Klemens Sigurgeirsson fæddist á Granastöðum í Kinn 26. september 1928. Hann lést á Skógarbrekku á Húsavík 5. febrúar 2024.

Klemens var sonur hjónanna Sigurgeirs Pálssonar, f. 31. maí 1886, d. 20. sept. 1945, og Kristínar Hólmfríðar Jónsdóttur, f. 12. sept. 1894, d. 1. febr. 1959. Hann ólst upp í stórum systkinahópi og þau sem komust til fullorðinsára voru Stefanía, f. 10. okt. 1915, d. 19. okt. 1992, Jón, f. 13. nóv. 1921, d. 9. sept. 2011, Páll, f. 22. sept. 1925, d. 26. mars 1993, Ólína Þuríður, f. 23. okt. 1930, Sigríður, f. 14. okt. 1933, d. 20. sept. 1960, og Álfheiður, f. 11. ágúst 1935, d. 31. jan. 2020.

Klemens kvæntist Mundu Pálín Enoksdóttur, f. 18. des. 1939, d. 16. jan. 2005, árið 1961. Börn þeirra eru: 1) Sigríður, f. 16. sept. 1962, sambýlismaður Matthías Axelsson. Dóttir hennar er Helga Hrönn Óskarsdóttir, f. 29. ágúst 1987, eiginmaður Ólafur Aron Haraldsson og börn þeirra eru: Óskar Ingi, Alex Ingi, Dagur Kári. 2) Enok Sigurgeir, f. 18. nóv. 1964, sonur hans Brynjar Freyr, f. 28. apríl 1990. 3) Brynhildur Kristín, f. 8. okt. 1966, sambýlismaður Erling Ólafur Aðalsteinsson.

Klemens kvæntist Helgu Aðalbjörgu Vilhjálmsdóttur, f. 8. júní 1946, árið 1976. Börn þeirra eru: 4) Dagur, f. 11. mars 1975. 5) Valur, f. 12. maí 1977, eiginkona Anna Klara Georgsdóttir, börn þeirra eru: Garpur Hnefill, f. 11. apríl 2001, Fríða Rakel, f. 23. okt. 2010, Ísrún Alda, f. 15. júní 2013, Lovísa Rut, f. 18. ágúst 2017. 6) Sigtryggur, f. 11. des. 1978, eiginkona Elín Rúna Backman, börn þeirra eru: Arnar Freyr, f. 1. ágúst 2008, Þóra Aðalbjörg, f. 11. sept. 2012, Rúnar Valur, f. 27. apríl 2018. 7) Fóstursonur Klemensar er William Edward Collins, f. 9. maí 1971, sambýliskona Raj Munn og börn hans eru Ugla, f. 15. sept. 1997, og Ísar Freyr, f. 29. maí 2002. Stjúpsynir Klemensar eru: 8) Kristján Valdimar Halldórsson, f. 22. júlí 1957, eiginkona Elísabet Egilsdóttir. 9) Kári Halldórsson, f. 15. okt. 1959.

Klemens lauk fullnaðarprófi frá farskóla Ljósavatnsskóla árið 1942. Hann stundaði einnig nám í Héraðsskólanum á Laugum í Reykjadal veturinn 1947-1948. Klemens lauk meiraprófi á Akureyri árið 1954 og sótti einnig nám
skeið fyrir héraðslögreglumenn.

Klemens vann alla tíð við bústörf á Granastöðum og í Ártúni, aðallega með mjólkurkýr og sauðfé, en auk þess starfaði hann við lögreglustörf frá 1957 til 1989. Var hann við löggæslu á sveitaböllum um alla sýsluna og var á næturvakt í Kröfluvirkjum einu sinni í viku þegar jarðhræringarnar voru í Kröflu 1976. Einnig keyrði Klemens mjólkurbíl annað slagið á árunum 1949-1957.

Klemens hafði mikinn áhuga á skógrækt og stundaði skógrækt í landi Ártúns ásamt börnum sínum frá árinu 2003 og nú er búið að gróðursetja tæplega 100.000 plöntur í skógræktarlandinu.

Klemens dvaldi síðustu árin á Heilbrigðisstofnun Norðurlands.

Útför Klemensar fer fram í Þóroddsstaðarkirkju í dag, 17. febrúar 2024, klukkan 14.

Klemens móðurbróðir okkar hefur kvatt þennan heim á 96. aldursári.

Klemi, eins og hann var oftast kallaður, var fjórði í röð sjö barna Sigurgeirs Pálssonar og Kristínar Jónsdóttur á Granastöðum sem upp komust en þrjú dóu í bernsku. Systkinin á Granastöðum ólust upp við fremur kröpp kjör þeirra tíma og þurftu snemma að leggja sitt af mörkum, lærðu ung að vinna. Sigurgeir faðir þeirra féll frá á miðjum aldri 1945, en það ár stofnaði Kristín nýbýlið Ártún með sonum sínum.

Klemi bjó alla tíð í Ártúni. Framan af ráku þeir bræður þar félagsbú en seinni árin stóð Klemi einn að búrekstrinum með fjölskyldu sinni. Hann var góður bóndi, gjörhugull um velferð búfjárins og hafði ávallt góðar afurðir af búi sínu, hlaut meðal annars viðurkenningar fyrir að framleiða úrvalsmjólk. Meðfram bústörfunum gegndi hann lengi starfi héraðslögreglumanns og tók vaktir einkum um helgar. Var vinnudagurinn þá oft langur, þegar hann kom heim á mjaltatíma undir morgun.

Frændi okkar var hæglátur maður og lét lítið yfir sér, ljúfur hversdagslega en ekki skaplaus og fastur fyrir ef á reyndi. Hann var vel að manni, svo vægt sé til orða tekið. Annar þingeyskur bóndi og samferðamaður Klema í bændaferð suður á land fyrir margt löngu, lýsti því fyrir okkur að Klemi hefði ekki átt erfitt með að lyfta Húsafellshellunni, sem margir aflraunamenn spreyta sig á og mun vega 186 kg. Hann var lengst af heilsuhraustur og bjó heima fram í háa elli, en síðustu árin naut hann góðrar aðhlynningar á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Húsavík.

Við systkinin þökkum honum vinsemd og hlýhug sem hann sýndi okkur alla tíð. Eitt okkar var hjá þeim bræðrum í sveit í þrjú sumur og við hin komum gjarnan í skemmri heimsóknir, og eigum við öll margar skemmtilegar minningar úr Kinninni.

Börnum Klemensar og öðrum aðstandendum sendum við og fjölskyldur okkar innilegar samúðarkveðjur.

Páll, Sigurgeir og
Hólmfríður.