Í Dagmálamyndveri í vikunni fékk blaðamaður til sín góðan gest; sérfræðilækninn Erlu Gerði Sveinsdóttur. Tilgangurinn var að ræða um Wegovy, nýtt lyf ætlað þeim sem lifa með offitu, en fáir vita jafn mikið um málið og Erla.
Að stýra betur þyngd
Stungulyfið Wegovy er framleitt af Novo Nordisk sem einnig framleiðir sykursýkislyfið Ozempic og offitulyfið Saxenda sem margir kannast við, en aukaverkanir lyfja við sykursýki reyndust vera þyngdartap sem kætti marga sem lengi hafa reynt að léttast. Fyrirtækið brá þá á það ráð að framleiða sérstakt lyf sem væri hugsað fyrir fólk sem þyrfti að létta sig og kom þá Wegovy á markað, en Erla segir að í raun séu lyfin Ozempic og Wegovy alveg eins. Erla vill byrja á að taka fram að hún hefur fengið greitt frá Novo Nordisk fyrir vinnu sína við að fara út um allt land og fræða heilbrigðisstarfsfólk um offitu.
„En það hefur engin áhrif á það hvernig ég fjalla um lyfið,“ segir Erla og útskýrir hvernig lyfið vikar.
„Meltingarvegurinn framleiðir hormón sem sendir ýmis skilaboð, meðal annars til heilans um að við séum orðin södd. Lyfið sest á þessa viðtaka sem hormónin ættu að setjast á, en okkar hormón lifir svo stutt. Lyfið situr lengur og hefur þá meiri áhrif. Þannig ýkir lyfið upp hormón sem við erum með í okkur en erum ekki með nóg af eða virkar ekki rétt. Það hjálpar líkamanum að stýra þyngdinni betur, en lyfið veldur því að við erum fyrr södd og verðum síður svöng,“ segir Erla og segir marga ná frábærum árangri með lyfinu, sem bendi þá til þess að röskun sé á fyrrnefndu hormónakerfi. Ef enginn árangur næst liggur vandinn þá annars staðar.
Erla segir fólk sem tekur lyfið ekki aðeins upplifa seddu og minni svengd heldur almennt minni löngun í mat.
„Margir segja að þeir fái loksins frið fyrir stanslausum matarhugsunum. Aðrir losna við löngun í sykur og skyndiorku.“
Til að meðhöndla offitu
Erla segir meðferðir við offitu margar og mismunandi, en tekur fram að ekki eigi að kalla lyfið megrunarlyf.
„Þetta er lyf til að meðhöndla sjúkdóminn offitu til þess að hjálpa líkama að komast í betra jafnvægi; líkama sem er með kerfi sem hafa raskast á einhvern hátt. Lyfið á ekki að fara inn í heilbrigðan líkama og rugla hann til þess eins að ná þyngdinni niður. Ef við þvingum fram þyngdartap þá getur gengið á vöðvana eða fólk verður fyrir næringarskorti en þannig eigum við ekki að nota lyfin,“ segir hún.
„Lyfið er ætlað fólki með BMI-stuðul yfir 30, en það er skilgreiningin á offitu. Einnig er það fyrir fólk með BMI-stuðul yfir 27 með fylgikvilla, eins og kæfisvefn, of háan blóðþrýsting eða of hátt kólesteról,“ segir Erla.
„Það er alveg hægt að vera með hátt BMI án þess að vera með óheilbrigðan líkama,“ segir Erla og nefnir að stuðullinn hafi verið fundinn upp til að bera saman stóra hópa og fylgjast með þróun.
„Hann er mjög góður í því en hann er ekki góður til að segja hvernig líkami einstaklings er samsettur eða hvort það stafi einhver heilsuógn af þyngdinni. Svo er einnig hægt að vera með sjúkdóminn offitu þó að BMI-stuðullinn sé undir 25, sem ruglar marga,“ segir Erla og að því eigi að nota stuðulinn til að fylgjast með breytingum og skoða þá einstaklinginn og meta hvort hætta sé á ferðum.
Skilyrðin gríðarlega ströng
Bæði heimilis- og sérfræðilæknar geta ávísað lyfinu en Erla segir vandamál að fá lyfið niðurgreitt af Sjúkratryggingum.
„Skilyrðin eru gífurlega ströng og í raun er oft allt of seint gripið inn í sjúkdóminn með meðferð,“ segir Erla og útskýrir hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að fá niðurgreiðslu.
„Þú þarft að vera með yfir 45 í BMI og með alvarlega lífsógnandi sjúkdóma sem ekki hefur tekist að meðhöndla með öðrum leiðum. Segjum að þú sért með háþrýsting, sem hægt er að meðhöndla með háþrýstilyfjum, þá færðu ekki Wegovy niðurgreitt, þótt þú sért með yfir 45 í BMI,“ segir Erla og segir slíkan einstakling með mjög alvarlega offitu.
