Bryndís Hrafnkelsdóttir
Bryndís Hrafnkelsdóttir
Happdrætti Háskóla Íslands fjárfestir um þessar mundir í starfseminni. Happdrættisvélar verða endurnýjaðar sem og tölvukerfi. „Ríkiskaup, fyrir hönd Happdrættis Háskóla Íslands, hafa óskað eftir tilboðum í 30 nýjar happdrættisvélar sem er liður í reglubundinni endurnýjun þeirra

Happdrætti Háskóla Íslands fjárfestir um þessar mundir í starfseminni. Happdrættisvélar verða endurnýjaðar sem og tölvukerfi. „Ríkiskaup, fyrir hönd Happdrættis Háskóla Íslands, hafa óskað eftir tilboðum í 30 nýjar happdrættisvélar sem er liður í reglubundinni endurnýjun þeirra. Áætlað er að endurnýja fleiri happdrættisvélar á þessu ári,“ segir Bryndís Hrafnkelsdóttir forstjóri HHÍ í svari til blaðsins.

„Samhliða kaupunum á happdrættisvélunum er Happdrættið að endurnýja tölvukerfi [e. platform] en það er veigamikill liður í innleiðingu rafrænna spilakorta sem eru tengd farsímum. Spilakortin eru að norrænni fyrirmynd en markmiðið með þeim er að stuðla að heilbrigðari leikjamarkaði og ábyrgri spilun, sporna við spilavanda og verjast peningaþvætti. Þegar kortið verður komið í notkun geta viðskiptavinir meðal annars takmarkað þátttöku sína í happdrættisvélum eða útilokað sig frá spilun, tímabundið eða varanlega. Rafrænu spilakortin eru raunhæf og árangursrík leið til að stemma stigu við spilavanda og hafa gefið góða raun í löndunum í kringum okkur.“

Bryndís nefnir að innleiðing spilakortanna sé að frumkvæði HHÍ. „Happdrætti Háskólans hefur þegar lagt í umtalsverða fjárfestingu og vinnu við innleiðingu rafrænu spilakortanna. Happdrættið hóf þessa vegferð að eigin frumkvæði, og án aðkomu stjórnvalda, til að stuðla að heilbrigðari leikjamarkaði og ábyrgri spilun. Happdrættið stefnir að því að innleiða rafrænu spilakortin á næstu misserum en þau verða hluti af Happinu, nýju appi Happdrættisins, og munu fela í sér bætta þjónustu og aukið öryggi við viðskiptavini,“ segir Bryndís. kris@mbl.is