Jenný Bergljót Sigmundsdóttir fæddist í Reykjavík 8. maí 1940. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi 12. febrúar 2024.

Foreldrar hennar voru Hanne Sofie Halldórsson húsmóðir, f. 1904 í Haugasundi, Noregi, d. 1988, og Sigmundur Halldórsson húsasmíðameistari, f. 1903 í Skeljavík í Strandasýslu, d. 1971. Systur Jennýjar eru Kristín, f. 1932, d. 2007, Dóra Sigríður, f. 1933, d. 1937, Dóra. f. 1937, d. 2012, Guðrún, f. 1943, og Benedikta Sigurrós (samfeðra), f. 1929, d. 2014.

Jenný giftist fyrri manni sínum, Gustaf F. Metzelaar (Skúlason), f. 1927 í hollensku nýlendunni Indónesíu, d. 1990. Þau slitu samvistir. Dætur þeirra eru Soffía Michiko, f. 1960, og Sylvía Bergljót, f. 1963.

Jenný giftist síðar Árna Björgvinssyni og gekk hann dætrum hennar í föðurstað. Foreldrar Árna voru Björgvin Bjarnason og Ingibjörg Árnadóttir. Dóttir Árna er Jónína, f. 1957, d. 2020. Uppeldissonur Jennýjar og Árna er Davíð Örn Guðjónsson, f. 1977.

Jenný ólst upp í samheldnum systrahópi í Reykjavík á heimili foreldra sinna í Efstasundi. Hún gekk í Langholtsskóla og útskrifaðist úr Kvennaskólanum í Reykjavík. Hún hélt alltaf tryggð við skólasystur sínar úr Kvennaskólanum, þar til heilsan brast. Hún hóf starfsferil sinn hjá Rannsóknastofu Háskólans við skrifstofustörf og starfaði síðar sem gjaldkeri hjá Hilmi hf. sem gaf út blaðið Vikuna.

Jenný starfaði um árabil hjá Slökkvistöð Reykjavíkur við skrifstofustörf og var ritari þriggja slökkviliðsstjóra. Hún starfaði einnig hjá húsgagnaversluninni Happy húsgögnum og í móttökunni á heilsulindinni Mecca Spa við Nýbýlaveg.

Jenný var mikil hestakona og var einn af stofnendum Íshesta, ásamt eiginmanni sínum Árna Björgvinssyni og fleirum.

Útför Jennýjar fer fram í Lindakirkju í dag, 19. febrúar 2024, klukkan 13.

Jenný móðursystir var okkur afar kær. Hún var unglingur þegar við elstu systurnar fæddumst. Hún hefur sagt okkur frá því að þegar hún kom heim úr skólanum henti hún frá sér skólatöskunni í Efstasundinu og hljóp heim til systur sinnar á Langholtsvegi, hennar Duddýjar mömmu okkar, til að hitta hana og litlu frænkur sínar. Hún hafði gaman af að leika við litlu stúlkurnar, bæði í inni- og útileikjum, eins og til dæmis að fara með þeim á sleða niður í þvottalaugarnar í Laugardalnum.

Það var alla tíð mjög kært á milli þeirra systranna, móður okkar og Jennýjar. Við munum vel eftir þeim syngjandi og spilandi á gítar í stofunni heima á Langholtsvegi. Þar var mikið spjallað og hlegið og notaleg stemning og hinar systurnar, Dóra og Gurí, litu líka oft við. Pabbi og Árni, maður Jennýjar, voru góðir vinir og mikill samgangur á milli heimilanna. Við yngri systkinin minnumst þess hversu skemmtilegt og spennandi var að heimsækja Jennýju frænku og Árna í Kópavoginn. Þar var Bonzo, hundurinn þeirra, sem hljóp reyndar oft til ömmu í áðurnefndu Efstasundi með viðkomu hjá okkur á „Langó“. Og í Kópavoginum horfðum við á vídeó, sem var ekki til heima og því tilhlökkunarefni. Jenný og Árni voru mikið hestafólk og það var að sjálfsögðu líka afskaplega spennandi fyrir okkur systkinin. Dætur Jennýjar, Soffía (Mitsí) og Sylvía, hafa alltaf verið nánar okkur systkinunum og eru á svipuðu reki og við miðjusystkinin. Jenný, Árni og dæturnar eru mikilvægur þáttur í okkar lífi og góðu minningarnar eru ótal margar.

Hún Jenný okkar var litrík, skemmtileg, hlý og dásamleg manneskja og á sérstakan stað í hjörtum okkar allra. Við sendum Árna, Mitsí, Sylvíu og fjölskyldum innilegustu samúðarkveðjur.

Ásta, Soffía, Kristín Elfa, Ingimundur, Guðni Arnar og Valgerður (Vala).

Hún Jenný æskuvinkona mín hefur nú kvatt þessa jarðvist. Vissulega er hennar sárt saknað en einnig er léttir að erfiður lokakafli lífs hennar sé á enda. Við tvær áttum skemmtilega og oft ævintýralega tíma saman sem börn og unglingar í Kleppsholtinu þegar það var nýtt hverfi í uppbyggingu.

Mig langar til að nefna nokkur minningabrot frá þeim tíma. Leiksvæði krakkanna var stórt – víðáttumikil Kleppstúnin þar sem hægt var að fara á skauta á veturna og leiðangra á sumrin. Skipakirkjugarðurinn í Vatnagörðum bjó einnig yfir miklu aðdráttarafli og óðum við stundum út í bátana til að leika okkur. Eftir eina slíka ferð urðum við að staulast á sokkaleistunum heim því við höfðum skilið skóna eftir í flæðarmálinu og þeir flutu í burtu þegar féll að.

Þegar við vorum sextán ára lögðum af stað austur fyrir fjall fótgangandi í ævintýraleit og enduðum á sveitaballi austur í Biskupstungum þar sem við fengum að gista í hlöðu á næsta bæ.

Það er auðvelt að sjá þennan tíma um miðja síðustu öld í ævintýraljóma, en flest ævintýrin voru sprottin af okkar eigin frumkvæði og kostuðu lítið.

Einhvers staðar er til skjal undirritað af okkur þar sem við heitum því að þegar efni og ástæður gefist ætlum við að hjóla frá Danmörku og suður alla Evrópu. Þetta var heimsreisa í okkar augum. Sú ferð verður úr þessu ekki farin fyrr en við vinkonurnar hittumst aftur hinum megin, vonandi ungar og hressar.

Ég votta fjölskyldu Jennýjar mína dýpstu samúð.

Guðlaug
Sveinbjarnardóttir.