[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kennari: Jæja, krakkar mínir. Í dag má hvert ykkar benda á eitt atriði sem snertir móðurmálið. Ég byrja: Styrkjum málkenndina með því að lesa fyrir börnin okkar á hverju kvöldi. Lesum framhaldssögu (upphátt) í skólanum í hverjum nestistíma

Tungutak

Baldur Hafstað

hafstad.baldur@gmail.com

Kennari: Jæja, krakkar mínir. Í dag má hvert ykkar benda á eitt atriði sem snertir móðurmálið. Ég byrja: Styrkjum málkenndina með því að lesa fyrir börnin okkar á hverju kvöldi. Lesum framhaldssögu (upphátt) í skólanum í hverjum nestistíma.

N1: Skrifum hálfa blaðsíðu á dag beint upp úr bók eða tímariti.

N2: Skrifum dagbók á hverju kvöldi – með penna!

N3 (æfir handbolta): Þjálfarar sem kallaðir eru í viðtöl tali íslensku. Þeir tapa leikjum ef þeir spila „beisikk handbolta“ eða segja „nú er að do or die“).

N4: Höldum dauðahaldi í viðtengingarháttinn („Leikkonan sagði að hún hefur [=hefði] tekið eftir því“/ „Ég get ímyndað mér að sumum þykir [=þyki] þetta flókið“).

N5 (lærir á píanó): Æfum okkur í beygingum orða, rétt eins og tónlistarnemar æfa skalann: kýr – kú – kú – kýr; næturnar um næturnar; fæturnir um fæturna; vefa – óf – ófum – ofið, Njörður – Njörð – Nirði – Njarðar.

N6: Sýnum innflytjendum þá virðingu að ávarpa þá á íslensku; hvetjum þá til að tala íslensku.

N7: Nokkrir fréttamenn RÚV voru í hitteðfyrra á góðri leið með að valda glundroða í málkerfinu eftir að hafa verið leiddir í gildru af litlum og háværum þrýstihópum sem vildu afkynja málið (og ímynduðu sér að það væri í þágu jafnréttis). Þeir sögðu: „Mörg hafa mótmælt eins og flest vita.“ Síðan hrökk kannski máltilfinningin aftur í gírinn að hluta og úr varð einn kynusli: flest [hk] mættu og fáir [kk] skrópuðu. Flestir eru þessir fréttamenn nú aftur komnir „heim“ og við fögnum þeim innilega. Þeir örfáu sem eftir eru virðast ætla sér að tala annað mál en fólkið í þessu landi. Allir okkar virtustu málfræðingar hafa þó varað við þessari „málvönun“ eða „afkynjun“ (Þórarinn Eldjárn) og ringulreiðinni sem hún mun valda.

N8: Húrra fyrir auglýsingadeild RÚV sem forðaði okkur frá „öll velkomin“-málleysunni og breytti í „verið (öll) velkomin“. Þá fyrst varð vart við viðsnúninginn frá afkynjun tungunnar á öðrum deildum RÚV.

N9: Mamma kallar það „hernað RÚV gegn landsbyggðinni“ þegar fréttamenn RÚV tala nýlensku við fólk úti á landi sem í sakleysi sínu talar það mál sem það lærði í bernsku. Í Bændablaðinu og öðrum landsbyggðarblöðum er engin málvönun merkjanleg.

N10: Nú í vikunni völdu lesendur Feykis á Sauðárkróki Karólínu í Hvammshlíð mann ársins á Norðurlandi vestra. Lesendur Húnahornsins völdu Karólínu einnig mann ársins í Austur-Húnavatnssýslu.

N11: Auðvitað hlæja allir að því „manneskju-dekri“ sem RÚV stundar. En Bogi Ágústsson neitaði að beygja sig; hann þorði að segja: „maður ársins“ um Fannar bæjarstjóra. Húrra fyrir þeim báðum!

N12: Hjá RÚV er eins og fegurð tungunnar sé aukaatriði; málkenndin er látin lönd og leið. Enn er þar rætt um blindar manneskjur; og þreyttum manneskjum er bannað að sofa. Blindir fá sýn, segir fólkið í landinu. Og skáldið á Akureyri sagði: „Lofið þreyttum að sofa.“