Peysuklædd Jóhanna Malen er jarðeðlisfræðingur og starfar á náttúruvárvakt Veðurstofu Íslands. Þar er fylgst með kviku landsins, en þegar rólegar stundir koma má grípa í handavinnu, en hafa um leið auga á skjánum.
Peysuklædd Jóhanna Malen er jarðeðlisfræðingur og starfar á náttúruvárvakt Veðurstofu Íslands. Þar er fylgst með kviku landsins, en þegar rólegar stundir koma má grípa í handavinnu, en hafa um leið auga á skjánum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég er með nokkur ný verkefni á prjónunum sem munu vonandi koma út á næstunni. Af nægu er að taka. Náttúran er minn helsti innblástur þegar ég prjóna og bý til ný mynstur,“ segir Jóhanna Malen Skúladóttir

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Ég er með nokkur ný verkefni á prjónunum sem munu vonandi koma út á næstunni. Af nægu er að taka. Náttúran er minn helsti innblástur þegar ég prjóna og bý til ný mynstur,“ segir Jóhanna Malen Skúladóttir. Prjónaverslunin Icewear Garn í Fákafeni í Reykjavík kynnti hana til leiks á dögunum sem hönnuð mánaðarins í febrúar.

Bauðst að vera hönnuður mánaðarins

Fyrir þau sem prjóna – sem einkum eru konur – er alltaf mikil eftirspurn eftir fallegum og áhugaverðum uppskriftum að flíkum. Þar skipta snið, litir og síðast en ekki síst mynstur miklu máli, svo vel takist til. Einnig þarf að velja band af kostgæfni. Þar kemur íslenski lopinn sterkur inn en nýtt nýsjálenskt garn frá Icewear Garn sem líkist lopa en er þó ögn mýkra kemur sterkt inn hjá viðmælanda okkar hér.

„Ég var aðeins búin að fylgjast með Icewear Garn og prufað eitthvað af garninu þar,“ segir Jóhanna Malen.

„Þau sem standa að versluninni höfðu beint samband við mig í september á síðasta ári og buðu mér að vera hönnuður mánaðarins í febrúar. Í kjölfarið prjónaði ég fimm af mínum peysum úr garni frá þeim og er nú hægt að skoða þær og kaupa uppskriftirnar og garn fyrir þær í verslun Icewear Garn. Þær peysur sem urðu fyrir valinu eru Hagakvísl, Kaldakvísl, Móalda, Rauðgreni og Honeybee. Þær eru fjölbreyttar en hafa flestar verið gerðar með innblæstri frá íslensku lopapeysunni og náttúru Íslands, eins og nöfnin gefa til kynna.“

Stærðfræðikunnáttan kemur sér vel við hönnunina

Jóhanna Malen sem er frá Hallormsstað á Fljótsdalshéraði lærði að prjóna í grunnskóla en lengi þar á eftir sinnti hún ekkert um slíka handavinnu. Í dauðum stundum í covid-faraldrinum tók hún svo prjónana aftur fram og heillaðist. Fann fjölda uppskrifta en vildi líka reyna eitthvað alveg nýtt. Fór þá að hanna sínar eigin uppskriftir og gaf út þá fyrstu, Honeybee-vestið, í október 2022. Hún hefur haldið utan um prjónaskapinn á Instagram-síðunni sinni @knitagainstthemachine.

„Ég hef mjög gaman af því púsluspili sem gerð nýs mynsturs er. Þar þarf að reikna út allar stærðir fyrir sig og láta mynstrið ganga upp í þær svo útkoman passi og sé falleg. Stærðfræðikunnáttan kemur sér vel þar. Svo er alltaf gaman þegar púslinu er lokið og allt gengur upp. Ég pæli alltaf mikið í flæði mynstursins, og að samskeyti séu sem fallegust. Litaval er líka mikilvægt og ég legg alltaf mikið upp úr því. Innblásturinn getur verið ýmiss konar og peysurnar mínar eru fjölbreyttar eftir því. Í heildina hef ég nú gefið út níu uppskriftir, þá sex peysur, tvö vesti og eina lambhúshettu, og tvær í viðbót eru í vinnslu.“

Prjóna og hugleiði eftir langan vinnudag

Jóhanna Malen lauk BS-gráðu í jarðeðlisfræði sumarið 2021 og hefur síðan verið í meistaranámi í sömu grein við Háskóla Íslands. Vinnur nú að lokaverkefni, en segir að sér sé nauðsynlegt að fá tíma á kvöldin til að slaka á, prjóna og hlusta á eitthvert skemmtilegt hlaðvarp.

„Prjónaskapurinn er frábær leið til að hugleiða og trappa sig niður eftir langan dag. Stundum eru mynstur lengi að veltast um í hausnum á mér áður en ég set þau niður á blað, en stundum koma þau bara fram jafnóðum. Það er alltaf mjög gaman að sjá nýtt mynstur fæðast í höndunum á manni, eitthvað alveg sjálfsprottið,“ segir Jóhanna Malen sem nú í febrúar fékk starf sem náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Lopaföt á vettvangi

„Náttúruvársérfræðingar sinna vöktun á veðri, jarðskjálftum, eldstöðvum, vatnafari og flóðum,“ segir Jóhanna Malen þegar hún lýsir starfi sínu. „Á vaktinni er nóg að gera eins og hefur ekki farið fram hjá neinum. Við erum með Reykjanesskagann í vöktun öllum stundum. Ég fékk eldgos á fimmta degi í starfi sem varð lærdómsríkt. Margir handóðir prjónarar vita að á Veðurstofunni starfar aragrúi af prjónurum, og lopapeysur eru þar vinsæll fatnaður meðal þeirra sem þurfa á vettvang viðsjárverðra atburða eða í rannsóknir. Þar ber jarðhræringarnar á Reykjanesskaga hátt og það passar auðvitað vel inn í tíðarandann núna að gera eldfjallapeysu. Slíka mun ég eflaust gera fyrr eða síðar.“

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson