Einar Guðni Þorsteinsson fæddist á Ytri-Sólheimum II í Mýrdal 6. desember 1958. Hann lést af slysförum 29. janúar 2024.

Foreldrar Einars voru Guðlaug M. Guðlaugsdóttir, f. 1938, og Þorsteinn Einarsson, f. 1927 bæði úr Mýrdalnum.

Einar var næstelstur sex systkina. Systkini Einars: Kristín, f. 1956, maki Jens Andrésson (látinn), Guðlaugur Jakob, f. 1961, maki Laufey Guðmundsdóttir, Óskar Sigurður, f. 1966, d. 2010, Ólöf Ósk, f. 1974, maki Rannveig Harðardóttir, og Ragnar Sævar, f. 1978.

Eftirlifandi eiginkona Einars er Petra Kristín Kristinsdóttir, f. 16. apríl 1975. Börn þeirra eru fjögur: Þorsteinn Björn, f. 1996, maki Sigrún Rós Helgadóttir, Ólöf Sigurlína, f. 1999, Sigríður Ingibjörg, f. 2002, og Kristín Gyða, f. 2009.

Einar var fæddur og uppalinn á Ytri-Sólheimum II í Mýrdal og þar var hann bóndi frá því hann tók við af foreldrum sínum, fyrst í félagi við bræður sína en svo með eiginkonu sinni frá 1995 og allt þar til þau fluttu til Víkur vorið 2016. Einar starfaði einnig mörg haust í sauðfjárslátrun hjá Sláturfélagi Suðurlands, fyrst í Vík og svo á Selfossi. Einnig var Einar rúningsmaður fyrir marga bændur á Suðurlandi. En fyrst og fremst var hann sauðfjárbóndi. 2016 fór hann að vinna hjá áhaldahúsi Mýrdalshrepps þar sem hann starfaði allt til dánardags. Hann átti alla tíð sínar kindur og hross og einnig eftir að hann fór úr sveitinni. Einar var félagi í Hestamannafélaginu Sindra og var ötull sjálfboðaliði þar til margra ára.

Útförin fer fram frá Víkurkirkju í dag, 17. febrúar 2024, klukkan 13.

Elsku Einar minn, aldrei datt mér hug þegar þú skutlaðir mér í bankann mánudaginn 29. janúar að ég sæi þig aldrei aftur. Eins og venjulega fórstu út í sveit til að gefa rollunum og svo þurfti að fara með hey í hrossin þennan dag. Þegar sjónvarpsfréttirnar voru að byrja var ég farin að furða mig á að þú værir ekki kominn til að taka þær og veðrið en hafði engar áhyggjur því það kom fyrir að þú hittir einhvern og tefðist. Einhvern veginn átti þetta bara ekki að geta gerst, ekki fyrir okkur og alls ekki þig. Sem betur fer hef ég krakkana hér til að takast á við þetta allt saman ásamt fullt af fólki sem er tilbúið að rétta okkur hjálparhönd. Þetta hefst allt í rólegheitunum. En það sem við eigum eftir að sakna þín og sakna þess að hafa þína rólegu nærveru í kringum okkur. Ég hugga mig við það að þú varst að gera það sem þér þótti allra skemmtilegast, að hugsa um skepnurnar þínar, og ég veit að það hefur verið tekið vel á móti þér við komuna í sumarlandið. Ég mun gera mitt besta til að halda minningu þinni hátt á lofti. Nú yljum við okkur við allar góðu stundirnar sem við áttum saman og tölum um þig. Það verður líka hugsað um kindurnar þínar og hrossin okkar.

Bless elsku Einar minn þar til við sjáumst aftur.

Þín

Petra.

Elsku pabbi.

