Lítill voffi sem líkist helst bangsa tók á móti blaðamanni þegar hann barði að dyrum hjá Arndísi Thorarensen í fyrirtækinu Júní. Voffinn heitir Þorgeir, kallaður Toggi, og er titlaður markaðsstjóri á heimasíðu fyrirtækisins en sinnir ef til vill bara því hlutverki að vera krútt og auka gleði á vinnustaðnum.
„Hann hefði átt að heita Skuggi, þar sem hann fylgir mér eins og skugginn,“ segir Arndís og brosir.
Á meðan Toggi sefur undir borði spjöllum við um Júní og stafrænar lausnir yfir heitri súpu sem er kærkomin nú í kuldatíðinni.
Þurfum að vera á tánum
Arndís er menntaður stærðfræðingur og hafði alltaf hugsað sér að vinna við kennslu og rannsóknir.
„Ég hafði mikinn áhuga á að bæta stærðfræðikennslu og var á þeirri leið þegar ég datt inn í viðskipti. Ég varð framkvæmdastjóri hjá Lifandi markaði og tók meistarapróf í viðskiptum. Það býr í mér mikil viðskiptahugsun þó að ég sé kannski hippi í grunninn; kennari og þjálfari, en ég starfaði við Háskólann í Reykjavík í tíu ár,” segir Arndís.
„Ég datt óvænt inn í þennan stafræna og skapandi heim. Ég var þá hætt í vinnunni og setti á blað hvað það væri sem skipti mig máli. Mig langaði að vinna í vaxandi geira þar sem væri hagnaður og ég vildi vinna með klárum sérfræðingum í teymi. Þá bauðst mér að vinna í Arion banka í verkefni sem sneri að stafrænni framtíð,“ segir Arndís og segist í byrjun ekki hafa verið mjög vel að sér í tækni þó að hún hafi unnið að fjármögnun tæknifyrirtækja á tímabili.
„En þetta voru viðskiptaverkefni, mönnuð sterkum sérfræðingum sem ég lærði mikið af, og öll viðskipti tengjast núna stafrænni þróun þannig að þeir sem eru að leiða verkefnin verða að nota tæknina. Hún breytist svo mikið og hratt að við þurfum stöðugt að vera á tánum.“
Pössuðum vel saman
Eftir að Arndís hafði öðlast reynslu og þekkingu fann hún að hún gæti stofnað sitt eigið ráðgjafarfyrirtæki, sem hún gerði.
„Svo vildi það þannig til að maðurinn minn Gummi átti hönnunar- og hugbúnaðarstofu og við hófum að gera sameiginlega samninga og vinna saman fyrir viðskiptavini. Við sáum fljótt hvað þetta passaði vel saman og það varð svo til þess að við sameinuðum fyrirtæki okkar,“ segir Arndís, sem var þá komin með hóp öflugra ráðgjafa, hönnuða og forritara í lið sitt.
„Ráðgjafar okkar eru bæði að vinna stefnumótandi ráðgjafaverkefni í fyrirtækjum og stofnunum og líka í stærri verkefnum með heilum tækniteymum frá Júní,“ segir hún.
Spurð hvernig gangi að vinna með manninum sínum svarar Arndís:
„Við vildum ekkert endilega vinna saman en við erum ótrúlega góð í því líka,“ segir Arndís og brosir.
„Við erum ekkert mikið í sömu verkefnunum, enda er hann stafrænn hönnuður en ég í greiningunni og strategíunni.“
Vefir eru stærsta varan
Júní sinnir ýmsum verkefnum, eins og að greina, hanna og forrita vefsíður fyrir fyrirtæki og stofnanir.
„Harpa hafði til dæmis samband á sínum tíma og vildi ráðgjöf um að verða nútímalegra og stafrænna hús. Harpa er auðvitað draumaviðskiptavinur allra hönnuða en við unnum með þeim spennandi lista af stafrænum tækifærum. Við fórum svo af stað að vinna verkefnalistann, sem meðal annars telur nýjan vef, bókunarþjónustu á sölum og margt fleira,“ segir Arndís og segir samstarfið við Hörpu hafa verið frábært, en þau fóru einmitt í breytingar á móttökunni á sama tíma.
„Til að nefna áhugavert ráðgjafarverkefni mætti minnast á samstarf okkar við Miðstöð menntunar og skólaþjónustu,“ segir Arndís og bætir við að þau vinni mikið fyrir ráðuneyti og stofnanir.
„Við erum að aðstoða MMS við að leggja grunninn að því að gera allt námsumhverfið tæknivæddara; námsefnið, námsumsjón og námsmatið,“ segir Arndís.
„Stærsta varan okkar hjá Júní er vefir og aðrar stafrænar lausnir. Fyrir um fimmtán árum voru vefir bara staðir fyrir upplýsingar en í dag eru þeir allsherjarvettvangur fyrirtækja. Þar er nú miklu meiri gagnvirkni og það er mikil sálfræði á bak við það hvar hver takki er staðsettur og hvert hann leiðir þig,“ segir Arndís og segir flesta sem vinni hjá Júní vera forritara, en starfsmenn eru þrjátíu.
„Fæstir gera sér grein fyrir allri vinnunni sem liggur að baki einum meðalstórum vef. En það þarf til að mynda að láta vefinn virka fyrir allar skjástærðir, eins og til dæmis síma.“
Góður andi í Júnívers
Af hverju heitir fyrirtækið Júní?
„Við þurftum að finna nýtt nafn þar sem við vorum að sameina tvö fyrirtæki og vildum hafa tvö atkvæði í nafninu. Ég á afmæli í júní og lénið var laust,“ segir hún og segir nafnið einnig stutt og laggott.
„Vefurinn okkar er í sólarlagslitunum; eins og sólsetur í júní,“ segir Arndís og sýnir blaðamanni vefsíðuna, sem er afar falleg.
Arndís segir mikilvægt að vinnustaðurinn og vinnuandinn sé góður.
„Þetta er nútímalegur bransi og það er keppt um besta starfsfólkið, þannig að við verðum að vera með spennandi verkefni, en einnig góða aðstöðu og góðan anda. Ég elska þessu vinnu og er svo heppin að vinna með frábæru teymi af fólki, en við köllum starfsmannaumhverfið Júnívers,“ segir hún og brosir.
„Við, í Júníversinum, tölum um að hafa öll okkar sér-visku en saman myndum við einstaka sam-visku.“
Mörg verkefni eru að baki en nóg er fram undan, enda gerast hlutirnir hratt í tæknigeiranum.
„Það sem við erum hvað stoltust af er að hafa átt stóran þátt í verkefninu um Island.is. Svo hefur Íslandsstofa verið skemmtilegur viðskiptavinur, en hún er með marga vefi. Við erum nú að vinna í vefsíðu fyrir hana sem mun einfaldlega heita Iceland.is. Það er alhliða vefur til að koma Íslandi á framfæri, bæði hvað varðar viðskipti og ferðamennsku.“