Við vinkonurnar settumst alveg fremst, sem var mjög hugrakkt af okkur því allir vita að uppistandarinn tekur fólkið á fremsta bekk og gerir stólpagrín að því.

Pistill

Ásdís Ásgeirsdóttir

asdis@mbl.is

Á hverju ári birtir mannanafnanefnd lista yfir nýjustu nöfn sem samþykkt hafa verið og á hverju ári skemmtir fólk sér við að lesa þau og jafnvel hneykslast. Jón og Sigurður, Guðrún og Sigríður þykja ekki lengur töff. Nú eiga börnin að heita frumlegum nöfnum eins og Dúfa Snót, Ljótur Ljósálfur, Kópur Kristall, Dufþakur Dreki, Náttmörður Neisti, Venus Vígdögg, Reginbaldur Rómeó og Strympa! Og eins furðuleg og okkur þykja þessi nöfn, þá venjast þau með tímanum þótt mögulega gæti einhver orðið fyrir stríðni.

Ég skal ekki segja.

Í Bandaríkjunum, og ef til vill víðar, má skíra börn sín nánast hvað sem er, nema kannski Fucking Shit eða eitthvað álíka. Það væri bara ansi vandræðalegt og ljótt af foreldrunum. Ekki má heldur kenna barnið við tákn, bókstaf eða tölustafi, þótt ég viti ekki betur en sonur Elons Musks heiti X Æ A-Xii. Hann hefur líklega fundið Æ-ið í íslenska stafrófinu. Ekki er hægt að tala um sérkennileg nöfn stjörnubarna án þess að minnast á Frank Zappa sem á þrjú börn, þau Moon Unit, Dweezil og Divu Muffin. Nicolas Cage er mikill Súpermanaðdáandi og lét skíra son sinn Kal-El, sem er fyrsta nafn stálmannsins. Og rappari nokkur nefndi barn sitt Sno FilmOn Dot Com Cozart. Kannski er bara gott eftir allt saman að vera með mannanafnanefnd?

Annars þarf maður ekkert að heita Dufþakur Dreki til þess að útlendingum finnist nafnið manns skrítið. Ásdís Ásgeirsdóttir vekur alveg jafn mikla lukku, enda hljómar þetta allt eins í eyrum útlendinga. Það sannreyndist þegar ég var síðast í stórborginni New York og fór einu sinni sem oftar á uppistand. Við vinkonurnar settumst alveg fremst, sem var mjög hugrakkt af okkur því allir vita að uppistandarinn tekur fólkið á fremsta bekk og gerir stólpagrín að því. Það brást ekki í þetta sinn frekar en fyrri daginn. Uppistandarinn spurði hvaðan ég væri og ég svaraði því. Næst spurði hann mig að nafni. Ég hefði vissulega getað haft þetta auðvelt og svarað bara Dísa, en vissi að það væri ekkert sérlega fyndið. Hátt og snjallt, í míkrófóninn sem hann stakk í andlitið á mér, svaraði ég: Ásdís Ásgeirsdóttir og lagði áherslu á bæði s-in og r-in.

Svipurinn á manninum var óborganlegur og fólkið í salnum bókstaflega grét úr hlátri. Ha, sagði hann, geturðu endurtekið þetta? Já, lítið mál … og ég endurtók nafn mitt. Aftur var líkt og ég hefði sagt besta brandara í heimi. Fólk tók bakföll af hlátri og ég með. Alltaf gott að geta skemmt fólki, jafnvel þótt það væri á minn kostnað!