Ég veit ekki hvar ég á að byrja eða hvað ég á að segja en bjóst ekki við því að vera að skrifa minningargrein um þig og ég rétt að verða 25 ára. Þú varst kletturinn sem alltaf var hægt að treysta á, sama hvað það var. Ef bíllinn bilaði hjá mér í Skagafirði hringdi ég alltaf fyrst í þig til að vita hvað ég ætti að gera, þó svo að ég vissi vel að þú værir hinum megin á landinu og alls ekkert mikið fyrir bíla eða bílaviðgerðir. Öll símtölin frá þér þar sem þú ert bara rétt að taka stöðuna hjá mér, aðallega samt að taka veðrið og hvernig gengi að þjálfa hrossin. Það var alveg sama hvað ég tók mér fyrir hendur, þú sýndir öllu áhuga og hvattir mig áfram í því sem ég var að gera, þú meira að segja hafðir áhuga á að koma og skoða skólann sem ég lærði förðun í, ekki allir pabbar svo áhugasamir.

Við áttum það sameiginlegt að vilja hafa hrossin okkar litfögur og þú gafst mér hryssu með draumalitnum okkar beggja. Þú vildir alltaf gera allt í rólegheitunum og þá sérstaklega smalamennskur, hvort sem það var verið að smala hrossum eða kindum þá sagðirðu alltaf „gerum þetta bara rólega“. Þú æstir þig sjaldan og hafðir ótrúlega þolinmæði fyrir því að hafa okkur krakkana með í öllu, dröslaðir okkur með þér í smalamennskur, girðingavinnu eða sauðburð, þú skammaðir aldrei neinn heldur leiðbeindirðu manni í rólegheitunum. Það verður skrítið að takast á við lífið án þess að þú sért með en ég veit þú fylgist með okkur, leiðir okkur í gegnum erfiðu tímana í rólegheitum og gleðst með okkur á þeim góðu. Þú hefur nú þegar komið til mín í draumi og ég vona að þú kíkir sem oftast.

Ég sakna þín svo ótrúlega mikið elsku pabbi.

Ólöf Sigurlína Einarsdóttir.

Veðrið er ótrúlega fallegt, pabbi, það er sól, snjór og logn. Ég er rosalega tómur. Ég veit ekkert hvað ég á að segja. Ég vildi reyndar að ég gæti sagt þér hvað Óskar hesturinn okkar er orðinn góður. Þú hefðir verið stoltur af því. Ég vildi að þú gætir hringt einu sinni enn, þótt það væri bara til að spyrja um veðrið. Ég lofa því að hugsa um daginn í dag og vera þakklátur fyrir hann en ekki einbeita mér bara að framtíðinni.

Ég mun sakna þín að eilífu. Ég elska þig pabbi.

Þorsteinn Björn.

Elsku besti pabbi minn.

Ég hefði ekki getað hugsað mér betri pabba en þig. Þú varst alltaf boðinn og búinn að hjálpa mér með hvað sem er og ef þú gast það ekki þá reyndirðu að finna einhvern sem gat hjálpað mér. Þú varst alltaf til í að brasa eitthvað með manni í hestunum og við krakkarnir vorum alltaf flottust í þínum augum. Þú varst svo stoltur af mér þegar ég sagði þér að ég væri komin í U21-landsliðið, það þurfti að halda því leyndu í nokkra daga og þér fannst það svo erfitt að mega ekki segja fólki þessar fréttir. Ég er svo þakklát fyrir það að þú gast komið á Íslandsmótið og horft á mig landa mínum öðrum Íslandsmeistaratitli og svo er ég ennþá þakklátari fyrir að þú gast farið til Hollands og horft á mig keppa á heimsmeistaramóti íslenska hestsins. Þar vann ég silfur og þegar ég hitti þig eftir keppni komst þú grátandi af stolti til mín og faðmaðir mig. Þú sagðir öllum sem heyra vildu hvað þú varst montinn af mér.

Pabbi, ég mun sakna þín alla daga.

Sigríður Ingibjörg.

