Kristján Ottósson fæddist 16. júlí 1937. Hann lést 31. desember 2023.

Útför Kristjáns fór fram í kyrrþey.

Það var einkennileg tilfinning fyrir unglinginn að mæta föður kærustunnar í dyrunum á kjallaraíbúðinni. „Já sæll vertu, ertu að koma af karateæfingu? Ég kann þetta, lærði það hjá kananum,“ sagði pabbi hennar og bókstaflega henti mér með þessum orðum inn í fjölskylduna.

Kristján Ottósson var ekki maður mjúkra samtala, hann var maður framkvæmda og á sinn hátt sýndi hann væntumþykju ef maður fékk nýtt verkefni. Þá hafði ég sennilega gert eitthvað rétt.

Að koma svona ungur og óharðnaður inn í fjölskylduna hjá Kristjáni og Þóru var stundum eins og að vera með aukahlutverk í ævintýramynd. Aldrei logn og heldur ekki rok, bara innlögn en alltaf var sól út við Nes.

Þú ert samt ekki alveg orðinn harðnaður unglingur fyrr en það er búið að fara með þig fyrir Nes og leggjast í lautina við Hamarinn. Stoppa í fjörunni við Skútabjörgin og hlusta á hina einu sönnu kassettu með dúndrandi harmonikkumúsík. Sama tónlistin sem flæktist á milli allra bíla Kristjáns.

Frásagnargleði Kristjáns var mikil, enda kunni hann deili á öllum örnefnum og sögum sinnar sveitar. En stundum var ferðahugurinn svo mikill að hann gleymdi öllu sem heitið gat matur. Þá sannaðist það enn og aftur að í kringum Kristján var valinn maður í hverju hlutverki. Eitt þeirra hlutverka var að lesa manninn og átta sig á hvert stefndi, Þóra vissi það löngu áður en Kristján að hann var að fara af stað í bíltúr. Hún bara setti saman nesti og kom með og bjargaði karli fyrir horn.

Fjölskyldurækni var Kristjáni í blóð borin enda kominn úr stórum uppeldishópi og eiga margir góðar minningar um skyndiheimsóknir Kristjáns sem ósjaldan fylgdu óumbeðnar ráðleggingar og tilsögn, áður en síðasta kleinan hvarf og Kristján horfinn af stað í sínu flakki.

Alla tíð fylgdist hann vel með sínu fólki og veit ég hvað hann var stoltur af öllum afa- og langafabörnunum sem öll virðast hafa erft forystugenið að vestan.

Þegar heilsu fór að halla hjá Kristjáni reyndu þau hjónin af fremsta megni að halda fast í hefðina og dvöldu í Dýrafirði sumarlangt. Þrátt fyrir heilsubrestinn var ekki svikist um að sækja akademíska morgunfundi í sundlaug Þingeyrar, enda finnast varla tryggari vinir en fólkið hans að vestan, þótt orðræðan sé stundum ekki fyrir alla.

Minning þín er mér ei gleymd;

mína sál þú gladdir;

innst í hjarta hún er geymd,

þú heilsaðir mér og kvaddir.

(Káinn)

Ég lýt höfði og þakka fyrir ferðalagið.

Siggi hennar Þórunnar hans Kristjáns frá Svalvogum,

Sigurður M.
Harðarson.