Byggðalína Ný byggðalína mun stórbæta orkuflutningskerfið.
Byggðalína Ný byggðalína mun stórbæta orkuflutningskerfið. — Morgunblaðið/ÞÖK
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is Allar áformaðar framkvæmdir við fyrsta hluta nýrrar byggðalínu eru komnar á samþykkta framkvæmdaáætlun Landsnets. Sú er niðurstaðan eftir að Orkustofnun samþykkti kerfisáætlun fyrirtækisins fyrir tímabilið 2023 til 2032.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Allar áformaðar framkvæmdir við fyrsta hluta nýrrar byggðalínu eru komnar á samþykkta framkvæmdaáætlun Landsnets. Sú er niðurstaðan eftir að Orkustofnun samþykkti kerfisáætlun fyrirtækisins fyrir tímabilið 2023 til 2032.

Af því leiðir að í lok tímabilsins verður komin á ný samfelld 220 kílóvolta tenging frá Hvalfirði, norður um land og inn á raforkukerfið á Austurlandi í gegnum tengivirki á Hryggstekk í Skriðdal. Með því verður hægt að auka raforkuflutning á milli landshluta og hámarka þannig nýtingu uppistöðulóna á landinu öllu í misjöfnum vatnsárum og þar með bæta nýtingu þeirra virkjana sem þegar eru í rekstri. Mun aukningin nema a.m.k. 300 gígavattstundum á ári og beinn þjóðhagslegur ávinningur af aukinni orkunýtingu er áætlaður meiri en 5 milljarðar króna á ári. Framkvæmdirnar við endurbætta byggðalínu munu því borga sig upp á fáeinum árum, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsneti.

Styður við orkuskipti

Þessi áform eru einnig til þess fallin að styðja við orkuskipti í landinu og sem dæmi um ávinning af þessu verkefni fá allar fiskimjölsverksmiðjur á Austurlandi aukinn aðgang að orku þegar tengingarnar verða komnar í gagnið og aflskerðingar til þeirra munu heyra sögunni til, segir í tilkynningu Landsnets.

Svo sem kunnugt er mega fiskimjölsverksmiðjur nú þola skerðingar á raforku og þurfa þ.a.l. að keyra bræðslurnar á olíu sem þurrkar út ávinning af tilkomu rafmagnsbíla, eins og fram hefur komið. Þær fiskimjölsverksmiðjur á Austurlandi sem hafa orðið fyrir áhrifum af skerðingum Landsvirkjunar í vetur eru Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði, Eskja á Eskifirði, Síldarvinnslan í Neskaupstað, Skinney-Þinganes í Hornafirði og fiskimjölsverksmiðja Brims í Vopnafirði. Skortur á raforku til þessara fyrirtækja hefur því valdið öfugum orkuskiptum, ef þannig má að orði komast, en með bættum orkuflutningi næst að vinda ofan af þeim.

Ný byggðalína mun einnig hafa í för með sér að 132 kílóvolta kerfið á Norðurlandi fær nýtt hlutverk sem svæðisbundið flutningskerfi og mun það skapa tækifæri til orkuskipta í landshlutanum sem og auka möguleika í atvinnulífi. Ýmis dæmi eru um að fyrirtæki hafi þurft að hverfa frá áformum um atvinnuuppbyggingu í landshlutanum vegna þess að raforka til starfseminnar var ekki fyrir hendi.

Tveir kostir tengdir

Í framkvæmdaáætlun Landsnets er gerð grein fyrir tveimur nýjum framkvæmdum sem lúta að tengingu virkjunarkosta. Annars vegar er um að ræða tengingu Búrfellslundar sem verður fyrsti vindorkugarðurinn til að tengjast flutningsnetinu. Hins vegar verður áformuð Hvammsvirkjun í Þjórsá tengd inn á kerfið, ásamt því að upp verður komið nýjum afhendingarstað sem fæða mun raforkukerfi Suðurlands og auka möguleika á raforkunýtingu á svæðinu.

Flutningskerfi raforku

Framkvæmdaáætlun Landsnets samþykkt.

Raforkuflutningur á milli landshluta mun aukast.

Hámarka nýtingu uppistöðulóna.

Fiskimjölsverksmiðjur á Austurlandi munu ekki þurfa að þola skerðingar.

Nýtt hlutverk byggðalínu á Norðurlandi.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson