Erla Elíasdóttir fæddist 10. september 1932 á Ytra-Lágafelli í Eyja- og Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Eir 6. febrúar 2024.

Foreldrar hennar voru Elías Kristjánsson, f. 30. júní 1880, d. 10. desember 1938, og Sara Magnúsdóttir, f. 20. apríl 1908, d. 13. mars 1995.

Alsystkini Erlu eru Sigríður Guðrún, f. 7. júlí 1934, Magnús, f. 7. september 1935, og Elías Fells, f. 27. febrúar 1937, d. 25. apríl 2023.

Samfeðra systkini Erlu sem öll eru látin eru: Kristján, f. 6. ágúst 1911, d. 12. desember 1988. Vigdís Auðbjörg, f. 31. janúar 1914, d. 12. júní 1965. Jóhanna Halldóra, f. 19. júní 1915, d. 24. júní 2008. Stúlka, f. 1916, d. 1916. Hulda Svava, f. 12. ágúst 1917, d. 3. maí 2002. Jóhannes Sæmundur, f. 19. apríl 1920, d. 21. apríl 1921. Matthildur Valdís, f. 21 mars 1923, d. 23. febrúar 2018. Unnur, f. 23 mars 1926, d. 27. júlí 2020. Stúlka, f. 15. október 1928, d. 15. október 1928.

Eiginmaður Erlu var Jón Ragnar Einarsson, f. 21. október 1928, d. 9. september 2018. Þau gengu í hjónaband 11. september 1954. Börn Erlu og Jóns Ragnars eru fjögur: 1) Bergljót, f. 13. mars 1954, maki Oddur Bjarnason, f. 10. apríl 1935. 2) Valgerður, f. 22. október 1958, maki Guðmundur Emilsson, f. 24. apríl 1951, þau skildu. 3) Fullburða, andvana fætt stúlkubarn janúar 1965. 4) Einar Steinþór, f. 28. ágúst 1966, maki Erna Lúðvíksdóttir, f. 25. nóvember 1965, þau skildu. Unnusta Einars Steinþórs er Arnhildur Reynisdóttir, f. 6. september 1964.

Erla og Jón Ragnar eiga fjögur barnabörn: Æsu Björk, f. 20. ágúst 1970; Jón Emil Guðmundsson, f. 10. júlí 1985, maki Dórótea Høeg Sigurðardóttir, f. 9. apríl 1986; Álfheiði Erlu Guðmundsdóttur, f. 2. desember 1993, unnusti Valgeir Daði Einarsson, f. 7. júlí 1993; Jón Ragnar Einarsson, f. 24. júní 2004. Barnabarnabörn Erlu og Jóns Ragnars eru Sigurður Høeg Jónsson, f. 29. júlí 2017, Ragnar Høeg Jónsson, f. 21. júlí 2019, og Unnsteinn Emil Valgeirsson, f. 16. október 2022.

Erla ólst upp á Ytra-Lágafelli til sautján ára aldurs en þá flutti Sara með börnin sín til Hafnarfjarðar. Tvítug fluttist Erla með Jóni Ragnari manni sínum að Lambhól í Skerjafirði. Lengstan part ævi sinnar bjuggu þau svo saman á Seltjarnarnesi og síðustu æviárin í Sólheimum, Reykjavík.

Erla gekk í húsmæðraskólann í Hveragerði, sótti fjölda námskeiða í hannyrðum og lauk prófi frá Ritaraskólanum. Erlu var margt til lista lagt og hafði hún mikla gleði af hannyrðum af ýmsu tagi. Eftir hana liggja fagurlega ofin teppi, bútasaumur og prjón. Hún var eðalsaumakona og starfaði við það um tíma. Erla starfaði einnig sem matráðskona í Kjarvalshúsi (Ráðgjafar- og greiningarstöðin) þar sem hún nærði og hlúði að foreldrum sem biðu eftir börnum sínum. Erla lauk starfsævi sinni við ræðuritun á skrifstofu Alþingis.

Á efri árum naut Erla þess að hlúa að æskustöðvunum en þar dvöldu þau Jón Ragnar langtímum saman á meðan heilsa leyfði.

Útför Erlu fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 19. febrúar 2024, og hefst athöfnin klukkan 13.

Ég sé þig enn

með innri augum mínum

og allt í grafarþögn,

þá finn ég líka ögn

af öðrum heimi

og andardrætti þínum.

(Matthías Johannessen)

Kveðjustundin er komin elsku mamma og þú flogin vestur á Lágafellið. Þar dvaldi hugur þinn löngum hin síðustu ár, því mörgu þurfti að hlúa að. Þaðan voru líka minningabrotin þín sem lifðu lengst. Þar nærði þig þinn móður- og föðurkærleikur og þar upplifðir þú djúpa gleði og sorg.

Á meðan stætt var og heilsan leyfði dvölduð þið pabbi fyrir vestan til að njóta og til að búa í haginn fyrir okkur. Af alúð ræktuðuð þið jörðina og hélduð við húsakynnum svo að við börnin ykkar og barnabörn fengjum notið sælustunda í sveitinni áhyggjulaus.

Já okkur öll verndaðir þú undir mjúkum væng af kærleika og rósemi. Við nutum alltumvefjandi móðurástar yfir höf og lönd, alltaf varstu til staðar. Því litar þakklætið nú dagana og reynir að fylla tómarúmið og sorgina sem grafarþögnin skilur eftir.

Ég er þakklát fyrir að hafa fæðst þér og pabba. Þakklát fyrir endalausa góðvild, umhyggju og umburðarlyndi. Þakklát fyrir öryggið sem ég naut á fallegu heimilinu sem þið pabbi bjugguð okkur. Þakklát fyrir umönnun barnanna minna þegar á þurfti að halda, hvatninguna og stuðninginn þegar á móti blés.

Þakklát fyrir fegurðina sem þú gafst mér hlutdeild í og æðrulausa sýn þína á lífið og tilveruna sem kenndi og gaf svo margt. Já þú varst gáfuð og dyggðum prýdd kona og lífsgildin þín fyrirmynd í svo mörgu elsku mamma. Þú varst líka mikil listakona, allt lék í höndunum á þér. Þú gast hannað, ofið, prjónað og saumað, leikið á gítar og sungið, skrifað fallegan texta og matseldin þín og baksturinn lifir í minningunni, tengd ljúfum fjölskyldustundum í hlýjum faðmi ykkar pabba.

Elsku mamma, í þakklæti geymi ég í hjarta mér elsku þína. Mildu, kærleiksríku augun þín og andardrátturinn fylgir mér þar til við föðmumst á ný í eilífðarljósi.

Máríuerlan mildum augum ber

fjöll og dali í fylgd með sér.

(Matthías Johannessen)

Valgerður Jónsdóttir.

Elsku amma.

Á þessari kveðjustund hugsa ég um Selbrautina. Minningarnar leita fyrst niður í fjöru þar sem við röltum um og rannsökuðum pollana og steinvölurnar. Síðan klöngrast þær varfærnislega upp steinvegginn og skoða baldursbrána og valmúann sem óx meðfram grjótinu. Afi kemur með flóðinu og býður okkur í bátsferð niður á Ægisíðu. Um kvöldið kemur óveður sem sendir okkur niður í dularfulla kjallarann í leit að flekum til að byrgja fyrir stofugluggann. Kleópatra liggur í græna sófanum og fylgist með okkur innan úr hlýjunni. Það er steiktur fiskur í matinn sem þú eldar. Bæði kettir og menn eru sáttir með sitt.

Selbrautin var griðastaður. Leikland í veröld sem var stundum örlítið flóknari. Þar voruð þið afi alltaf tilbúin að passa mig og þar fannst mér best að vera. Nú eruð þið saman á ný, eflaust byrjuð að smíða nýja Selbraut. Ég hlakka til að sjá hana.

Þið fylltuð heimilið ykkar af ævintýrum sem við börnin fengum að kanna á eigin forsendum. Þið kennduð okkur að skauta, að klifra í klettum, að tína ber og að baka kleinur. Þið sýnduð okkur hvað það er hægt að hafa mikið gaman í látlausum tjaldferðalögum og að allt sé hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Ég hugsa um fallega eldhúsið ykkar sem þú hannaðir og afi smíðaði; um messing-reykháfinn sem hékk yfir eldavélinni og tónaði svo vel við dökkbrúnu skápana. Ég hugsa um eldhúsbúrið þangað sem ég stalst oft í leit að góðgæti og um frábæra klifurvegginn sem þið höfðuð (kannski óvart) reist í kringum arininn. Hvað ætli þú hafir tekið þátt í mörgum feluleikjum sem enduðu í skotinu á bak við hornsófann?

Önnur minning situr í gamla Land Cruisernum niðri í Vonarstræti þar sem við afi bíðum eftir þér á meðan þú klárar vinnudaginn á skrifstofu Alþingis. Afi segir einhvers konar brandara um ykkur, kallar þig gamla brýnið, rétt áður en þú kemur inn í bílinn og býður mér bláan ópal.

Það var svo skýrt að hjónaband ykkar var sterkt. Þið báruð virðingu fyrir lífinu og fyrir samferðamönnum ykkar. Þið voruð jafnframt hreinskilin og óhrædd við að benda á það sem mátti betur fara, stundum með kómískum afleiðingum. Þið voruð hugrökk og þið voruð miklar fyrirmyndir.

Þú og afi gáfuð mér svo mikinn tíma og svo margar yndislegar stundir. Mér eru minnisstæð ferðalögin sem við þrjú fórum vestur á Lágafell. Sérstaklega ferðin þar sem bíllinn festist í skafli en við brugðum bara á það ráð að afferma bílinn og ganga síðasta spölinn með matarbirgðirnar í snjóþotunni. Í þessari sömu ferð grófum við risastórt snjóhús í skaflana milli hússins og hlöðunnar.

Ég er þakklátur fyrir öll fallegu fötin sem þú saumaðir á mig. Allar risaeðlu- og fótboltakökurnar sem þú bakaðir og skreyttir. Ég sakna þess að koma til þín í lambalæri með brúntertu í eftirrétt. Þú settist svo seint við matarborðið vegna þess að þér var umhugað um að við hefðum allt sem við þurftum. Við vorum alltaf í fyrsta sæti hjá þér.

Elsku amma, nú ert þú búin að loka fallegu brúnu augunum þínum en augun hans Sigga míns munu alltaf minna mig á þig.

Jón Emil Guðmundsson.