4 Andrea Kolbeinsdóttir varð fjórða í kjörinu á íþróttamanni ársins 2023. Hún er fremsta langhlaupakona landsins og margfaldur Íslandsmeistari.
4 Andrea Kolbeinsdóttir varð fjórða í kjörinu á íþróttamanni ársins 2023. Hún er fremsta langhlaupakona landsins og margfaldur Íslandsmeistari. — Morgunblaðið/Hákon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Staðan á mér er mjög góð og ég er loksins búin að ná mér af þessum meiðslum sem hafa verið að hrjá mig,“ sagði hlaupakonan Andrea…

Frjálsar

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

„Staðan á mér er mjög góð og ég er loksins búin að ná mér af þessum meiðslum sem hafa verið að hrjá mig,“ sagði hlaupakonan Andrea Kolbeinsdóttir í samtali við Morgunblaðið.

Andrea, sem er 25 ára gömul, hefur verið fremsta langhlaupakona landsins undanfarin ár en hún er ríkjandi Íslandsmeistari í maraþoni og þá hafnaði hún í fjórða sæti í kjörinu á íþróttamanni ársins sem samtök íþróttafréttamanna standa fyrir ár hvert.

„Ég finn sem betur fer ekki lengur til í fætinum og ég er búin að hjóla mikið og synda undanfarna mánuði, ásamt því að vera á gönguskíðum líka. Ég er komin með gott grunnþol ef svo má segja og núna þarf ég bara að koma góðum hlaupaæfingum aftur inn í rútínuna. Ég er ekki alveg með það á hreinu í hversu góðu hlaupaformi ég. Eins og ég kom inn á áðan þá snýst þetta fyrst og fremst um það að koma sér í hlaupaform núna en ég þarf líka að passa mig að fara ekki of geyst svo ég meiðist ekki aftur,“ sagði Andrea.

Hætti á réttum tímapunkti

Andrea tilkynnti það á síðasta ári að hún ætlaði að einbeita sér algjörlega að langhlaupunum og taka sér hlé frá námi í læknisfræði en hún reiknar með því að útskrifast úr grunnnámi í vor.

„Þetta voru álagsmeiðsli sem ég var að glíma við og þetta eru meiðsli sem ég þekki ágætlega því ég lenti í svipuðum meiðslum í menntaskóla. Ég varð einfaldlega allt of spennt þegar ég ákvað að setja alla einbeitingu á hlaupin og fór fullgeyst.

Ég var í háfjallaæfingabúðum í Frakklandi og ég æfði einfaldlega allt of mikið á allt of stuttum tíma. Ég var að hlaupa einhverja 110 kílómetra á viku á malbiki, nokkuð sem ég var ekki vön að gera, og það var bara of mikið álag á líkamann. Á sama tíma lærði ég helling inn á sjálfa mig og líkamann og það er ýmislegt jákvætt sem ég tek með mér út úr þessu.“

En hvað var að hrjá hana nákvæmlega?

„Ég var að glíma við svokallaðan beinbjúg í fótleggnum. Það voru komnar örsmáar sprungur í fótinn á mér og ef ég hefði haldið áfram á sömu braut hefðu þær ágerst sem hefði endað með sprungum í beininu. Ég hætti hins vegar á réttum tímapunkti og þetta slapp fyrir horn.

Ég var í raun góð í fætinum síðasta sumar en svo hóf ég undirbúning fyrir maraþonhlaup í haust og þetta gerðist allt saman á einni viku. Það var fyst vont að stíga í fótinn og síðan varð þetta verra og verra. Ég kem svo heim í myndatöku og þá kemur þetta í ljós. Þetta er því búið að vera að plaga mig í frekar langan tíma en eftir góða hvíld, og stígvél sem minnkaði álagið á beinið, og auðvitað tíma, greri þetta ágætlega.“

Andrea greindi frá því í Dagmálum Morgunblaðsins að hún hefði hug á að keppa bæði á sumarólympíuleikum í hlaupum og í skíðagöngu á vetrarólympíuleikum.

„Ég er búin að velta gönguskíðunum mikið fyrir mér undanfarna mánuði en ef þú ætlar þér að verða bestur í einhverju þá þarftu að setja alla þína einbeitingu í það. Eins og staðan er í dag ætla ég því að einbeita mér að langhlaupunum og ég er á leiðinni á Evrópumótið í fjallahlaupum núna í byrjun júní. Mótið fer fram í Annecy í Frakklandi og ég ætla mér stóra hluti þar.

Eins og staðan er í dag er ég því meira að horfa á gönguskíðin sem góðan grunn og undirbúning fyrir fjallahlaupin. Ef ég ætla að einbeita mér að bæði hlaupunum og skíðunum kemur það niður á báðum greinum held ég. Hindranirnar verða fleiri fyrir vikið en ég útiloka það alls ekki að keppa á Ólympíuleikum á gönguskíðum einn daginn og það er þá eitthvað sem myndi koma seinna meir.“

Stefnan sett á Los Angeles

Andrea ætlaði sér að verða önnur konan til þess að keppa í maraþoni á Ólympíuleikunum í París í sumar en Martha Ernstsdóttir gerði það fyrst kvenna í Sydney árið 2000.

„Líkurnar voru aldrei miklar og það hefði allt þurft að ganga upp hjá mér í Valencia-maraþoninu í desember á Spáni á síðasta ári ef ég ætlaði að eiga einhverja möguleika á sæti á Ólympíuleikunum í París. Það hefði styrkt stöðu mína á heimslistanum en svo auðvitað komst ég ekki í hlaupið vegna meiðsla. Draumurinn um að keppa á Ólympíuleikunum í París er því úr sögunni en á sama tíma horfi ég björtum augum til Ólympíuleikanna 2028 sem fram fara í Los Angeles í Bandaríkjunum.

Ég er skráð til leiks í maraþonið í Valencia í desember á þessu ári og markmiðið þar er að sjálfsögðu að bæta Íslandsmetið í greininni. Ég geri mér samt grein fyrir því að það þarf ýmislegt að ganga upp ef ég ætla mér að keppa á leikunum í Los Angeles eftir fjögur ár en þetta er klárlega eitt af framtíðarmarkmiðunum,“ sagði Andrea Kolbeinsdóttir í samtali við Morgunblaðið.

Höf.: Bjarni Helgason