Varnarsamstarf Selenskí og Scholz eftir undirritunina í Berlín í gær.
Varnarsamstarf Selenskí og Scholz eftir undirritunina í Berlín í gær. — AFP/John Macdougal
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti og Olaf Scholz Þýskalandskanslari undirrituðu í gær sérstakt tvíhliða varnarsamkomulag á milli Úkraínu og Þýskalands í Berlín. Scholz fagnaði samkomulaginu og sagði það vera „sögulegt skref“ í áttina að…

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti og Olaf Scholz Þýskalandskanslari undirrituðu í gær sérstakt tvíhliða varnarsamkomulag á milli Úkraínu og Þýskalands í Berlín. Scholz fagnaði samkomulaginu og sagði það vera „sögulegt skref“ í áttina að því að styðja við bakið á Úkraínumönnum gegn innrás Rússa.

Scholz tilkynnti um leið að Þjóðverjar myndu senda hernaðaraðstoð til Úkraínu sem næmi um 1,1 milljarði evra, eða sem nemur um 163,5 milljörðum íslenskra króna.

„Þetta samkomulag sýnir að Þýskaland mun hjálpa Úkraínu að verjast árásum Rússa,“ sagði Scholz og bætti við að stuðningur Þjóðverja myndi vara eins lengi og hann væri talinn nauðsynlegur.

Samkomulagið kveður einnig á um að Þjóðverjar muni aðstoða Úkraínu við að byggja upp nútímaher að stríði loknu, sem geti fælt Rússa frá frekari innrásum.

Selenskí hélt að undirritun lokinni til fundar við Emmanuel Macron Frakklandsforseta í París og undirritaði þar svipað samkomulag um kvöldið. Úkraína hafði áður gert tvíhliða varnarsamning við Bretland, og munu stjórnvöld í Kænugarði leita eftir stuðningi fleiri ríkja á komandi vikum og mánuðum.

Undirritunin kom sama dag og varað var við því að bærinn Avdívka í Donetsk-héraði væri við það að falla Rússum í skaut. Skortur á skotfærum fyrir stórskotalið er sagður hafa háð Úkraínumönnum í orrustunni um bæinn og hafa þeir þurft að láta undan harðri hríð Rússa.

Er meðal annars beðið eftir því að Bandaríkjaþing samþykki frumvarp um hernaðaraðstoð, þar sem Úkraínumönnum var ætlaður stuðningur upp á 60 milljarða bandaríkjadala.