Össur Kristinsson stoðtækjafræðingur fæddist í Reykjavík 5. nóvember 1943. Hann lést 6. febrúar 2024.

Foreldrar Össurar voru Kristinn Ólafsson verkamaður frá Kiðafelli í Kjós og Lilja Össurardóttir Thoroddsen saumakona, fædd í Örlygshöfn. Systur Össurar voru Hrafnhildur Thoroddsen, f. 1935, d. 2013, og Ingibjörg Kristinsdóttir, f. 1945, d. 2023.

Eiginkona Össurar var Björg Rafnar læknir, f. 1945, d. 2017. Börn þeirra eru Bjarni, f. 1968, maki Sigrún Þorgeirsdóttir, og Lilja, f. 1969, maki Bjarni H. Ásbjörnsson. Össur og Björg eiga fimm barnabörn og þrjú barnabarnabörn.

Össur nam stoðtækjafræði í Stokkhólmi, Svíþjóð. Hann stofnaði stoðtækjafyrirtækið Össur hf. árið 1971 og bátaþróunarfyrirtækið Rafnar árið 2005.

Útförin fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 19. febrúar 2024, klukkan 13.

Í dag kveðjum við elsku tengdapabba. Hann gerði lífið okkar betra, stærra og jafnvel stundum ævintýralegt. Til dæmis þegar dætur okkar fóru á köfunarnámskeið með ömmu sinni og afa og upplifðu undur Karíbahafsins. Eða þegar þær syntu með hvalhákörlum við strendur Mexíkó. Ævintýri sem ekki gleymast.

Össur var einstakur afi og það sama má sannarlega segja um ömmu Björgu. Þegar við komum með stelpurnar okkar í heimsókn var hreinlega eins og við værum að koma með sólina inn húsið. Afinn, sem átti það til að vera í eigin heimi við tölvuna eða að lesa, umbreyttist þegar hann sá barnabörnin sín. Það hafa víst ekki fæðst önnur eins börn á jarðríki og barnabörnin þeirra. Það er mjög dýrmætt sem foreldri að upplifa það að aðrir sjái börnin manns sem alveg einstök. Það er ekki síður dýrmætt fyrir börnin, sem finna til svo mikils öryggis og gleði þegar þau geta fölskvalaust verið þau sjálf. Þegar dætur okkar voru á Sæbólsbrautinni fengu þær alla þeirra athygli. Það var lesið, spjallað, horft saman á bíómyndir og snúist í kringum þær eins og ekkert væri sjálfsagðara. Stundum þótti okkur nú nóg um.

Ég fékk tvö tækifæri til að vinna með tengdapabba sem verkefnastjóri þegar farið var með gervifætur til bæði Gasa í Palestínu og Botsvana. Það var magnað að sjá hann við iðn sína en ekki síður að sjá áþreifanlega hvernig störf hans, hugvit og óendanleg þrautseigja hefur aukið lífsgæði svo margra.

Ég kveð minn góða tengdapabba með söknuði og miklu þakklæti. Þó að hann hafi á stundum verið hrjúfur á yfirborðinu leyndist engum sem hann þekkti að undir niðri var stórt hjarta og engan þekki ég örlátari. Við vorum alltaf góðir vinir og ótal margt gott og gefandi hefur á dagana drifið frá því að ég fyrst kom 16 ára inn í fjölskylduna. Samfara versnandi heilsu síðastliðið ár hittumst við óvenju oft og ég er þakklát fyrir að hafa getað verið til staðar fyrir hann síðasta spölinn.

Hvíl í friði, minn kæri tengdapabbi.

Sigrún.

