Guðrún Hafsteinsdóttir
Guðrún Hafsteinsdóttir
Frumvarpið kveður á um heimildir lögreglu til aðgerða í þágu afbrotavarna, eflir eftirlit með störfum lögreglu og hefur að geyma lagafyrirmæli um vopnaburð lögreglumanna.

Guðrún Hafsteinsdóttir

Umfang og eðli skipulagðrar brotastarfsemi hafa á síðustu árum tekið verulegum breytingum hér á landi til hins verra. Skýr dæmi eru um að hópar innlendra jafnt sem erlendra aðila hafa það að atvinnu að fremja fjölda afbrota með skipulegum hætti. Þetta eru til dæmis alvarleg ofbeldisbrot, þjófnaður, fjársvik, fíkniefnabrot og peningaþvætti. Af þessu hef ég miklar áhyggjur og tel nauðsynlegt að mæta þessari stöðu með markvissum aðgerðum til að varna afbrotum enda eru afbrotavarnir lykilatriði til að halda uppi allsherjarreglu og lögum í landinu.

Vegna þessa mun ég mæla fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögreglulögum á Alþingi í dag. Frumvarpið kveður á um heimildir lögreglu til aðgerða í þágu afbrotavarna, eflir eftirlit með störfum lögreglu og hefur að geyma lagafyrirmæli um vopnaburð lögreglumanna. Frumvarpið er afrakstur vinnu dómsmálaráðuneytisins sem staðið hefur yfir undanfarin ár og varðar greiningu og endurskoðun á þeim lagaheimildum sem lögregla hefur til að grípa til aðgerða í þágu afbrotavarna, einkum í því skyni að stemma stigu við skipulagðri brotastarfsemi og brotum sem raskað geta öryggi borgaranna og ríkisins.

Íslensk lögregla hefur takmarkaðar heimildir

Að gefnu tilefni er mikilvægt að fram komi að þetta frumvarp fjallar ekki um svokallaðar forvirkar rannsóknarheimildir auk þess sem lögregla fær ekki heimild til þvingunarráðstafana, svo sem húsleitar, líkamsleitar eða símhlustunar, nema að afar takmörkuðu leyti eða einungis haldlagningar að undangengnum dómsúrskurði.

Í frumvarpinu er sérstaklega fjallað um lagaheimildir lögreglu hér á landi og þær bornar saman við heimildir lögreglu annars staðar á Norðurlöndunum. Af þeim samanburði er ljóst að starfsumhverfi, stofnanauppbygging og lagaheimildir lögreglu á sviði afbrotavarna eru mun takmarkaðri hér á landi en í nágrannaríkjum, einkum að því er varðar öryggi ríkisins. Segja má að með samþykkt frumvarpsins verði í raun engin breyting þar á en stigið verður hins vegar mikilvægt skref í þá átt að lögregla geti unnið með markvissari hætti í þágu almennra afbrotavarna, sem og til að sporna gegn skipulagðri brotastarfsemi og tryggja öryggi ríkisins og almennings.

Þrjú meginatriði frumvarpsins

Í grófum dráttum má greina þær heimildir sem frumvarpið hefur að geyma í þrennt: Í fyrsta lagi er verið að skjóta skýrri lagastoð undir heimild lögreglu til að afla og nýta upplýsingar sem hún býr yfir í því skyni að stemma stigu við afbrotum. Í því felst heimild til að nýta upplýsingar til greiningar en jafnframt að afla upplýsinga með almennum aðgerðum í þágu afbrotavarna, þ. á m. með því að hafa eftirlit á almannafæri, vakta vefsíður sem opnar eru almenningi og með samskiptum við uppljóstrara. Aðgerðir af þessu tagi verða ekki taldar með tæmandi hætti og er því gert ráð fyrir því í frumvarpinu að þær verði nánar útfærðar í reglugerð sem ráðherra setur. Til viðbótar er kveðið á um sérstaka heimild fyrir lögreglu til að afla upplýsinga frá öðrum stjórnvöldum og stofnunum ef upplýsingarnar eru nauðsynlegar og til þess fallnar að hafa verulega þýðingu fyrir störf hennar í tengslum við rannsókn alvarlegra brota gegn öryggi ríkisins, eða til að afstýra slíkum brotum.

Í annan stað er mælt fyrir um afmarkaða heimild lögreglu til að hafa eftirlit með einstaklingum sem tengjast skipulögðum brotasamtökum eða sem sérgreind hætta kann að stafa af fyrir öryggi ríkisins eða almenning. Kjarninn og mikilvægi þessarar heimildar felst í því að lögreglu verður kleift að hafa eftirlit með slíkum einstaklingum án þess þó að þeir séu grunaðir um tiltekið brot. Aðalatriðið er að fyrir liggi áreiðanlegar upplýsingar um að viðkomandi hafi annaðhvort tengsl við skipulögð brotasamtök eða af honum kunni að stafa sérgreind hætta. Með þessu er skotið lagaheimild fyrir aðgerð sem almennt er nefnd skygging og hefur m.a. það að markmiði að staðreyna grun um afbrot. Hingað til hefur verið vafi um heimildir lögreglu að þessu leyti en til samanburðar hefur þótt sjálfsagt að blaðamenn fylgist með fólki á almannafæri.

Í þriðja lagi er mælt fyrir um að lögreglu verði við tilteknar aðstæður heimilt að beita þvingunarúrræði í því skyni að koma í veg fyrir brot gegn öryggi ríkisins. Nánar tiltekið er um heimild til haldlagningar að ræða er beinist að þriðja aðila og verður henni aðeins beitt að undangengnum dómsúrskurði.

Ríkt aðhald með störfum lögreglu

Vegna eðlis og umfangs tiltekinna aðgerða sem lögreglu verður heimilt að beita í þágu afbrotavarna er kveðið á um í frumvarpinu að nefnd um eftirlit með lögreglu skuli hafa eftirlit með að aðgerðir uppfylli skilyrði laganna. Telji nefndin tilefni til skal hún taka aðgerð til skoðunar og sé afstaða nefndarinnar að aðgerðir lögreglu hafi ekki uppfyllt skilyrði laga getur nefndin beint því til lögreglustjóra að tilkynna viðkomandi að hann hafi sætt eftirliti. Er lögreglustjóra skylt að verða við slíkum tilmælum. Vakni hins vegar grunur um refsiverða háttsemi skal nefndin án tafar senda héraðssaksóknara eða eftir atvikum ríkissaksóknara málið til meðferðar. Með þessu er tryggt að einstaklingar geti leitað réttar síns komi til þess að aðgerðir hafi verið viðhafðar að ósekju eða ekki uppfyllt skilyrði laga að öðru leyti. Loks er mælt fyrir um þinglegt eftirlit þar sem nefndin skal skila Alþingi skýrslu ár hvert um störf sín.

Frumvarp þetta veitir þannig ríkt og nauðsynlegt aðhald með störfum lögreglu, ekki aðeins á sviði afbrotavarna, heldur einnig almennt og er því ekki aðeins til þess fallið að bæta starfsumhverfi lögreglu heldur einnig auka réttaröryggi borgaranna. Frumvarpið, auk annarra aðgerða, er mikilvægur þáttur í að styrkja afbrotavarnir íslensks samfélags. Verði frumvarpið samþykkt er stigið nauðsynlegt skref í að fyrirbyggja afbrot og stuðla að auknu almannaöryggi og velferð allra.

Höfundur er dómsmálaráðherra.