Stórbruni varð á dekkjaverkstæði N1 í Fellsmúla á fimmtudagskvöld. Engan sakaði en mikið tjón varð.
Stórbruni varð á dekkjaverkstæði N1 í Fellsmúla á fimmtudagskvöld. Engan sakaði en mikið tjón varð. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Gosinu ofan við Grindavík var lýst lokið, engrar gosvirkni var lengur vart síðdegis á föstudag. Heitt vatn tók að streyma um nýja lögn til íbúa á Suðurnesjum, sem verið höfðu heitavatnslausir síðan hraun fór yfir stofnæð

10.2.-16.2.

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Gosinu ofan við Grindavík var lýst lokið, engrar gosvirkni var lengur vart síðdegis á föstudag.

Heitt vatn tók að streyma um nýja lögn til íbúa á Suðurnesjum, sem verið höfðu heitavatnslausir síðan hraun fór yfir stofnæð. Rafmagnsleysi gerði lífið ekki bærilegra suður með sjó heldur.

Ríkisstjórnin kynnti frumvarp um heimild ríkissjóðs til þess að kaupa íbúðarhúsnæði af einstaklingum í Grindavík á 95% brunabótamats og létti um leið íbúðalánum af húseigendum.

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, varði þær hömlur sem hann hefði lagt á blaðamenn í Grindavík og nágrenni. Hann sagði að þær mætti meðal annars rekja til þess þegar upp komst um tilraun fréttamanns Rúv. til húsbrots í Grindavík.

Breiðfylkingin sleit kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins (SA), að því er virðist vegna þess að SA féllst ekki á samningsákvæði um hvernig Seðlabankinn skyldi haga vaxtastefnu sinni. Sátt var hins vegar um launaliðinn.

Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri telur að fyrirætlanir um orkuskipti árið 2040 séu raunhæf, á landi a.m.k., en játaði að þau væru tæp.

Landsvirkjun gafst upp og heimilaði stórnotendum að endurselja forgangsraforku sína vegna þröngrar stöðu í raforkukerfinu, sem nú er enn þrengri en ella vegna hamfara á Reykjanesskaga. Heimildin gildir út apríl.

Samkomulag breiðfylkingarinnar og SA um launaliðinn – áður en upp úr slitnaði – kvað á um að laun undir 730.000 kr. á mánuði hækkuðu um 23.750 kr., en að önnur laun hækkuðu um 3,25%.

Velsældarvísitalan mun ugglaust hækka mikið hér á landi í ár, en nú er svo komið að bolludagurinn er orðinn að bolluviku. Af því tilefni skulu bollum landsins fluttar árnaðaróskir.

Gert er ráð fyrir að neyðarfrumvarp vegna orkuskorts komist úr þingnefnd í þessum mánuði.

Suðurnesjamenn brugðust hins vegar við kælingunni með ýmsu móti; fóru í síðar nærbuxur eða stigu dans sér til hita, en svo margir leituðu skjóls í sumarbústöðum að öll orlofshús fylltust.

Guðmundur Bjarki Þorgrímsson, sérfræðingur hjá Menntamálastofnun, vakti athygli á því að niðurstöður PISA væru jafnvel alvarlegri en fram hefði komið, íslenskir nemendur hefðu dregist mikið aftur úr, en á einstökum landsvæðum svo mjög að helminginn vantaði grunnhæfni.

Hjalti Einarsson, vélvirki og stofnandi VHE, dó 85 ára.

Þó hin nýja heitavatnslögn frá Svartsengi að Suðurnesjum sé aðeins til bráðabirgða verður hún varin fyrir frekara hraunrennsli með steypu. HS Orka hyggst bora eftir heitu vatni víðar, m.a. á Fitjum.

Þórdís Gylfadóttir fjármálaráðherra gerði fyrir hönd ríkisins kröfur um þjóðlendur sem falli ríkinu í skaut, þar á meðal hlutar Heimaeyjar og allar aðrar eyjur og sker við Vestmannaeyjar. Eyjaskeggjar brugðust ókvæða við og hugleiða tveggja ríkja lausn.

Stuðningsmaður Hamas við Austurvöll grýtti bíl þingmannsins Diljár Mistar Einarsdóttur með klaka og jós yfir hana fúkyrðum með ógnandi tilburðum, þar til lögregla skarst í leikinn.

Tvær erlendar einkaflugvélar rákust saman á flugi skammt suður af landinu, en voru þó flughæfar og lentu klakklaust á Keflavíkurflugvelli. Flugmennirnir höfðu að líkindum reynt að fljúga í samfylkingu og rannsakar lögregla atvikið.