Íslendingar hafa notið þeirrar einstöku velvildar forlaganna að á undanförnum 80 árum hafa komið fram hjá þjóðinni einstaklingar með sjaldgæfa eiginleika sem hafa haft áhrif langtum víðar en þessi þjóð gat vænst. Það hafa fæðst frábærir rithöfundar sem hafa auðgað líf fjölda fólks um allan heim, tónlistarmenn sem á sinn hátt hafa breitt út fagnaðarerindi tónlistarinnar til hundraða þúsunda og merkar uppgötvanir hafa verið gerðar á Íslandi í erfðafræði. Ef til vill er mesta bót sem Íslendingur hefur unnið öðrum á okkar kynslóð gervilimir Össurar hf. Hundruð þúsunda, jafnvel milljónir, í stríðshrjáðum heimi hafa öðlast nýja lífsvon fyrir uppfinningar vinar míns Össurar Kristinssonar, sem nú hefur haldið á önnur mið.

Síðustu áratugi helgaði hann starfskrafta sína þróun á nýjum skipakili sem nú er farin að bera ríkulegan ávöxt og myndi ein sér nægja til að halda nafni hans á loft.

Við Össur urðum vinir 13 ára og sú vinátta hélst allt okkar líf. Hann var viss örlagavaldur í lífi mínu er ég hélt í kjölfar hans til náms í Svíþjóð og þar áttum við saman frábær þrjú ár, kynntumst Bach, Mahler og sænsku trúbadorunum, og brölluðum margt saman þar til ég fór aftur til Íslands. Eitt af því sem einkenndi Össur alla tíð var að hann valdi aðeins það besta. Í Stokkhólmi kynntumst við tveimur yndislegum hjúkrunarkonum. Önnur þeirra var Björg ástin hans og áttu þau farsælt líf saman. Ég veit ekki hvort hann leit marga glaða daga eftir að hún kvaddi fyrir nær sjö árum. Von mín er að þau hittist nú að nýju. Hafðu einlæga þökk fyrir þína vináttu, minn kæri.

Ármann Örn Ármannsson, fv. framkvæmdastjóri
Ármannsfells hf.

Össuri Kristinssyni kynntist ég 1977 en hann hafði yfirburðafærni sem stoðtækjafræðingur, og hans ástríða var hönnun og endurbætur á tækni og útfærslum á stoðtækjum. Þegar ég kynnist þjónustu Össurar fyrir rúmum 46 árum var verið að nota sömu tækni og var notuð fyrir seinni heimsstyrjöld. Össur Kristinsson þróaði og framleiddi sílikonhulsuna, sem ég fæ að kynnast 1983, sem seinna skapar grunn að hátæknifyrirtækinu Össuri. Hann fylgist með mér, hvernig gekk á þessari nýju lausn, sílikonhulsu, meðan ég var í Danmörku 1983-85. Naut ég hans þjónustu meðan hann vann hjá Össuri, en hann kom meðal annars heim til okkar á Akranes til að taka gifsmót fyrir nýja lausn. Með hlýju kveð ég Össur Kristinsson sem hefur sett sitt mark á íslenskt atvinnulíf síðustu áratugi, og mun gera um ókomin ár. Takk Össur Kristinsson.

Ragnar Hjörleifsson.

Össur Kristinsson var hugsjónamaður og frumkvöðull á alla lund. Hann var kraftaverkamaður á sviði stoðtækja. Hann stofnaði fyrirtækið Össur hf. fyrir 53 árum með það að markmiði að auka lífsgæði fólks. Hann byggði þar á eigin reynslu af notkun stoðtækja og námi í stoðtækjasmíði í Svíþjóð. Össur birtist með lausnir sem hafa aukið lífsgæði ótal einstaklinga um allan heim. Sífellt komu nýjar hugmyndir úr smiðju hans og það sem meira er, hann raungerði þær í nýjum tækjum og lausnum. Fyrirtækið Össur hf. varð leiðtogi á heimsvísu í þessum afar sérhæfðu vörum sem hafa auðveldað svo mörgum lífið. Hann var einstaklega fylginn sér, hafði ekki hátt um hugmyndir sínar, en vann ótrauður að því að hrinda þeim í framkvæmd, háþróuðum nýjungum til að greiða fólki leið að lífi með sem minnstum hömlum.

Á hverjum tíma eru margir áberandi einstaklingar í lífi hverrar þjóðar. Framganga þeirra er jafn misjöfn og einstaklingarnir eru margir. Margir glamra, aðrir hafa hægt um sig. Tíminn breiðir blæju sína yfir athafnir allra og orð. Um síðir sefur allt í jörðu, og flestir eru gleymdir innan tíðar. Össur Kristinsson er einn af þeim fáu sem létu að sér kveða í samtíð sinni sem lifa mun lengi í verkum sínum þótt hann hefði ekki hátt á torgum. Fari hann nú sæll. Starfsfólk Össurar hf. þakkar honum samfylgdina og sendir ástvinum hans einlægar samúðarkveðjur.

Sveinn Sölvason.

Einn af mestu velgjörðarmönnum fólks með bæklanir er fallinn frá. Stoðtækjasmiðurinn og hugvitsmaðurinn Össur Kristinsson innleiddi nýjungar sem ollu byltingu í meðferð fólks sem misst hefur útlimi, ekki aðeins því fólki sem á býr Íslandi heldur líka um heim allan. Össur festi að auki stefnu í fjárhagsáætlun fyrirtækis síns, Össurar hf., drjúgt árlegt framlag til rannsókna og þróunar á sviði stoðtækja. Sú stefna var öðrum fyrirtækjum til eftirbreytni, ef þau ætluðu sér að vera samkeppnishæf.

Þannig varð fyrirtækið Össur hf. leiðandi afl í þeim stórstígu framförum í gerð stoðtækja sem áttu sér stað á síðustu áratugum og þann grundvöll lagði Össur Kristinsson.

Össuri kynntist ég fyrst árið 1976, þegar ég starfaði sem endurhæfingarlæknir á Landspítalanum, en hann var sá stoðtækjasmiður sem ég leitaði mest til.

Við vorum ekki alltaf sammála um hverjir væru bestu gervilimirnir eða spelkurnar fyrir sjúklinga okkar. Hann hafði hlotið menntun sína í Svíþjóð en ég í Bandaríkjunum á heimsfrægri stofnun, New York University, en þar hafði ég jafnframt kennt stoðtækjafræði.

Því fann ég svolítið til mín þegar ég var að ræða málin við Össur, en hann hafði þá oft á orði: „Já, þetta er líklega í lagi, en það getur verið enn betra.“

Á þeim tíma hugsaði ég að það væri nokkuð erfitt að gera honum til geðs. En síðar kom í ljós að hann hafði rétt fyrir sér!

Eftir að ég sneri aftur til starfa í New York stakk ég upp á því við Össur að hann kæmi á tveggja vikna námskeið fyrir stoðtækjasmiði við New York University.

Hann kom og sótti námskeiðið, hlustaði af áhuga en benti þó prófessorunum á ýmsa vankanta í hönnun gervilima, einkum fyrir fólk sem misst hefur fótlegg ofan hnés. Þeir háu herrar, prófessorarnir, hlustuðu af athygli á Össur og með þeim tókst fljótlega hin ágætasta samvinna. Samstarf þetta leiddi til nýrrar lausnar í hönnun sem skjótt breiddist út um allan heim, hönnunar gervilima ofan hnés, kölluð ISNY (stytting á Ísland-NewYork).

Í kjölfarið fylgdi svo meistaraverk Össurar; þróun og uppfinning sílikonhulsunnar í stað ullarsokkanna til að fylla eða minnka bilið milli húðar og innri hliðar gervilims og þannig minnka eða eyða óþægindum notandans. Þessi uppfinning Össurar olli byltingu í meðferð fólks sem misst hefur útlimi, sem gat nú vel flest gengið á eðlilegan hátt.

Óhætt er að segja að Össur Kristinsson hafi afrekað mikið um ævina, en aldrei heyrði ég hann segja eitt orð um afrek sín. Hugur hans var allur við næsta verkefni eða það sem hann var að vinna að þá stundina. Eftir að hann hætti í stjórn Össurar hf. sneri hann sér að hönnun á skrokki og kili báta og skipa.