Við sjáumst í kvöld pabbi. Það var það síðasta sem ég sagði við þig. Kliður var svo góður í vikunni, ef þú hefðir séð hann þá hefðirðu verið sammála en ef ég hefði sagt þér það þá hefðir þú spurt hvort það hefði ekki verið skemmtilegt og spurt mig hvernig tilfinningin væri. Tilfinningin var góð. En ég var að hugsa um þig. Ég vildi að ég gæti sýnt þér Bryggju en ég trúi því að þú fylgist með mér þjálfa hana. Ég mun passa Lúðu fyrir okkur.

Ég elska þig og sakna þín.

Kristín Gyða.

Það var harmafregn sem kom að austan þegar fregnir komu af Einari bróður núna 29. janúar síðastliðin. Hann hafði verið við sína uppáhalds iðju og lent í bílslysi og látist. Get ekki lýst því hvað hjartað mitt brast við þessa frétt, enn einn bróðir farinn frá okkur.

Það koma mörg minningabrot upp í hugann við svo óvænt andlát. Einar bróðir var næstur mér í aldri og við áttum góð uppvaxtarár á Ytri-Sólheimum, saman með ömmu Ólöfu og fjölskyldunni. Sumrin voru okkar uppáhaldstími þegar Kjartan Hreins kom og varði sumrinu hjá okkur. Við lékum okkur á endalausum túnunum og þegar Gulli bættist svo í hópinn var smíðaður kofi norðan hólsins. Mörg voru prakkarastrikin sem við áttum og létum ekkert standa í vegi fyrir því að njóta þessara stunda á Ytri-Sólheimum.

Einar heillaðist alltaf af búskap og var ávallt með pabba við gegningar og hellti sér í þessa starfsgrein. Þar var Einar bróðir á heimavelli og sérstaklega var hann heillaður af rollum og umhirðu þeirra. Einari var svo umhugað um rollurnar sínar að hann gat þekkt þær í sundur og vissi upp á hár hvað hver hét, hvar hún hélt sig í heimaheiðinni á sumrin og ættartré hennar í gegnum árin. Ræktun varð svo hans ævistarf og þrátt fyrir að flytja til Víkur þegar búskap lauk á Sólheimum hélt hann alltaf rollur og sinnti þeim af natni og fagmennsku.

Einar var vinur vina sinna og hjálpaði allaf öllum eins vel og hann gat. Nágrannar hans hafa sagt mér að allaf hafi verið hægt að leita til hans með ýmis verkefni. Einar var ekki maður margra orða heldur gekk til verks og kláraði þau á sínum hraða. Ekki voru orðin heldur mörg þegar hann fann sér lífsförunaut. Þegar fregnir fóru að berast á milli bæja í Dyrhólahreppi, eins og siður hefur verið í Mýrdal frá ómunatíð, um að Einar væri farinn að sjást með ungri konu sem var gestkomandi á næsta bæ á Sólheimatorfunni, sáum við fjölskyldan hvað hann fór að blómstra og léttast í spori. Saman byggðu þau upp yndislega fjölskyldu á Sólheimum og síðar í Víkinni og eignuðust þau Petra fjögur myndarleg börn sem eru stolt pabba síns og framtíð.

Ég mun sakna þess að heyra í Einari því að einstaka sinnum hringdi hann til að heyra í mér og ég í honum. Orðin voru ekki mörg en þau eru nú minningin sem ég vermi mig við um bróður minn, mann sem gaf fólkinu sínu heiminn með faðmi sínum.

Hvíl í friði Einar minn og votta ég fjölskyldu þinni mína innilegustu samúð.

Þín stóra systir,

Kristín.

Mig langar að minnast Einars mágs míns.

Það var haustið 1994 sem ég hitti Einar í fyrsta skipti. Hann labbaði upp að mér, 17 ára pollanum og starfsmanni í sláturhúsinu við Laxá, og spurði mig til nafns. Hann sagðist vera vinur Petru systur og gaf engar frekari skýringar á því. Við áttum ágætis spjall þar til hann kvaddi mig með þeim orðum að sennilega myndum við nú hittast eitthvað aftur. Þótt ég væri einungis 17 ára áttaði ég mig fljótt á því að Einar væri eitthvað meira en bara vinur Petru og það gladdi mig því ég fékk strax góða tilfinningu fyrir því hvaða mann Einar hafði að geyma.

