Leir Myndverk sköpuð með eigin höndum.
Leir Myndverk sköpuð með eigin höndum.
Hendi næst nefnist sýning sem opnuð verður í Ásmundarsafni í dag, laugardag, kl. 15. Þar mætast verk Ásmundar Sveinssonar (1893-1982) og tíu samtímalistamanna. Listamennirnir sem auk Ásmundar eiga verk á sýningunni eru Anna Júlía Friðbjörnsdóttir,…

Hendi næst nefnist sýning sem opnuð verður í Ásmundarsafni í dag, laugardag, kl. 15. Þar mætast verk Ásmundar Sveinssonar (1893-1982) og tíu samtímalistamanna. Listamennirnir sem auk Ásmundar eiga verk á sýningunni eru Anna Júlía Friðbjörnsdóttir, Arna Óttarsdóttir, Árni Jónsson, Carissa Baktay, Elísabet Brynhildardóttir, Hildur Bjarnadóttir, Klemens Hannigan, Ragnheiður Gestsdóttir, Sigurrós G. Björnsdóttir og Sindri Leifsson. Sýningarstjóri er Becky Forsythe.

„Listamennirnir eiga það sammerkt að skapa myndverk sín með eigin höndum og nýta rótgrónar handverkshefðir við listsköpun sína. Sýningin endurspeglar vaxandi áhuga samtímalistamanna sem og áhorfenda á handverki en jafnframt verður horft til baka til þess að gera grein fyrir því hvernig arfleifð Ásmundar endurómar í framúrstefnulegri tjáningu samtímans. Á 20. öld urðu mörkin milli listar og handverks óljós, þar sem listamenn fóru að gera tilraunir með handverksaðferðir í listsköpun sinni. Í dag nota samtímalistamenn handverk óhikað. Þeir leita nýstárlegra og óvæntra leiða í handverksaðferðum og gera hina aldagömlu umræðu um aðskilnað handverks og listar úrelta,“ segir í tilkynningu.