Gerendur Greina má mismunandi þjóðarkarakter meðal gerenda.
Gerendur Greina má mismunandi þjóðarkarakter meðal gerenda. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Klara Ósk Kristinsdóttir klaraosk@mbl.is

Klara Ósk Kristinsdóttir

klaraosk@mbl.is

Greina má mismunandi þjóðarkarakter meðal gerenda stafræns ofbeldis auk þess sem hægt er að sýna fram á skýr tengsl milli ákveðinnar tegundar stafræns ofbeldis og rómantískra sambanda. Þetta er meðal niðurstaðna rannsóknar sem framkvæmd var með það að markmiði að varpa ljósi á gerendurna á bak við typpamyndir, myndrænt kynferðisofbeldi og hótanir í garð þolenda á netinu.

Um er að ræða rannsókn sem framkvæmd var af samtökunum Nordref, eða Nordic Digital Rights and Equality Foundation, á árunum 2021-2023, bæði á Íslandi, í Danmörku og Svíþjóð. Þórdís Elva Þorvaldsdóttir stjórnarformaður Nordref segir að í upphafi rannsóknarinnar hafi ekki verið lagt af stað með neinar fyrirframgefnar hugmyndir, hins vegar hafi fljótlega komið í ljós að stúlkur eru í miklum meirihluta þeirra sem verða fyrir hvers kyns ofbeldi á netinu og meirihluti gerenda því karlmenn eða drengir.

„Mér fannst athyglisvert að sjá hvað það eru skýr tengsl milli ákveðinna tegunda ofbeldis og rómantískra sambanda. Mér fannst sláandi að sjá að þeir sem eru að hóta konum, dreifa af þeim nektarmyndum og reyna að niðurlægja þær með þeim hætti, hafa af þeim völd og öryggi, eru í langflestum tilfellum einhverjir sem konurnar hafa átt í ástarsambandi við,“ segir Þórdís spurð hvað henni hafi þótt athyglisverðast við niðurstöður rannsóknarinnar.

Þórdísi þótti jafnframt athyglisvert að sjá mismunandi þjóðarkarakter meðal gerenda. Hún tekur gerendurna á bak við óumbeðnar typpamyndir sem dæmi og útskýrir að niðurstöður rannsóknarinnar sýni fram á að karlmenn eða drengir í Svíþjóð beri fyrir sig aðrar ástæður að baki óumbeðnu myndsendingunni en karlmenn eða drengir á Íslandi. Til útskýringar segir hún að íslenskir drengir hafi oft borið fyrir sig reiði eða andlega vanheilsu, þess vegna hafi þeir hótað eða niðurlægt konur á netinu, á meðan sænskir gerendur í kynferðislegum áreitnimálum bera fyrir sig ákveðið vammleysi; þeim hafi ekki gengið neitt slæmt til og því hafi ekki verið um ásetningsglæp að ræða. Þeir hafi einungis verið að kanna vilja þess sem fékk myndsendinguna, segir hún.

Skilvirkar forvarnaraðgerðir

Þórdís segir niðurstöðurnar vekja spurningar um hvort karlmenn og drengi skorti tilfinningalega færni, hvort sem það er til að takast á við erfiðleika, höfnun, ástarsorg eða annað. „Karlmenn og drengi virðist skorta þessa færni í stórum stíl og þá falla þeir í þá gryfju að rasa út með þessum hætti,“ segir Þórdís.

Nú þegar niðurstöðurnar liggja fyrir segir Þórdís mikilvægt að þær verði nýttar til góðs, nýttar til að útbúa skilvirkar forvarnaraðgerðir og freista þess að vinna bug á ofbeldi sem þessu. Þórdís segir það einmitt næsta skref Nordref og að þau gögn sem hópurinn býr nú yfir muni nýtast þeim til að útbúa slíkar forvarnaraðgerðir.

„Við leggjum áherslu á það sem samfélag að forða börnunum okkar frá því að verða fyrir ofbeldi, en það gleymist að okkur ber líka skylda til að forða þeim frá því að verða gerendur,“ segir Þórdís til að leggja áherslu á mikilvægi þess að gripið verði til markvissra aðgerða gegn ofbeldi á netinu.

Eins og fram hefur komið er um að ræða niðurstöður rannsóknar sem Nordref hefur unnið að frá árinu 2021. Rannsóknarniðurstöðurnar hafa ekki enn verið kynntar opinberlega en í dag, milli klukkan 9.00 og 11.00, verða þær kynntar í sal Þjóðminjasafnsins. Það verða leiðandi sérfræðingar á sviði stafrænna réttinda á Norðurlöndunum sem kynna niðurstöðurnar, þau Christian Mogensen, sérfræðingur í tæknisendiráði Danmerkur, dr. María Rún Bjarnadóttir, yfirmaður netöryggismála hjá ríkislögreglustjóra, og prófessor Moa Bladini hjá Gautaborgarháskóla.