitað var margt öðruvísi.

Fyrir tuttugu og tveimur árum fékk Elín Lilja Jónasdóttir þá hugmynd að búa til heimildarmynd um líf tveggja blindra kvenna. Hún myndaði þær við dagleg störf og kynntist þeirra heimi en heimildarmyndin var síðan sett á salt. Tuttugu árum síðar hitti Elín Lilja í sundi kvikmyndagerðarkonuna Ástu Sól Kristjánsdóttur, dóttur annarrar konunnar, og tóku þær tal saman. Úr varð að bæta við nýju myndefni og klára loks myndina Með opin augun.

Þetta eru magnaðar konur

Elín Lilja starfar sem ritstjóri námsefnis hjá Menntamálastofnun, en hún er kennari með meistaragráðu í blaða- og fréttamennsku og lauk kvöldnámi hjá Kvikmyndaskóla Íslands fyrir um tveimur áratugum.

„Ég fékk viðurkenningu fyrir besta lokaverkefnið sem var heimildarmyndin Leiðarlok sem var um hringrás lífsins. Í kjölfarið fékk ég lánaða kvikmyndatökuvél hjá skólanum og sem kennari átti ég gott sumarfrí það árið og ákvað að nýta það í að taka upp heimildarmynd,“ segir Elín Lilja og segist hafa ákveðið að fylgja eftir tveimur blindum konum, Brynju Arthúrsdóttur og Ásrúnu Hauksdóttur, móður Ástu Sólar.

„Þetta eru magnaðar konur! Ásrún lést því miður í hitteðfyrra þegar við vorum í tökum,“ segir Elín Lilja og segir tilgang myndarinnar meðal annars vera að veita innsýn inn í heim blindra, fá áhorfendur til að veita skynfærum sínum meiri athygli, meta þau og njóta þess sem þau hafa upp á að bjóða.

„Ég vildi leggja áherslu á hversdagslífið og hafði áhuga á að vita hvort missir eins skynfæris hefði áhrif á hin,“ segir Elín Lilja.

„Ásrún starfaði sem nuddari og ég fékk að fylgjast með henni nudda viðskiptavin og það er rauði þráðurinn í hennar sögu,“ segir hún og segist sjálf hafa verið á tökuvél en annar tökumaður var með svo hægt væri að taka bæði víð og þröng skot.

„Ég vildi nálgast þetta á myndrænan hátt, en ég fylgdi Ásrúnu líka eftir fara í sund, ganga úti með hundana og eins í hennar daglegu athöfnum. Það var sérstakt að hún spáði mikið í liti og samsetningu lita.“

Elst upp við að taka tillit

Brynja, sem var aðstoðarmaður félagsráðgjafa á Reykjalundi og síðar starfsmaður Blindrafélagsins, er mikill ástríðukokkur og ferðagarpur.

„Við fylgdumst með henni undirbúa matarboð. Hún er lífleg og jákvæð kona og hefur unun af því að ferðast innanlands og utan og er virk í gönguklúbbi og bókaklúbbi,“ segir Elín Lilja.

„Það var forvitnilegt að fylgjast með henni elda og hún er mjög góður kokkur,“ segir Elín, en báðar konurnar misstu sjónina á þrítugsaldri af völdum sjúkdóma.

„Ásrún var hjúkrunarfræðingur en dreif sig í nuddnám þegar hún vissi að hún væri að verða blind,“ segir hún og í þeim töluðu orðum mætir Ásta Sól í viðtalið til okkar og fær orðið.

„Mamma missir sjónina smátt og smátt eftir tvítugt og þegar ég fæðist er hún orðin verulega sjónskert. Ég elst því upp hjá henni sjónskertri og svo alveg blindri. Ég hef oft verið spurð hvernig sé að eiga blinda móður. Það er erfitt að lýsa því en auðvitað var margt öðruvísi,“ segir Ásta Sól.

„Maður elst upp við að taka meira tillit; hlutirnir þurfa alltaf að vera á sínum stað. Maður gat ekkert skilið skóna sína eftir á miðju gólfi eða sett diskana á annan stað en venjulega,“ segir Ásta Sól.

„Mamma gerði margt sjálf og var mjög sjálfstæð; þreif húsið og málaði meira að segja grindverkið. En ég eða vinkona hennar fór með henni í búðir og í sund. Það er erfitt fyrir blinda að gera vissa hluti án aðstoðar,“ segir Ásta og bætir við:

„Og það var einmitt í sundi sem við Elín Lilja hittumst.“

Vill hún mjólk í kaffið?

Eftir samtalið í sundinu árið 2019 ákváðu þær að taka upp nýtt efni og klára loks myndina.

„Það var alltaf á dagskrá að klára hana en svo tók lífið yfir. Við Ásta Sól þekktumst ekki en ég vissi af henni og kom að máli við hana í búningsklefanum,“ segir Elín Lilja og úr varð að þær tóku höndum saman, en Ásta Sól hefur áður gert fjórar heimildarmyndir og eina stuttmynd og hafði því góða reynslu.

„Við vildum taka upp nýtt efni og ég tók myndir af mömmu með strákunum mínum, barnabörnum hennar. Þegar ég var búin að taka upp mikið efni greinist mamma með ólæknandi krabbamein og það var þá mjög langt gengið. Ég kláraði að taka upp það sem ég gat og við tóku erfið veikindi,“ segir Ásta Sól en móðir hennar lést svo í október 2022.

„Í fyrra fór ég svo með Brynju til Portúgals þar sem hún var að fara í ferð númer 83 til útlanda. Þetta var rosalega skemmtileg ferð og ég var þakklát fyrir að fá að fara með. Þarna þekktu líka margir mömmu, sem var heilandi fyrir mig,“ segir Ásta Sól.

Ásta Sól segir að þótt það hafi vissulega verið erfitt fyrir móður hennar að missa sjónina hafi hún samt sem áður lifað góðu og sjálfstæðu lífi sem blind manneskja.

„Auðvitað eru margar hindranir; bæði í kerfinu og í umhverfinu, og margir hafa ekki þekkingu á hvernig á að koma fram við blinda,“ segir Ásta Sól og Elín Lilja bætir við að stundum tali fólk fram hjá blindum.

„Það segir kannski „vill hún mjólk í kaffið?““ segir Elín Lilja og Ásta Sól kannast við það.

„Já, einmitt. Mamma sagði þá oft: „Fyrirgefðu, ég er hérna!“

Fékk að vera fluga á vegg

Heimildarmyndin er nú í klippingu og vonast Elín Lilja og Ásta Sól eftir því að geta frumsýnt hana í Bíó Paradís með vorinu en síðar verður hún sýnd á RÚV. Enn eru þær að reyna að afla fjár til að klára myndina og hafa fengið styrk hjá Blindrafélaginu en auk þess eru þær að safna á Karolina Fund þar sem þær hafa náð 40% af upphæðinni. Eins eru þær að sækja um fleiri styrki.

„Við ætlum að klára þetta! Í myndinni er farið yfir tuttugu ára tímabil þessara kvenna sem láta ekkert stöðva sig. Það er aðdáunarvert og það var gaman að fylgja þeim eftir og fá að vera eins og fluga á vegg,“ segir Elín Lilja.

„Myndin heitir Með opin augun vegna þess að það var krakki sem mætti Ásrúnu með stafinn í miðbænum og sagði: „Getur verið að þú sért blind? En þú ert með opin augun!““ segir Elín Lilja.

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir