Eigi hafði hann nokkurar sakar til móts við mig en hitt var satt að eg mátti eigi við bindast er hann stóð svo vel til höggsins,“ svarar Þorgeir Hávarsson í Fóstbræðra sögu, þegar hann er spurður hvers vegna hann hafi vegið kýttan sauðamann sem gekk við staf. Þegar klifað er á stefinu um „báknið“ sem allt ætli að gleypa og alla verðmætasköpun að kæfa kemur mér Þorgeir í hug. Það stendur nefnilega vel til höggsins vegna þess að það þjónar hinum mörgu en ekki hinum fáu.
Þegar Þorgeir hjó sauðamanninn var samfélagið einfalt, bændur og leiguliðar, en yfir drottnaði fámenn höfðingjastétt. Í dag er samfélagið mörgum stærðargráðum flóknara og kallar á margs konar þjónustu til þess að það gangi upp. Stóran hluta þessara verkefna hefur samfélagið ákveðið að reka sameiginlega. Oft er eftirspurnin óendanleg því það er alltaf hægt að gera betur. Sem dæmi um þetta má taka þjónustu við börn, hvenær er hún nægjanlega mikil? Svarið er ekki til því að alltaf er hægt að gera betur. Við sem erum foreldrar í dag gerum meiri kröfur um að gert sé betur heldur en okkar foreldrar gerðu.
Þúsundir opinberra starfsmanna mæta til vinnu á degi hverjum og gera sitt besta til þess að mæta óendanlegri eftirspurn og sívaxandi kröfum samfélagsins. Þau sjá um þær skyldur sem við höfum ákveðið að fela þeim, kenna börnum, hlúa að sjúkum, þjónusta eldri kynslóðir, halda uppi lögum og reglu og þannig mætti telja áfram. Eftirlitsstofnanir fylgjast með, í nafni almannahagsmuna, að farið sé að reglum. Að ekki sé svindlað á almenningi með samráði. Vegum sé haldið opnum af fólki sem fer snemma á fætur og skefur í dimmviðri frá morgni til kvölds. Það er í mínum huga til óþurftar að tala eins og verið sé í sífellu að sólunda fé í óþarfa, í eitthvert órætt bákn.
Traust á stofnunum og traust í samfélagi er burðarás sem er okkur á Íslandi ákaflega dýrmætur. Þessi burðarás, sem telja má til innviða í samfélaginu, hefur fyrst og síðast svignað þegar kapítalisminn hefur gengið í gegnum sínar verstu krísur og hrun vegna þjónkunar við hina fáu á kostnað hinna mörgu. En burðarásinn hefur gert okkur kleift að standast ótal áskoranir og á honum þurfum við að byggja samstöðu okkar á næstu árum þegar fyrirsjáanlegt er að eldgos verði til ama á Reykjanesi um nokkra hríð.
Almenningur á Íslandi afhendir hinu opinbera stóran hluta af tekjum sínum til þess að starfrækja verkefni sem rekin eru á sameiginlegum grunni, í trausti þess að vel sé farið með og að alltaf megi gera betur. Þeir sem vega að almannaþjónustunni af því að hún stendur vel til höggsins ættu alltaf að þurfa að svara spurningunni: Hvers vegna? Svörin gætu reynst eins afhjúpandi og hið fræga svar Þorgeirs „kappa“ Hávarssonar.
Höfundur er þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns
framboðs. kari.gautason@althingi.is