„Það væri gáfulegra að vinda niður það sem orsakar álagið,“ segir hún og nefnir fleiri skilyrði.
„Þeir sem eru með yfir 35 í BMI geta fengið lyfið ef þeir eru með enn alvarlegri sjúkdóma, til dæmis ef þeir eru að bíða eftir líffæragjöf eða eru með hjartabilun. Báðum skilyrðunum fylgir að þú þarft að vera í eftirliti í sérhæfðu teymi. Eins og það væri nú í raun gott, þá eru þessi teymi ekki til nema á fjórum stöðum á landinu, sem skerðir þá aðgengið enn meira,“ segir hún og nefnir að fólk geti vissulega borgað sjálft fyrir lyfin, en þau kosta á bilinu 27 til 43 þúsund á mánuði.
„Það munar um það á flestum heimilum og alls ekki allir sem geta nýtt sér þessa meðferð. Það er gríðarlega erfitt að fá til sín einstakling sem þyrfti á meðferðinni að halda en geta ekki veitt hana vegna þess að viðkomandi hefur ekki efni á lyfinu,“ segir hún og segir lækna vera að þrýsta á um að skilyrðunum verði breytt þannig að fleiri geti nýtt sér meðferðina.
Væri ekki ráð að greiða niður lyfin til að koma í veg fyrir sjúkdóma af völdum offitu og spara þá heilbrigðiskerfinu mikið fé í framtíðinni?
„Fyrir mér er það alveg borðleggjandi. En það er ekki verið að horfa fram í tímann.“
Blanda af sykri, salti og fitu
Offita er vaxandi vandamál á Íslandi, en í dag eru 7% barna með offitu og 28% fullorðina, sem þýðir að hundrað þúsund Íslendingar eru með offitu.
„Og miklu fleiri eru í ofþyngd. Við lifum í þjóðfélagi sem er offituhvetjandi. Við erum að rugla kerfin okkar svo mikið og þetta snýst ekkert um kaloríur inn og út; þetta er miklu flóknara en það. Við þurfum að horfa á þetta sem verkefni samfélagsins. Stóra ógnin núna er þessi gjörunni matur,“ segir Erla og segir slíkan mat hannaðan þannig að okkur langi alltaf í meira og meira.
„Þetta er passleg blanda af sykri, salti og fitu. Þá er flugeldasýning og við förum að innbyrða miklu meiri orku og minna af næringu,“ segir Erla og segir löngu tímabært að grípa inn í nú þegar þjóðin trónir í einu af toppsætunum yfir þyngstu þjóðir heims.
Getur lyfið leyst fituaðgerðir af hólmi?
„Já, að hluta til. Þær verða enn notaðar, en kannski öðruvísi. Innan örfárra ára verður notuð samsett meðferð en von er á nýju lyfi sem fer inn á enn fleiri kerfi en Wegovy. Lyfin eru alltaf að fá breiðara virknisvið og eru farin að slaga upp í sömu virkni og magaermi. Magahjáveitan heldur sínu sem öflugasta meðferðin við alvarlegri offitu,“ segir Erla og segir algengt að þeir sem fari nú í aðgerðir fari síðar á lyfin, enda eðlilegt að fólk þyngist eitthvað aftur eftir aðgerðir.
Lífsstíllinn skiptir máli
Samkvæmt rannsóknum missir fólk á Wegovy allt upp í 17% af líkamsþyngd sinni. Þegar fólk nær ákveðinni þyngd aðlagast líkaminn og hættir að léttast.
„Meðferð við offitu er ævilöng og alveg eins og með aðra sjúkdóma sem þarf lyf við þarf að nota lyfið til þess að ná jafnvægi á kerfinu. En hins vegar það sem maður gerir á meðan maður notar lyfið skiptir miklu máli. Ef maður notar lyfið til að þvinga líkamann í sveltisástand, þannig að það er farið að ganga á vöðvana, og þú hættir svo á lyfinu, þyngist þú á fullri ferð aftur og vöðvarnir koma ekki aftur. Þá ertu í raun heilsufarslega verr sett en áður. En ef þú hins vegar notar lyfið í ákveðinn tíma, og nýtir þennan glugga vel, byggir upp vöðva, nærir þig vel og kemur jafnvægi á kerfin, þá getur vel verið að þú getir leyft lyfjunum að fjara út og líkaminn nær að halda sér,“ segir Erla og nefnir að þetta eigi frekar við um fólk sem er ekki komið með alvarlega offitu. Fyrir það fólk er ævilöng meðferð nauðsynleg.
„Þess vegna skiptir máli að fara fyrr af stað með lyfin.“
Er þetta töfralyf?
„Nei, þetta er mjög gott hjálpartæki en lyfið eitt og sér gerir ekki allt saman. Hinn klassíski heilbrigði lífsstíll fellur aldrei úr gildi.“
Nánar er rætt um lyfið Wegovy í Dagmálaþætti á mbl.is sem verður opinn áskrifendum um helgina.