Jónas Bragi Hallgrímsson fæddist 5. júlí 1949. Hann lést 1. febrúar 2024.

Útför Jónasar fór fram 16. febrúar 2024.

Kær vinur Jónas Hallgrímsson er fallinn frá eftir veikindi undanfarin ár.

Sorg og söknuður ríkir í vinahópnum en þakklæti fyrir frábærar samverustundir.

Við minnumst Jónasar sem góðs vinar og mikils matsveins. Hann var einstakur að því leyti að hann bauð til vinafagnaðar og kallaði fólk í mat svo mikinn að ekkert mál þó bættist óvænt vel í hópinn þá var samt alltaf nóg á borðum.

Hann starfaði sem matsveinn alla tíð og hérna á Akranesi var hann fenginn til að matreiða á fótbolta- og sundmótum í mörg ár. Þar kom vel í ljós hversu gott hann átti með að vinna og stjórna stórum hópi foreldra og sjálfboðaliða og var alltaf jafn hress og ljúfur þó mikið álag væri. Jónas og Guðný voru samhent hjón og var heimili þeirra opið fyrir vini og vandamenn og alltaf var gott að kíkja í kaffi og létt spjall hjá þessum heiðurshjónum.

Jónas átti einstakan lífsförunaut hana Guðnýju sem var stoðin hans í lífinu og veikindunum.

Hann var vinurinn í ferðahópnum okkar sem hringdi og tilkynnti að allir væru að fara í útilegu. Auðvitað stukku allir af stað og þakklát erum við í dag fyrir allar skemmtilegu útilegurnar víðsvegar um landið og samveru um verslunarmannahelgar í Skorradalnum og Víkinni þar sem stórfjölskyldurnar, vinir, vinir barnanna, ömmur og afar hittust. Árið 2016 fórum við á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum sem er alveg ógleymanleg.

Jónas var þannig að hann gaf sig á tal við fólk og þá var spurt hverra manna og hvaðan viðkomandi væri og þannig kynnti hann okkur vinina fyrir fólki sem varð á vegi okkar á ferðalögum.

Vinahópurinn er þéttur og eftir sitja minningar frá ferðalögum erlendis, einnig úr matarklúbbnum sem varð til þegar einn vinurinn veiktist alvarlega svo ákveðið var að hittast reglulega þar sem borðaður var góður matur, hlegið, sungið, dansað og spilað á gítar og allir gátu verið saman að njóta samverustunda. Núna verður ekki lengur hringt og spurt hvað er á matseðlinum en við trúum að matseðillinn hans í sumarlandinu sé í anda hans.

Lífið er brothætt og getur verið fljótt að breytast og það eina sem við mannfólkið getum gert er að vera meðvituð um að ekkert er sjálfgefið í lífinu. Njóta ber og nýta hamingjudagana vel og vera meðvitaður um þegar allt er gott. Þannig geymast dýrmætu stundirnar best. Sorgin er erfið fylgd en dýrmætar minningar lifa.

Takk fyrir tímann sem með þér við áttum,

tímann, sem veitti birtu og frið.

Ljós þitt mun loga og leiðbeina áfram,

lýsa upp veg okkar fram á við.

Gefi þér Guð og góðar vættir

góða tíð eftir kveðjuna hér.

Þinn orðstír mun lifa um ókomna daga

indælar minningar hjarta okkar ber.

(P.Ó.T.)

Innilegar samúðarkveðjur, elsku Guðný, Anna, Díana, Heimir, Addi, Víðir og fjölskyldur.

Minningin lifir í hjörtum okkar.

Sigríður Eiríks,
Valdimar og Rósa,
Þórður og Sigrún,
Daníel og Nína,
Marteinn og Guðrún.

Kæri vinur, á þessum tímamótum ryðjast minningarnar fram og eru þær ansi margar og góðar í gegnum árin. Með minningum og myndaalbúmum er auðvelt að ferðast í gegnum skemmtilega tíma, góða samveru og vináttu sem við og fjölskyldur okkar áttum saman. Það var bara eitthvað sem passaði svo vel, átti bara heima. Lífið lætur oft eins og ólgusjór með tilheyrandi öldugangi. Það var því viðeigandi að þið félagar Haddi og þú kynntust á sjónum, enda báðir stórir og miklir persónuleikar.

Allt byrjaði það með siglingu á Guðmundi RE árið 1979 þegar þið Hafsteinn voruð að fara í þessa siglingu með mjöl og ákveðið var að taka konurnar með. Eftir það varð ekki aftur snúið, úr varð ævilöng vinátta. Siglingin var hin skemmtilegasta með yndislegu fólki, vinskapurinn dafnaði og þroskaðist vel og mikið. Það sem á eftir kom skrifaði sig eiginlega sjálft.

Alltaf var jafn vinsælt að fara á Skagann, og eins að fá ykkur í Vogana og við nutum samverunnar bæði börn og fullorðnir. Þessar tvær fjölskyldur voru á þessum stundum nánast sem ein, enda voruð þið Haddi oft spurðir hvort þið væruð bræður. Öll ferðalögin, sumarbústaðaferðirnar, tjaldútilegurnar og svo mætti lengi telja.

Eftirminnilegast er nú sennilega þegar þú hringdir í mig einn morguninn og sagðir við mig með þinni sérstöku rámu rödd: „Þóra, þú ert ólétt.“ Ég hélt þú værir orðinn eitthvað ruglaður og sagði: „Nei, Jónas, það er ég ekki, hvað er í gangi hjá þér?“ En þú gafst þig ekki með það og sagðir aftur með þessari ákveðnu röddu: „Þú ert víst ólétt og ert með strák. Mig dreymdi það,“ bættir þú svo við.

Nokkru seinna kom í ljós að þú hafðir rétt fyrir þér.

Það kom að sjálfsögðu ekkert annað til greina en að skíra drenginn Jónas Braga, og að þú mundir halda á honum undir skírn. Sú stund er okkur afar dýrmæt og þið nafnar voruð tengdir upp frá því.

Það er ósköp erfið stund að þurfa að sjá á eftir góðum vin þar sem athvarf var ætíð að finna. Við fjölskyldan erum betri fyrir það að hafa átt þig að.

Hvíl í friði, elsku vinur.

Elsku Guðný, Anna, Díana, Heimir, Addi, Víðir og fjölskyldur, við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Vogafjölskyldan,

Hafsteinn (Haddi), Þóra, Hrafnhildur, Brynhildur, Hanna Lísa, Jónas Bragi og fjölskyldur.