Einar hafði alveg einstaklega þægilega nærveru og það var alltaf gaman að spjalla við hann um hin ýmsu mál, oftar en ekki blessað veðrið yfir einni, jafnvel tveimur, bjórdósum. Hann var nægjusemin uppmáluð og undi sér vel með sinn takkasíma og textavarpið. Hann var góð fyrirmynd fyrir okkur hin. Einar hugsaði vel um Petru og börnin og stolt hans yfir börnum sínum sást langar leiðir.

Það er erfitt að horfast í augu við þá staðreynd að nú sé komið að kveðjustund. Það er stórt skarð höggvið í fjölskyldu okkar við fráfall Einars. Nú þegar leiðir okkar skilur er mér efst í huga þakklæti. Það var mér mikils virði að fá að kynnast Einari, góðum og traustum manni sem gott var að leita til og læra af. Minning Einars mun alltaf lifa.

Elsku Petra systir, Þorsteinn og Sigrún, Ólöf, Sigríður og Kristín Gyða, hugur okkar Írisar er hjá ykkur á þessum erfiðu tímum. Fátækleg orð fá því sennilega ekki lýst hversu mikið þið hafið misst og við biðjum allt æðra okkur að styrkja ykkur í sorginni.

Guðmundur Kr. Kristinsson.

Það er eitthvað óraunverulegt við það að þurfa aftur að fá fregnir af því að einn af stórfjölskyldunni hafi horfið allt of fljótt úr þessum heimi. Fregnin stakk mig þegar ég fékk símtal að austan um að frændi minn sem ég ólst upp með í sveitinni hefði lent í alvarlegu slysi og týnt lífinu. Mig brestur orð til að lýsa þeim harmi sem býr með mér og til að lýsa þeirri samúð sem ég hef með fjölskyldu Einars frænda á Ytri-Sólheimum þegar ég hugsa til þess að stundirnar sem fram undan voru, verði ei meir.

Minningarnar eru margar af Einari frænda, minningar sem hafa mótað mig sem mann og styrkt mig. Líkja má þeirri sýn sem ég og frændi minn Ragnar höfðum af Einar frænda og bróður Ragnars sem ímynd af einhverjum af guðum Goðheima. Hann var stór og sterkur og ef við höguðum okkur ekki, sem var nú samt venjan að við gerðum ekki, myndi Einar taka í lurginn á okkur og flengja okkur. Mín sterkasta minning er þegar við nokkrir stráklingar vorum við háværan leik inni í sjónvarpsherbergi á Sólheimum á tíma hádegisfrétta og hurðinni á stofunni var hrundið upp og var þar kominn Einar frændi sótillur af reiði yfir hávaðanum. Stóð ég með bakið í hurðina og tók frændinn sig til og sparkaði í rassgatið á mér sem varð til þess að ég flaug þvert yfir stofuna og lenti í sófa sem þar var. Orð hans meðan á fyrsta flugtíma mínum stóð voru: „Hættið þessum helvítis hávaða, það eru fréttir!“

Einar var eins og bróðir hans heitinn afar fær í skepnuhaldi og að vera bóndi. Að þekkja í sundur allar ærnar og þekkja þær með nafni, halda utan um bókhald ættarsögu hverrar og einnar og vera vakinn og sofinn yfir þessu verkefni var eftirtektarvert og til fyrirmyndar. Man enn þegar Einar birtist í viðtali í sjónvarpsfréttum vegna eldsumbrota í Eyjafjallajökli og leit út eins og hann hefði verið að moka ösku síðan frá barnæsku. Þessi ímynd er mér enn í fersku minni, því þarna var á ferðinni maður sem hafði sálina í því sem hann var að gera. Sinna dýrunum sínum á erfiðum tímum og vera vakinn og sofinn yfir verkefninu. Að skipta um föt eða þurrka öskuna af enninu var ekki forgangsatriði, þó þú værir að fara í viðtal við fréttamiðil og yrðir á skjáum landsmanna næstu vikurnar. Dýrin í fyrsta sæti og velferð þeirra.