Á þriðja hundrað athugasemda bárust skjótt við frumvarp um uppkaup ríkisins á íbúðarhúsnæði í Grindavík, mest á þá leið að kaupverðið ætti að vera 100% af brunabótamati en ekki 95% eins og mælt er fyrir um í frumvarpinu. Ríkisstjórnin segir það gert til að gæta jafnræðis við þá sem fá bætt altjón úr tryggingasjóði náttúruhamfara, en þeir bera 5% sjálfsábyrgð.

Fyrri hluti febrúar var sá kaldasti það sem af er öldinni. Janúar var einnig kaldur hér, en á meginlandi Evrópu var hann sá hlýjasti frá upphafi mælinga þó enginn hafi stiknað.

Karl Sigurbjörnsson biskup dó 77 ára gamall.

Fjárlaganefnd kallaði Vegagerðina á sinn fund vegna stökkbreytinga á fyrirhugaðri Fossvogsbrú og kostnaðaráætlun hennar. Minnt var á áskilnað um að upplýst yrði um frávik frá upphaflegri áætlun. Nefndarmaður sagði nauðsynlegt að „rétta kúrsinn“ í málinu.

Samtök atvinnulífsins áréttuðu að allir þyrftu að vera jafnir fyrir lögum, en samkvæmt frumvarpi um uppkaup íbúðarhúsnæðis í Grindavík nær það ekki til lögaðila.

Rætt var í borgarstjórn Reykjavíkur að koma til móts við þarfir Grindvíkinga á vergangi. Hins vegar klofnaði meirihlutinn er borgarfulltrúi Samfylkingarinnar vildi ekki vísa því til átakshóps í húsnæðismálum.

Breiðfylkingin og SA áttu í óformlegum viðræðum sín á milli, sem þýðir væntanlega að samningsaðilar hafi verið bindislausir og sleppt því að þérast.

Lögmaður furðast ásælni ríkisins í Vestmannaeyjar á þeirri forsendu að þar ræði um eigendalausar þjóðlendur. Ríkið hafi sérstaklega afsalað sér þeim til Vestmannaeyjabæjar með lögum árið 1960.

Lögregla á Írlandi rannsakar enn hvarf Jóns Þrastar Jónssonar í Dyflinni 2019, en írskir miðlar segja lögreglu telja að hann hafi verið ráðinn af dögum.

Komum erlendra skemmtiferðaskipa til landsins nú í sumar mun fækka vegna árásar Húta í Jemen á skip á Rauðahafi, sem hefur raskað siglingum víða um heim.

Kostnaðaráætlanir vegna samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins voru ekki í lagi, sagði Árni M. Mathiesen, stjórnarformaður Betri samgangna. Það sé ástæða endurskoðunar hans, sem sögð er væntanleg eftir 2-3 vikur. Gert er ráð fyrir enn meiri hækkunum en áður hefur verið gert ráð fyrir.

Loðnu varð vart í talsverðum mæli í Rósagarðinum, suðaustur af landinu.

Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokks hafa lagt fram frumvarp um að Ríkisútvarpið verði aftur gert að ríkisstofnun, en verði ekki opinbert hlutafélag (ohf.) eins og verið hefur frá því kortér í hrun.

Tvö tengd tilvik hettusóttar greindust á höfuðborgarsvæðinu.

Stórbruni varð á dekkjaverkstæði N1 við Fellsmúla, en á annað hundrað manns tóku þátt í slökkviaðgerðum. Mildi þykir hve vel gekk að hefta útbreiðslu eldsins, bæði innan hússins og í Hreyfilshúsið, sem er sambyggt.

Rekstur Landspítalans hefur snúist mjög til betri vegar, aðgerðum fjölgaði um 1.500 og hann var rekinn með nokkur hundruð milljóna afgangi, samkvæmt bráðabirgðauppgjöri.

Borgnesingar eru ekki ánægðir með fjármálaráðherra og óbyggðanefnd, sem vilja leggja Brákarey undir sig, þó þar sé fjöld húsa og veruleg starfsemi, en brú liggur þangað úr bænum.

Samkeppniseftirlitið kannar nú samning Landsvirkjunar við stórnotendur, sem vekur vonir um að það ætli loks að snúa sér að fyrirtækjum á vegum hins opinbera, sem það hefur alveg látið vera til þessa.

Fagnaðarlæti brutust út um land allt þegar boðað var að á næsta landsmóti UMFÍ yrði aftur keppt í pönnukökubakstri. Heimsminjaskrá UNESCO hlýtur að vera næst.

Minna var fagnað þegar Hafrannsóknastofnunin tilkynnti að loðnugangan í Rósagarðinum væri ekki nógu stór til þess að tilefni væri til að gefa út loðnukvóta eftir allt saman.