Sem læknir og fv. stjórnarmaður í Össuri hf. sagði ég Össuri í samtölum okkar að ég hefði heldur meiri áhuga á framlagi hans til stoðtækja. Eitt sinn minntist ég á við hann að hann hefði fæðst með skertan fótlegg neðan hnés fyrir atbeina æðri máttarvalda svo hann gæti beint hugviti sínu til að hjálpa öðrum með svipaðar bæklanir. Hann tók þessari getgátu minni heldur fálega!

Utan starfs síns var Össur mikill fjölskyldumaður, eiginkonan Björg heitin læknir, börn þeirra, tengdabörn, barnabörn og ættmenni.

Við Hrafnhildur vottum eftirlifendum dýpstu samúð.

Kristján Tómas Ragnarsson.

Nú er hann fallinn frá hann Össur Kristinsson. Hann var mikill örlagavaldur í lífi okkar beggja. Vilhjálmur byrjaði að starfa hjá honum 1984 og Guðmundur 1987. Össur var ekki vanur að tala mikið við þá sem voru nýbyrjaðir en á fyrstu vikum eftir að við hófum störf vorum við farnir að vinna mikið með honum. Hann hvatti okkur til að fara í háskóla í Jönköping og læra stoðtækjasmíði sem við gerðum og hann hvatti okkur allan tímann. Á þessum tíma voru töluverður erfiðleikar í fyrirtækinu og þegar við stunduðum nám í Svíþjóð vorum við mikið á ferðinni á milli landa þessi tvö ár. Við vorum í skóla en mestmegnis við vinnu á Íslandi. Krafturinn í Össuri hefur alltaf verið okkur hvatning til að gera betur. Með tímanum urðum við mjög góðir vinir og þó að við værum ekki alltaf sammála þá skildum við alltaf sáttir. Stoðtækjaheimurinn á Össuri mikið að þakka með þeim uppfinningum og framförum sem hann stóð fyrir í smíði stoðtækja. En stærsta breytingin var þegar sílikonhulsan kom á markað í lok 1987 en Össur hafði verið að vinna að þessari lausn í nokkur ár í Svíþjóð.

Á árunum 1987 til 1993 urðu gríðarlegar breytingar hjá Össuri. Við vorum sjö þegar Vilhjálmur byrjaði og 14 þegar Guðmundur kom í fyrirtækið, en fljótlega fjölgaði þegar farið var að fjöldaframleiða sílikonhulsuna og síðan koma hliðarvörur. Það voru oft spennandi dagar þegar maður kom í vinnu. Össur kom eins og stormsveipur inn á gólf og sagðist hafa fengið hugmynd og síðan fór allur dagurinn í að prófa nýja hluti. Sumt gekk og annað ekki.

Oft gekk mikið á inni á verkstæðinu því einnig var verið að vinna fyrir einstaklinga sem vildu fá skjóta þjónustu. Einstaklingar voru alltaf númer eitt hjá Össuri, hann vildi alltaf gera betur og betur. Vilhjálmur færðist seinna í starfi og var seinustu árin í markaðs- og söludeild. Guðmundur hefur alltaf verið á verkstæðinu að þjónusta skjólstæðinga.

Guðmundi er minnisstæð ferð til Pakistans. Össur hringdi í hann, en þá var hann með fyrirtæki sem hét OK prosthetics sem tók að sér verkefni erlendis. Hann bauð Guðmundi að koma í þetta ævintýri til Lahore að smíða fætur í rúmar tvær vikur og fóru þeir nokkrir til Lahore. Össur fékk okkur í alls konar ævintýri á þessum árum, við lærðum mikið af honum og eigum honum mikið að þakka. Við sendum samúðarkveðjur til fjölskyldunnar.

Össur, takk fyrir allt og allt, hvíl í friði kæri vinur.

Guðmundur Jakobsson og Vilhjálmur
Guðjónsson.