Gunnlaugur Axelsson Kjerúlf fæddist á Egilsstöðum 29. apríl 1969. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítans í Fossvogi 6. febrúar 2024 eftir skammvinn veikindi.

Foreldrar hans eru Guðrún Elísabet Gunnlaugsdóttir Kjerúlf, f. 1941, og Axel Haraldur Ólafsson, f. 1943, d. 1987. Gunnlaugur var yngstur fjögurra systkina, elstur er Rúnar Ólafur, f. 1965, næstur er Ægir, f. 1967, og þá Kolbrún, f. 1968.

Eftirlifandi eiginkona Gunnlaugs er Harpa Hlín Jónasdóttir, f. 23. október 1968, frá Hrafnabjörgum í Jökulsárhlíð. Þau eignuðust þrjár dætur. Elst er Védís Hrönn, f. 10. janúar 1991. Sambýlismaður hennar er Brynjar Ölversson, f. 1991, og eiga þau synina Vilmar Snæ og Garðar Stein. Næst er Steinunn Bjarkey, f. 5. maí 1996. Sambýlismaður hennar er Guðmundur Arnar Hjálmarsson, f. 1995, þau eiga soninn Jónas Erni. Yngst er Elísabet Arna, f. 29. nóvember 2002.

Gunnlaugur starfaði alla tíð við verslun og þjónustu þar sem hann hóf starfsferil sinn hjá Kaupfélagi Héraðsbúa ungur að aldri en síðasta rúma áratuginn starfaði hann sem verslunarstjóri Tölvulistans og Heimilistækja á Egilsstöðum.

Útför Gunnlaugs verður gerð frá Egilsstaðakirkju í dag, 17. febrúar 2024, kl. 14. Streymi má nálgast á heimasíðu Egilsstaðakirkju, stytt slóð:

https://www.mbl.is/go/u6hn7

Við hjá Heimilistækjum kveðjum í dag vinnufélaga og frábæran vin sem fallinn er frá allt of snemma. Gunnlaugur eða Gulli eins og hann var alltaf kallaður hóf störf hjá okkur í apríl 2010 og var verslunarstjóri í verslun okkar á Egilsstöðum. Gulli var einstaklega jarðbundin persóna, alltaf með bros á vör og einstaklega þjónustulundaður. Afar lunkinn að sjá jákvæðu hliðarnar á lífinu og breytti öllum vandamálum í tækifæri. Minnisstæð er ferð sem Gulli fór með okkur í fyrra til Elon í Svíþjóð, áttum við þar góðar stundir saman og upplifði maður sterkt hvaða einstöku persónu Gulli hafði að geyma, takk fyrir allt Gulli.

Við þökkum Gulla fyrir samfylgdina og sendum fjölskyldu og vinum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Fyrir hönd starfsmanna Heimilistækja,

Ólafur Már
Hreinsson.