Vísindi og samfélag
Hermundur Sigmundsson
hermundur@hi.is
Svava Hjaltalín
Alþjóðleg viðmið segja um það bil 7% einstaklinga greinast með lesblindu (dyslexíu). Hér á landi eru þessar tölur oft sagðar nálægt 20% eða 13% hærri. Þessi munur getur tæpast verið á rökum reistur og skýrist án efa af því að sérhæfða þjálfun vantar. Þá er átt við þá þjálfun sem á að hafa farið fram á heimilum eða í skólunum. Skilaboðin verða að vera skýr, allir geta bætt sig. PISA 2022-niðurstöður sýna okkur að 40% 15 ára unglinga (ca 1.400 unglingar) ná ekki grunnfærni í lesskilningi, eru undir þrepi 2. Þarna er því um 33% einstaklinga að ræða sem hafa ekki hlotið viðunandi sérhæfða þjálfun. 13% miðað við lesblinduhugtakið og 33% miðað við þau sem ná ekki grunnfærni, þrepi 2, í PISA.
Þetta eru gríðarlega háar tölur. Það er einfaldlega svo að þeir sem ekki fá stuðning heima verða að fá öflugan og markvissan stuðning í skólanum. Kennarar gegna lykilhlutverki og tryggja verður að stuðningur sé vís og þeim gert kleift að sinna hlutverki sínu. Þegar niðurstaðan er þessi má halda fram að skólarnir sinni ekki því mikilvæga hlutverki sínu að stuðla að jöfnuði í þjóðfélaginu. Barn sem stendur svo höllum fæti að geta ekki lesið sér til gagns eftir tíu ár í grunnskóla hefur ekki sömu möguleika og aðrir. Lestrarfærni hefur áhrif á möguleika og lífsgæði.
Hvað hafa vísindin fram að færa?
Heikki Lyytinen, hinn framúrskarandi finnski prófessor, hefur sagt að allir nái að brjóta lestrarkóðann (ná að lesa orð, skilja að Í og S er ÍS eða að H-Ú-S er HÚS) meðal annars með smáforritinu Grapho game, sem er notað víða um heim og er nú verið að þýða yfir á íslensku. Það finnast yfir 20 vísindagreinar um íhlutun þar sem forritið hefur verið prófað með góðum árangri.
John Stein prófessor í Oxford er einn af þeim stóru og samkvæmt honum glíma 2-4% einstaklinga við lífeðlisfræðilegan vanda sem tengist lestri. Þá er átt við vanda sem tengist sjónskyni og stórfrumulaginu sem flytur upplýsingar hratt frá sjónhimnu til sjónsvæðis heilans. Þeir einstaklingar sem ekki glíma við þennan vanda eiga að geta náð læsi með markvissri þjálfun. Rannsóknir Steins og rannsóknarhóps undirritaðs prófessors í Þrándheimi sýna að þeir einstaklingar sem eiga í stórfrumulagsvanda rugla til dæmis saman líkum bókstöfum eins og b/d; a/e, l/í og m/n eða tölustöfunum 9/6, 2/3 og 3/8. Oft upplifa þessir einstaklingar að bókstafirnir og tölustafirnir renni saman. Ofangreint benti ameríski læknirinn Samuel Orton á árið 1925 þegar hann talaði um „orðblindu“. Í norska tækni- og vísindaháskólanum (NTNU.no) hefur undirritaður prófessor þróað smáforrit (Magno app) til að finna þá sem hafa vanda tengdan stórfrumulaginu. Notkun þessa forrits hefur komið vel út og styður kenningu Steins. Mismunur milli þeirra sem eiga við stórfrumulagsvanda að stríða og samanburðarhóps í lestrarprófi er skýr.
Prófessorarnir Elena L. Grigorenko og Julian G. Elliott hafa velt fyrir sér hvort rétt sé að nota lesblindu/dyslexíuhugtakið svona mikið. Nær væri að nota hugtakið lestrarerfiðleika og styðjast þá við útgangspunkt í kenningum taugavísinda. Greina á hvort erfiðleikar tengjast orðaforða, kunnáttu á bókstöfum og hljóðum þeirra, því að lesa texta eða að skrifa orð/texta. Þegar greining liggi fyrir þurfi að þjálfa þá þætti sem viðkomandi á í erfiðleikum með. Einstaklingsmiðun í lestrarnámi verður að vera mikil svo hverju barni verði lyft.
Taugafræðilegar kenningar segja að öll færni- og þekkingarþróun þarfnist mikillar sérhæfðrar þjálfunar til að styrkja þau tauganet sem eru notuð. Til að þróa lestrarfærni þarf því mikla þjálfun til að geta náð umskráningu, eflt orðaforða og lesskilning og færni í skapandi skrifum. Þjálfun styrkir þau tauganet sem eru notuð. Að brjóta lestrarkóðann og geta umskráð hljóð í orð er einn af grunnþáttum læsis. Þá þarf að fylgja eftir að börn kunni alla bókstafina, bæði heiti og hljóð, það er ekkert sem getur heitið að formlegri bókstafakennslu sé lokið fyrr en hvert barn hefur náð hverju tákni og hljóði. Síðan tekur við þjálfun og meiri þjálfun sem byggist á lestri alls kyns texta, bóka, skrifum, ritun og framsögn. Þá koma árangursmælingar sterkar inn til að leiðbeina kennara að leggja línur við kennslu og þjálfun.
Að nota taugafræðilegar námskenningar þýðir sérhæfða þjálfun á því sem stöðumat sýnir að er ábótavant. Þær hjálpa okkar að vinna á þeim vanda sem barn glímir við. Forðumst ekki slíkar kenningar, þær segja okkur að allir geta bætt sig með markvissri þjálfun og eftirfylgni. Hér á landi má stokka spilin og breyta áherslum, við þurfum að ná betri árangri og við megum ekki bregðast börnunum okkar.
Hermundur er prófessor við Háskóla Íslands og Norska tækni- og vísindaháskólann og Svava er sérkennari, læsisfræðingur og verkefnastjóri rannsóknasetursins Menntunar og hugarfars við HÍ.