Tíu Úlfar Páll Monsi Þórðarson lét afar vel að sér kveða og skoraði tíu mörk fyrir Val í tveggja marka sigri á Metaloplastika í Serbíu á laugardagskvöld.
Tíu Úlfar Páll Monsi Þórðarson lét afar vel að sér kveða og skoraði tíu mörk fyrir Val í tveggja marka sigri á Metaloplastika í Serbíu á laugardagskvöld. — Ljósmynd/Aleksandar Djorovic
Valur tryggði sér á laugardagskvöld sæti í átta liða úrslitum Evrópubikars karla í handknattleik með glæsilegum sigri á Metaloplastika Sabac, 30:28, í síðari leik liðanna í 16-liða úrslitum í Sabac í Serbíu

Evrópubikar

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Valur tryggði sér á laugardagskvöld sæti í átta liða úrslitum Evrópubikars karla í handknattleik með glæsilegum sigri á Metaloplastika Sabac, 30:28, í síðari leik liðanna í 16-liða úrslitum í Sabac í Serbíu.

Valur vann fyrri leikinn á Hlíðarenda um þar síðustu helgi með einu marki, 27:26, og einvígið því samanlagt 57:54.

Valur byrjaði leikinn betur en síðari hluta fyrri hálfleiks tók Metaloplastika hann yfir og leiddi með fjórum mörkum, 16:12, í hálfleik.

Í síðari hálfleik bitu leikmenn Vals í skjaldarrendur og skelltu í lás í vörninni. Metaloplastika var einungis búið að skora fjögur mörk þegar 20 mínútur voru liðnar af síðari hálfleiknum og staðan orðin jöfn, 20:20.

Fimm mörk í röð undir lokin

Stuttu síðar náðu heimamenn tveggja marka forystu, 22:24, en Valur svaraði því með mögnuðu áhlaupi sem skilaði sér í fimm skoruðum mörkum í röð. Staðan orðin 27:24 og útlitið orðið afar gott fyrir Val, sem hélt út og vann að lokum frábæran tveggja marka sigur.

Úlfar Páll Monsi Þórðarson átti stórleik og skoraði tíu mörk fyrir Val. Benedikt Gunnar Óskarsson bætti við sjö mörkum.

Skrítinn og skemmtilegur

„Tilfinningin er eiginlega frábær. Þetta var mjög skrítinn leikur og skemmtilegur. Tilfinningin eftir hann, bæði að vera komnir áfram og að hafa unnið hann, er mjög góð.

Þetta var sveifluleikur. Mér fannst við miklu betri í upphafi. Vörnin, Björgvin [Páll Gústavsson markvörður] og allt gott. Svo lendum við í svaka hremmingum síðasta kortérið í fyrri og þetta leit ekkert vel út í hálfleik.

Svo fannst mér við ná vörninni og þeir fara að gera meira af tæknifeilum. Við fáum hraðaupphlaup og einföld mörk og þá varð þetta meira svona okkar leikur.

Við náðum því upp sem við erum mest þekktir fyrir, vörn og hraðaupphlaup. Það svona skóp sigurinn,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals í samtali við Morgunblaðið. Nánar er rætt við Óskar Bjarna á mbl.is/sport/handbolti.

Leikur FH-inga hrundi

Á laugardagskvöld mátti FH sætta sig við stórt tap, 31:23, fyrir Tatran Presov í síðari leik liðanna í 16-liða úrslitum Evrópubikarsins í Presov í Slóvakíu og er þar með úr leik í keppninni.

FH vann fyrri leikinn, sem einnig fór fram í Presov, með fimm mörkum á föstudag og tapaði einvíginu því samanlagt 61:58.

Staðan í hálfleik var 15:13, Presov í vil, og FH því enn í prýðismálum. Í síðari hálfleik virtist ekkert benda til þess að Hafnfirðingar myndu tapa illa enda tókst þeim að minnka muninn niður í aðeins eitt mark í stöðunni 20:19.

Eftir það hrundi hins vegar leikur FH og niðurstaðan að lokum átta marka tap, sem þýðir að þátttöku liðsins er lokið í Evrópubikarnum.

Ásbjörn Friðriksson og Jóhannes Berg Andrason voru markahæstir í liði FH með sex mörk hvor.