Í minningu okkar var Einar einn af hornsteinum fjölskyldunnar og stór sál sem vildi gefa heiminum kærleika. Þó hann hafi ekki haft mörg orð um hlutina voru orðin hans stór, stundum glettin og kærleik hlaðin þegar þau voru sögð og hafði hann gaman af því að gantast og hvað þá að herma eftir nágrönnum sínum á góðri stund. Fjölskylda Einars stóð honum nærri og vitum við það sem þekktum til að börnin hans voru honum allt og naut hann hverrar stundar í návist þeirra.

Í minningum felst ódauðleiki ástvina okkar og þannig lifir Einar í hjörtum okkar um ókomna tíð þó hann nú smali heiðar austursins eilífa á sinni nýju vegferð sem hann hefur nú lagt í.

Við Svetlana vottum okkar dýpstu samúð vegna fráfalls Einars.

Jón Þorsteinn og Svetlana.

Ég var átta ára þegar ég fluttist í Mýrdalinn. Á þessum tíma fóru krakkar ekki oft af bæ og það gladdi okkur krakkana því alltaf þegar gesti bar að garði. Sumir gestanna hættu að vera gestir og urðu heimilisvinir sem áttu jafnvel sitt sæti við eldhúsborðið. Einar Guðni var einn af þeim. Ég man fyrst eftir honum þegar hann kom með pabba sínum í heimsókn og urðu heimsóknirnar eftir það margar enda hefur hann fylgt okkur fjölskyldunni í Eyjarhólum æ síðan. Oft sátu þeir pabbi að spjalli fram á kvöld, stundum var lítið rætt enda þurfti þess ekki alltaf og stundum var meira spjallað.

Á unglingsárunum fer stríðni misjafnlega í unglingsstúlkur og gat Einar verið stríðinn ef gleðivökvi var við hönd og gat ég orðið brjáluð út í hann þegar hann var í þeim ham en svo var það gleymt jafnóðum og var ætíð vinátta okkar á milli. Þegar sveitaböllin voru við lýði og ég var komin með bílpróf, þá gerðist það oft að ég keyrði hann og aðra farþega á ball eða að hann var bílstjórinn. Þá var keyrt á böll í Gunnarshólma, Njálsbúð, Leikskála eða Hvolinn. Bílarnir voru misjafnir að gæðum á þessum tíma og veðrið gat verið vont, en á böllin skyldi farið.

Ævintýrin voru ýmis í þessum ferðum en eitt það svakalegasta var þegar ég var bílstjóri á leið heim af balli sem hafði verið í Hvolnum. Við vorum á Datsuninum hans Einars þegar við lentum í vatnselg sem endaði með því að bíllinn steyptist hálfur ofan í Markarfljótið. Þá hafði Markarfljótið flætt yfir árfarveginn og tekið veginn í sundur. Framendinn var á kafi og beljandi fljótið upp að framrúðu. Einhver lukka hvíldi yfir okkur og hélst bíllinn á sínum stað þar til björgunarsveitarbíll kom og dró okkur upp úr fljótinu. Mér var seinna sagt að það hefði bjargað okkur að vera á þunga Datsuninum hans Einars, annars hefði illa farið.

Mesta lukka Einars var að kynnast henni Petru sinni og eignuðust þau fjögur börn sem nú syrgja föður sinn. Pabbi og Einar báru mikla virðingu hvor fyrir öðrum og gladdi það okkur mikið þegar frumburður þeirra Petru og Einars fæddist og nefndu þau hann í höfuðið á pabba. Einar var mjög stoltur af börnunum sínum og ekki síst vegna áhuga þeirra á hestamennsku. Þau eru afburða hestafólk og sagði ég það oftar en einu sinni við hann að hann mætti svo sannarlega vera stoltur af þeim, þau eru líka svo góðhjörtuð og veit ég að þau munu reynast mömmu sinni vel á þessu erfiðu tímum.

