Gísli Reynisson
Gísli Reynisson
Nú er eitthvað skrýtið í gangi því allt í einu voru veðbankar farnir að spá Íslandi sigri í Eurovision án þess að vita hvaða lag eða tónlistarflytjendur myndu syngja fyrir Íslands hönd.

Gísli Reynisson

Það er ekki auðvelt að búa á þessari fallegu eyju lengst norður í Atlantshafinu, þar sem náttúran leikur stórt hlutverk í að gera lífið á Íslandi erfitt, t.d. eldgos, sjávarflóð, aurskriður, snjóflóð og fleira. Ásamt því að á Íslandi búum við við eitt furðulegasta lánakerfi í Evrópu. Þú ert alla ævi að borga húsnæðislán og lífsævin sjálf dugir ekki einu sinni til þess að greiða upp húsnæðislán.

Þrátt fyrir þessa erfiðleika hafa Íslendingar mikið þjóðarstolt, sem lýsir sér best í því að þegar til dæmis landsliðin okkar standa sig vel þá fylkir þjóðin sér á bak við þau. Besta dæmið um það er handboltalandsliðið. Íslendingar hópast saman og styðja liðið alla leið sama hvað á gengur. Íslendingar klæða sig upp og bera merki íslenska fánans og lyfta honum stolt.

Hið sama má segja um íslenska tónlistarmenningu. Í gegnum tíðina hafa Íslendingar átt meiri háttar tónlistarfólk, og flóran er mjög mikil; allt frá Sigurrós og Björk yfir í íslenskar þunga- og dauðarokkssveitir sem hafa gert það gott á erlendri grundu. Skálmöld, Sólstafir og Devine Defilement svo dæmi séu tekin.

Árið 1986 opnaðist svo nýr heimur fyrir íslenska tónlistarmenn þegar Ísland tók þátt fyrst í Eurovision, og síðan árið 1986 eru Íslendingar alltaf búnir að vinna keppnina í huganum áður en raunverulega keppnin hefst. Eurovision hefur í gegnum árin sameinað íslensku þjóðina sem situr spennt og fylgist með íslensku flytjendunum og er stolt af þeim. Listinn yfir íslenska tónlistarmenn og -konur sem hafa tekið þátt bæði í íslensku undankeppninni og aðalkeppninni er langur, en á það eitt sameiginlegt að það er íslenskt þar á bak við.

Núna árið 2024 þá er mjög skrýtið í gangi, því allt í einu voru veðbankar farnir að spá Íslandi sigri í Eurovision án þess að vita hvaða lag eða tónlistarflytjendur myndu syngja fyrir Íslands hönd.

Það hefur nefnilega komið í ljós að í keppninni núna árið 2024 er tónlistarmaður frá Palestínu að keppa í undankeppninni á Íslandi og sá hefur heldur betur fengið athygli, í það minnsta frá Vísir.is. Tvö löng viðtöl hafa birst við þennan söngvara, og að sama skapi hafa íslensku flytjendurnir litla sem enga athygli fengið.

Það eru flottir tónlistarmenn og -konur að keppa núna árið 2024. Ég hálfvorkenni þessum íslensku tónlistarmönnum og -konum því að umræðan í það minnsta snýst einungis um þennan tónlistarmann frá Palestínu sem keppir.

Hvaða erindi á í íslensku söngvakeppnina tónlistarmaður frá Palestínu sem ekki er íslenskur og talar ekki íslensku? Söngvakeppni sem í gegnum árin hefur látið íslensku þjóðina fylgjast stolt með íslensku tónlistarfólki flytja tónlist sína bæði hérna á landinu sem og erlendis?

Það lítur út fyrir að íslenska þjóðarstoltið sé að brotna niður og deyja, því allt bendir til að þessi erlendi tónlistarmaður fari alla leið. Íslenska tónlistarfólkið hefur fallið í skuggann af þessum tónlistarmanni, og meðal þeirra er ein af okkar betri söngkonum, Hera Björk, sem er með frábært lag sem á fullt erindi til Svíþjóðar, og íslenska þjóðin myndi vera stolt af að heyra Heru syngja fyrir Íslands hönd í Svíþjóð.

Hvert er þjóðin okkar komin þegar íslenska þjóðarstoltið er svo til horfið og við horfum ekki lengur á okkar eigin tónlistarfólk til þess að flytja tónlist sína frammi fyrir heiminum í þessari risakeppni sem Eurovision er?

Við erum íslensk þjóð, og eigum að varðveita það, til dæmis með íslensku tónlistarfólki sem vill syngja á íslensku og flytja tónlist sína í þessari stóru keppni og vera stolt fyrir Íslands hönd.

Höfundur eigandi aflafrettir.is.