Kös Burðast með farangurinn í Peking. Á nýárshátíðinni leggja margir Kínverjar land undir fót.
Kös Burðast með farangurinn í Peking. Á nýárshátíðinni leggja margir Kínverjar land undir fót. — AFP/Pedro Pardo
Tölur sem birtar voru á sunnudag sýna að tekjur kínverska ferðaþjónustugeirans í kringum kínverska nýárið voru 47,3% hærri í ár en í fyrra, og 7,7% hærri en árið 2019

Tölur sem birtar voru á sunnudag sýna að tekjur kínverska ferðaþjónustugeirans í kringum kínverska nýárið voru 47,3% hærri í ár en í fyrra, og 7,7% hærri en árið 2019. Þá fjölgaði ferðum innanlands um 19% frá 2019, en nýárshátíðinni fylgja að jafnaði miklir fólksflutningar vegna heimsókna fólks til ættingja og vina í öðrum landshlutum.

Reuters greinir frá þróuninni og minnir á að það kunni að lita tölurnar að þetta árið vöruðu hátíðahöldin á nýári tungltímatalsins einum degi lengur en 2019.

Allt síðan kórónuveirufaraldurinn brast á hefur doði verið yfir kínverska hagkerfinu og verð hlutabréfa leitað niður á við. Gætu ferðatölurnar í ár verið til marks um aukna kaupgleði hjá kínverskum neytendum og möguleg umskipti. Ein vísbending um þróttmeira efnahagslíf er að kínversk kvikmyndahús slógu miðasölumet þetta nýárið og seldu miða fyrir átta milljarða júana, jafnvirði 1,11 milljarða dala. ai@mbl.is