Undanfarin ár hafði Einar haldið fé í fjárhúsinu hjá okkur í Eyjarhólum og hirt túnin og var hann því daglega á ferðinni og leit við í kaffi ef einhver var heima við, bæði þegar bróðir minn bjó þar og eftir að við maðurinn minn fórum að vera þar að gera upp íbúðarhúsið. Hittumst við því nokkrum sinnum og hafði hann gaman af að fylgjast með framgangi mála. Síðasta skiptið sem við hittumst var í lok nóvember þegar við vorum að græja rafmagnið fram í fjárhús, því það leið að fengitíma. Einar var á leið að fóðra dýrin sín þegar hann lést af slysförum núna í lok janúar, í umferð sem hefur tekið alltof marga og skilið alltof marga eftir í sárum.

Missir samfélagsins í Mýrdalnum að þessum hægláta, ljúfa og minnisstæða karakter er mikill, en missir Petru og barnanna er mestur. Ég sakna Einars og minnist hans með hlýju og er þakklát fyrir vinskap okkar í gegnum tíðina.

Bið að heilsa í Sumarlandið.

Þín vinkona,

Agla.

Ljúfur, traustur og gæðablóð eru orðin sem komu upp í hugann þegar við fréttum af sviplegu fráfalli Einars Guðna. Og það kom ekkert á óvart að þessi orð hafa bergmálað síðustu daga meðal þeirra sem syrgja og sakna góðs vinar og nágranna.

Einar hefur einhvern veginn alltaf verið nærri okkur – hann var næstelstur af „Sólheimakrökkunum“ en öll fylgdumst við að í uppvexti og skóla í Mýrdalnum. Einar sótti einnig í félagsskap foreldra okkar, þótt þau væru nokkru eldri en hann, og drakk kvöldkaffið nokkrum sinnum í viku við eldhúsborðið í Eyjarhólum, oft eftir eitthvert viðvik á bænum, spjallaði eða spilaði langt fram á nótt. Jafnaðargeð og rólyndi einkenndi Einar en eflaust hefur ýmislegt kraumað undir niðri stundum. Einar bar hins vegar ekki tilfinningar sínar á torg og talaði ekki um óyndi að fyrra bragði, það var kannski helst að mamma fengi að vita ef eitthvað lá þungt á honum.

Hann vissi allt um kindur, þekkti þær af svipnum og kunni skil á mörkum og eyrnamerkjum sveitarinnar. Hross og hestamennska var einnig í blóðinu og Einar því með sameiginlegt áhugamál með Eyjarhólafólkinu.

Þegar við höfðum aldur til að fara á sveitaböll var Einar oft með í för, fékk stundum eitthvert okkar til að keyra sig gegn því að splæsa á ballið, og naut þess að skemmta sér með sveitungum sínum því hann hafði gaman af fólki og var félagslyndur.

Einar var bóngóður og greiðvikinn við nágranna sína og reyndist okkur ekki síst vel þegar pabbi missti heilsuna og féll frá, var enda einn af kistuberunum í jarðarförinni og sýndi okkur stuðning með nærveru frekar en orðaflaumi.

Einar greip í ýmis störf um ævina og kynntist fólki hvaðanæva, mögulega þekkti hann fólk á hverjum bæ frá Hvolsvelli austur í Hornafjörð. Hann hafði gaman af að fylgjast með lífi þess og bæði sagði fréttir og spurði frétta af fólki, enda stálminnugur á nöfn og fjölskylduvensl.

Þar kom að Einar kynntist Petru sinni, sem var mikil gæfa og hún smellpassaði við eldhúsborðið í kvöldkaffinu í Eyjarhólum. Þegar frumburðurinn fæddist bað Einar leyfis að skíra hann eftir pabba, svo okkur þykir við alltaf eiga svolítið í Þorsteini Birni, sem og systrunum þremur reyndar. Við fylgdumst með fjölskyldunni stækka og dafna og glöddumst fyrir hönd Einars því hann naut sín greinilega í pabbahlutverkinu og var stoltur af krakkahópnum. Síðustu árin fékk hann útrás fyrir hestaáhugann í gegnum krakkana og var síðasta ár mikið ævintýri fyrir fjölskylduna á þeim vettvangi.

Ekki hvarflaði að okkur annað en að Einar kæmi reglulega í kaffi þegar endurbótum lyki í Eyjarhólum, og ræddi málin við eldhúsborðið á ný. Það er enn óraunveruleg tilhugsun að hitta Einar ekki aftur í þessu jarðlífi, að sjá hann ekki rúntandi um eða að bardúsa eitthvað frammi í fjárhúsum. Hann var svo mikill Mýrdælingur, svo mikill hluti af umhverfinu, við þurfum tíma til að skilja hvað hefur gerst.

Hugur okkar er hjá Petru, Þorsteini, Ólöfu, Sigríði og Kristínu sem hafa misst klettinn sinn svo alltof fljótt. Öðrum ættingjum sendum við einnig samúðarkveðjur.

„Eyjarhólakrakkarnir“,

Sindri, Ingibjörg og Haraldur.

Mýrdalurinn okkar er fátækari í dag en samt svo ríkur að hafa átt þig alla tíð.

Með nokkrum fátæklegum orðum kveð ég jafnaldra og vin, Einar Guðna frá Sólheimum. Einar var náttúrubarn sem trúði á búféð, landið og fólkið sem í því býr, hann hafði einstakan áhuga á sauðkindinni og ef einhver trú var honum ofarlega í huga þá var það sauðfjártrúin og sauðfjárræktin sem hann missti aldrei sjónar af. Á frumbýlingsárum okkar Siggu á Heiði var Einar tíður gestur og mörg voru þau kvöldin og fram á nætur, yfir kaffi og vindlum sem við eyddum í spjalli aðallega um sauðfjárrækt, en líka um menn og málefni því ekkert var okkur óviðkomandi. Einar var okkur líka ómetanleg hjálparhella við klippingar á kindunum og ýmiss skítverk á þessum árum og margar smalamennskurnar áttum við saman um heiðar Mýrdalsins sem ég hygg að enginn hafi þekkt betur í heild sinni en Einar Guðni og um þær allar hafði hann farið og smalað enda með eindæmum áhugasamur, ólatur og bóngóður til þeirra verka. Hestamannafélagið Sindri á honum líka mikið að þakka en Einar var einstaklega duglegur við undirbúning og vinnu við mót á Sindravelli, þá eru stundir okkar saman ásamt fleirrum við uppgræðslu Þuríðartorfu fyrir ofan Sindravöll ógleymanlegar og allt verður þetta sem framan er sagt svo dýrmætt í minningarbankanum.

Svo gerðist það að ferðum Einars tók skyndilega að fækka til okkar á Heiði og ástæðan reyndist mjög ánægjuleg, ung vinnukona, Petra var kominn að Sólheimahjáleigu og Einar farinn að bjóða henni í reiðtúra áfallegu vorkvöldi og fljótlega voru þau sest í bú á Sólheimum og fjölskyldan stækkaði hratt og fjögur börn fljótlega komin til sögunnar, sem bera foreldrum sínum einstaklega fallegt vitni um gagnlegt og gott uppeldi. Kæri vin, þó samverustundunum okkar fækkaði með árunum, þá varðveittist vinskapurinn og trúnaðurinn óskertur og fyrir það þakka ég af heilum hug á þessari stundu. Sumarlandið hefur nú fengið dyggan þjón með þér sem hugsar klárlega meira um meira um aðra en sjálfan sig, eins og þú gerðir meðan þú varst á meðal okkar sem eftir lifa. Gott geymi þig vinur minn.

Elsku Petra og fjölskylda við Sigga sendum ykkur öllum okkar dýpstu samúð og biðjum góðan guð að styrkja ykkur í sorginni.

Hermann Árnason.